20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4679 í B-deild Alþingistíðinda. (4840)

313. mál, steinullarverksmiðja

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., en vil vegna þess, sem hér hefur fram komið áður, votta hv. iðnn. Ed. virðingu mína og aðdáun fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefur látið í té við afgreiðslu þeirra verksmiðjumála sem fram hafa verið lögð, og um leið láta í ljós efasemdir mínar og gagnrýni á hæstv. iðnrh. fyrir að demba þessum mikilvægu frv. inn á síðustu vikum þingsins. Mér sýnist að hvert einasta þeirra sé svo mikilvægt að ekki hefði veitt af að þau hefðu fengið mánaðameðferð hér í þinginu, ef vel hefði átt að vera, hvert fyrir sig.

Vegna þess, sem kom fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni, vil ég undirstrika það, að ég tel ekki að markaðsmál steinullarverksmiðju séu neitt ótryggari eða verri en annarra verksmiðja sem hér er um fjallað. Ég tel að t. d. markaðsmál saltverksmiðju séu á engan hátt betur tryggð en steinullarverksmiðju. Við vitum að framleiðsla þessara verksmiðja beggja útheimtir mjög mikinn flutningskostnað, og ég sé ekki að það sé neitt sem bendir til þess, að flutningskostnaður frá verksmiðju, sem er staðsett norðanlands og framleiðir á innanlandsmarkað, þyrfti að vera miklu lægri flutningskostnaður frá verksmiðju, sem er staðsett norðanlands og framleiðir á innanlandsmarkað, þyrfti að vera miklu lægri en t. d. flutningskostnaður verksmiðju, sem staðsett er á suðurströndinni, þyrfti að verða á markað í Evrópu.

Ég vil vekja athygli á því merkilega brautryðjandastarfi sem Jarðefnaiðnaður hf. á Suðurlandi hefur unnið á undanförnum árum. Þarna er verið að vinna stórvirki í því að flytja út á erlendan markað íslensk jarðefni, vikur og önnur steinefni, og þetta fyrirtæki leitar nú allra leiða til þess að koma þessum steinefnum á erlendan markað: Ég tel að einmitt steinullin sé ein leiðin til þess að svo geti orðið. Ég sé ekkert því til foráttu, að leitað verði allra leiða til að koma þessari framleiðslu á erlendan markað, og vil ætlast til þess, að það verði eingöngu afkoma fyrirtækisins sem verður látin ráða um staðsetningu, en ekki önnur sjónarmið.

Ég ætla ekki að taka þátt í neins konar skæklatogi um hver staðsetningin verður, en ég vil mælast undan því, að Suðurland verði talið til stór-Reykjavíkursvæðisins, eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði áðan, og vil benda á að steinullarverksmiðja, sem staðsett yrði á suðurströndinni, hefði ekki eingöngu atvinnuáhrif í einu þorpi, heldur hefði hún áhrif á afkomu fólks og atvinnu á stóru svæði. T. d. mundi hún hafa veruleg áhrif í Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Hveragerði. Einmitt er ástæða til að vekja athygli á að Suðurland hefur í atvinnulegu sjónarmiði og atvinnulegri uppbyggingu orðið verulega út undan á undanförnum árum og meðaltekjur í Suðurlandskjördæmi eru með þeim lægstu í landinu. Þar breytir engu um hvort verksmiðjan er staðsett á Norðurlandi vestra eða Suðurlandi því að bæði eiga þessi kjördæmi í vök að verjast í þeim efnum.