11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

49. mál, varnir vegna hættu af snjóflóðum og skriðuföllum

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 53 hef ég ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Stefáni Valgeirssyni, Sverri Hermannssyni og Stefáni Jónssyni leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir að sett verði hið fyrsta, og eigi síðar en á árinu 1981, heildarlöggjöf um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla.

Við samningu löggjafarinnar verði m.a. höfð í huga eftirfarandi atriði:

a) Staðið verði skipulega að gagnasöfnun um snjóflóð og skriður, sem fallið hafa, og rannsóknum á staðháttum og veðurfarsþáttum á þeim stöðum þar sem búast má við hættu af völdum snjóflóða eða skriðufalla. Á grundvelli slíkra athugana verði landinu skipt í svæði með tilliti til þessara þátta og settar verði reglur um nýtingu einstakra svæða.

b) Við skipulag byggðar gildi sú meginregla að byggja ekki hús til íbúðar eða atvinnurekstrar á svæðum, sem talið er af sérfróðum aðilum að snjóflóð eða skriðuföll geti náð til. Ekki verði hafin vinna við skipulag vegna byggðar á nýjum svæðum fyrr en fyrir liggur úttekt og afstaða réttra aðila með tilliti til ofangreindra þátta. Sé talið óhjákvæmilegt að byggja á slíkum svæðum liggi fyrir mótaðar tillögur um kröfur til bygginga, um varnarvirki, tilkostnað og fjármögnun við gerð þeirra, áður en afstaða er tekin til skipulagstillagna af yfirvöldum.

c) Gerðar verði tillögur um varanleg varnarmannvirki fyrir byggð á hættusvæðum svo og fyrir mikilvægar samgönguleiðir, orkulinur, hitaveitur og önnur mikilvæg mannvirki.

d) Rannsóknum á þessu sviði og fyrirbyggjandi varnaraðgerðum verði markaður ákveðinn sess í stjórnkerfi landsins og lagður fjárhagslegur grundvöllur að slíku starfi og mótaðar reglur um kostnaðarhlutdeild opinberra aðila í því sambandi.

e) Tryggt verði að ekki sé haldið áfram mannvirkjagerð á líklegum hættusvæðum nema að vandlega athuguðu máli eða uns viðunandi varnaraðgerðum hefur verið komið í framkvæmd.

f) Á stöðum, þar sem byggð er risin og hætta er talin á snjóflóðum, verði komið upp eftirlits- og viðvörunarkerfi er tengist áætlun um rýmingu svæðanna þegar hætta er talin yfirvofandi. Á þeim stöðum á landinu, þar sem snjóflóðahætta er mest, verði stefnt að því að koma á fót svæðisstöðvum þar sem fylgst verði með veðurfari og öðrum þáttum, sem áhrif hafa á snjóflóða- og skriðuhættu, og safnað og miðlað upplýsingum til réttra aðila.

g) Lögð verði áhersla á fræðslu og upplýsingar til almennings um þessi mál, bæði að því er varðar byggð ból og ferðalög og útivist utan byggðar, um hættu vegna snjóflóða og skriðufalla. Björgunaraðilum í landinu verði kynnt undirstöðuatriði varðandi björgun úr snjóflóðum og almenningi hversu bregðast skuli við í slíkum tilfellum og forðast hættur.“

Þessi till. hefur tvívegis áður verið flutt, en ekki hlotið afgreiðslu. Skal nú aðeins vitnað í ítarlega grg. um nauðsyn skipulegs átaks. Sú grg. er byggð á riti hins færasta manns í þessum efnum, ritinu Snjór og snjóflóð sem tekið er saman af Þórarni Magnússyni verkfræðingi, sem starfaði sérstaklega varðandi vandamálið í Neskaupstað eftir að samþ. hafði verið hér á Alþ. þáltill. frá Tómasi Árnasyni um rannsóknir á snjóflóðum og skriðuföllum, sem Rannsóknaráð ríkisins skipaði síðan nefnd til að gera tillögur um frekara fyrirkomulag á. Sú nefnd skilaði áliti, en síðan hefur ekkert í málinu gerst sem hefur þokað því neitt áleiðis. Til þessa rits Þórarins um snjóflóð og reyndar einnig varðandi skriðuföllin er vitnað rækilega í þessari grg. og ég tel óþarft að endurtaka efnisleg rök, eins vel og það hefur verið gert áður, og e.t.v. öðru fremur sakir þess hve þessi efnislegu rök liggja í augum uppi.

Hér er um að ræða mikil verðmæti sem í húfi eru, að ekki sé minnst á mannslífin, þannig að allir hljóta að vilja leggjast á eitt um þær fyrirbyggjandi aðgerðir, þá skipulegu vinnu sem að dómi hæfustu manna hlýtur til að koma. Hvort í tillöguþáttunum er nákvæmlega að því eina rétta vikið eða hversu tæmandi upptalning þar er skal ósagt látið, en a.m.k. er það traustur grunnur á að byggja, en í alla löggjöf okkar skortir þann grunn nú.

Grg. minnir á einstakar athuganir, einstök átök sem hafa verið gerð hér og því miður átök sem eingöngu hafa verið gerð í kjötfar hörmulegra atburða. En án heildarskipulags allra þessara mála næst aldrei árangur sem skyldi, — árangur sem vissulega er full þörf á.

Í grg. er einnig rakið ítarlega hvernig málum er háttað í þeim löndum þar sem aðstæður og staðhættir eru viðlíka og hér á landi. Það er ljóst af því sem þar kemur fram, að þar leggja menn mikla áherslu á skipulagðar aðgerðir til varnar gegn vá sem við höfum svo sannarlega fengið að kynnast á hörmulegan hátt og enginn veit í raun hvar og hvernig getur gerst ef við fljótum sofandi að feigðarósi.

Það má ekki verða að við aðhöfumst ekkert í þessu, og ég trúi því vart að þessi till., flutt af þm. allra flokka, eins vel undirbyggð og ég tel hana vera af þeim sem grg. samdi, hún nái ekki fram að ganga nú á þessu þingi þegar nægur tími er til að athuga hana. Við flm. leggjum að sjálfsögðu enga áherslu á að orðréttu innihaldi hennar verði haldið, en að þeim meginþáttum, sem að er vikið i till., verði sinnt og þeim komið hér fram sem ályktun Alþ., þó vissulega hefði verið æskilegt að við flm. hefðum lagt í það meiri vinnu á þann máta að við hefðum getað komið með fullbúið frv. En þar er um mikið samræmingaratriði að ræða varðandi önnur lög og ýmsar reglugerðir sem þetta þyrfti að snerta.

Ég vitna svo að lokum til þess sem segir í grg. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi munu vera 15–20 þéttbýlisstaðir þar sem hætta getur verið á tjóni af völdum snjóflóða, skriðufalla eða grjóthruns, og mörg svæði og mannvirki hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum af þessum sökum.

Því miður eru þess víða dæmi, að mannvirki eru enn reist á svæðum, þar sem vitað er að skriður eða snjóflóð hafa fallið. Hér getur orðið um dýrkeypt mistök að ræða og leggja verður allt kapp á að koma í veg fyrir að slíkt haldi áfram. Fyrirbyggjandi aðgerðir hljóta, þegar til lengdar lætur, að vera sú fjárfesting sem skilar bestum arði.

Það getur varla talist eðlilegt, að á sama tíma og þjóðfélagið er reiðubúið að taka á sig stóráföll af völdum náttúruhamfara (sbr. lög um Viðlagasjóð og Viðlagatryggingu Íslands) skuli jafnlítil áhersla vera lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og raun ber vitni.“

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.