20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4671 í B-deild Alþingistíðinda. (4834)

313. mál, steinullarverksmiðja

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið árið 1975 sem bæjarstjórn Sauðárkróks og áhugamenn um iðnvæðingu tóku til við að rannsaka möguleika á því að reist yrði steinullarverksmiðja í Skagafirði. Þessar frumathuganir hnigu að því að byggja allstóra verksmiðju sem m. a. byggði á útflutningi og kannske byggðist fyrst og fremst á því, að verulegt magn framleiðsluvörunnar yrði flutt á erlenda markaði. Þessi vinna stóð yfir í allmörg ár og satt best að segja leist mér ekki á þá útreikninga sem þá lágu fyrir. Sérstaklega benti markaðskönnun erlendis til þess, að ekki væri skynsamlegt að ætla sér að byggja á útflutningi á þessari vöru, og hníga að því mörg rök sem mönnum hér eru kunn.

En í byrjun s. l. árs var tekið til við að rannsaka byggingu verksmiðju með allt öðrum hætti, miklu minni verksmiðju sem fyrst og fremst byggði á innlendum markaði, en flytti kannske einhverja offramleiðslu út, og þá auðvitað verksmiðju sem síðar meir mætti stækka eftir því sem markaðsþörf innanlands ykist. Þessa útreikninga og þessar athuganir hef ég auðvitað reynt að kynna mér og ég sé ekki betur en þarna gæti orðið um arðvænlegt fyrirtæki að ræða. Þó þarf það mál allt að skoðast miklu betur. Hins vegar væri allt of áhættusamt að ætla að leggja í byggingu mjög stórrar verksmiðju sem fyrst og fremst eða að mjög miklu leyti byggði á sölu til annarra landa.

Þessi verksmiðja, sem fyrirhuguð er í Skagafirðinum, er með þeim hætti, að með tiltölulega litlum breytingum má jafnframt framleiða glerull ef sú vörutegund væri talin að einhverju leyti heppilegri en steinullin.

Ég er sammála hv. iðnn. um, að það á að hafa allan vara á í þessu efni, og styð eindregið brtt. n. Þær eru til mikilla bóta á frv.

Í fyrsta lagi hlýtur auðvitað frumkvæði og áhætta að koma frá áhugamönnum og þeim athafnamönnum sem vilja hafa forustu í þessum efnum, en alls ekki frá ríkisvaldinu, og í annan stað er auðvitað alveg ljóst mál að það er ekki hægt að ráðast í slíkt fyrirtæki án þess að nokkuð örugglega sé gengið frá sölumálum þannig að fyrirtækið fari ekki þráðbeint á hausinn strax í upphafi vegna þess að framleiðsluvaran seljist ekki eða aðeins örlítill hluti hennar, sem svarar til innanlandsmarkaðarins.

Þó að ég sé sammála þessum fyrirvörum og að fara eigi að öllu með gát er hitt annað mál, að sjálfsagt eru þau fyrirtæki hérlendis fá sem hafa risið og menn fyrir fram verið öruggir um að mundu skila hagnaði. Ég held að það sé varla hægt að reikna út að skuttogari t. d. á Íslandi geti yfirleitt borið sig fyrstu árin. Einhvern veginn höfum við lifað á skuttogaraútgerð að undanförnu og þannig hefur það verið með útgerð, iðnað og atvinnufyrirtæki yfirleitt: Það er auðvitað alltaf áhætta samfara slíku og kannske ekki unnt að gera ráð fyrir hagnaði allra fyrstu árin. Við þekkjum það t. d. í sambandi við stóriðju. Menn gengu að því með opnum augum að byggja verksmiðjuna á Grundartanga þó að fyrir lægi að hún yrði rekin með einhverjum halla allra fyrstu árin. $n þegar fyrirtækin eru orðin afskrifuð og þegar verkmenning færist í aukana, þegar menn ná betri tökum á framleiðslunni o. s. frv. fara fyrirtækin að skila arði. Þess vegna megum við ekki horfa á það þó að arður sé allra fyrstu árin kannske lítill. Engu að síður hljótum við að halda áfram iðnaðaruppbyggingu og auðvitað stórauka hana, og þess vegna tel ég alveg sjálfsagt að þetta frv. verði samþykkt.

Ég ætla ekki að hefja neinar deilur um hvar slík verksmiðja eigi að rísa. Ég vek aðeins athygli á því, að það voru Skagfirðingar sem hófu þessar athuganir og má því kannske segja að það sé viss siðferðilegur réttur sem þeir hafi. En að sjálfsögðu á að byggja verksmiðjuna þar sem arðvænlegast er, þó að hafa beri hliðsjón af byggðaþróun, og þess vegna er einmitt sjálfsagt að afgreiða frv. með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég styð málið í heild og ekki síst brtt.