11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

59. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Markús Á. Einarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð um þessa till. og vil þá í fyrsta lagi lýsa yfir stuðningi við hana. Ég tel að þarna sé hreyft ákaflega mikilvægu máli, en jafnframt viðkvæmu máli. Það er ekki sama hvernig á þessu er haldið og nauðsyn á mikilli og góðri undirbúningsvinnu áður en lagareglum er breytt frá núgildandi horfi.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég efast stórlega um að það ætti að hækka formleg aldursmörk. Þau eru nú um 70 ár og það er einfaldlega staðreynd, sem horfast verður í augu við, að við einhver tímamörk og þá alveg eins við 70 ára aldur og eitthvað þar í grennd þarf hvort eð er að meta stöðuna, ef svo má segja. Það þarf að meta hvort eða að hve miklu leyti starfsmaður er fær um að gegna fullu starfi áfram.

Það er sennilega nokkuð rík regla í störfum á vegum ríkisins, að því umfangsmeira sem starf er, þeim mun minni líkur eru á því að menn geti gegnt því áfram eftir 70 ára aldur. Þetta þarf á einhverju stigi að gera upp, og ég held að það fari best á því, að um það sé ákveðin regla hvenær slíkt eigi sér stað, og þá getur alveg eins verið um að ræða þau mörk, sem nú eru, og einhver önnur. Það breytir þó engu um að mikil þörf er á að rýmka þær reglur sem gilda.

Nú er það svo, að menn geta látið af störfum við 65 ára aldur með rétti til lífeyris og reyndar fyrr stundum því nú er hin svonefnda 95 ára regla í rauninni að koma fram á sjónarsviðið aftur og gerir það að verkum að menn geta hætt störfum með fullum lífeyrisrétti enn þá fyrr, jafnvel 61–62 ára gamlir. Menn eiga því þarna ýmissa kosta völ. Þó er á þessu tímabili, frá 60–70 ára aldurs, einn annmarki. Hann er sá, að menn verða að líkindum að hætta alveg störfum til þess að tryggja fullan lífeyri í þeim launaflokki sem þeir hafa verið í. Það er sem sé þörf á því, eins og kemur fram í grg. með þessari till., að rýmka þarna til svo að menn geti að hluta hætt störfum fyrir 70 ára aldur án þess að lífeyrisréttindin sem slík skerðist. Síðan kemur aðalvandinn, sem er hvað gera skal eftir 70 ára aldur. Þá á að mínu mati að taka við tímabil hlutastarfa eða léttra starfa sem meta verður eftir heilsufari hverju sinni í hversu ríkum mæli maðurinn getur tekið að sér.

Það þarf mjög nauðsynlega að rýmka getu ríkisstofnana til að veita starfsliði vinnu eftir 70 ára aldur. Það er ómögulegt að snögg verklok séu til góðs fyrir nokkurn mann sem hefur fulla heilsu. Ég er viss um að það er vafasamt að hvetja menn til að hætta störfum, jafnvel þó þeir eigi rétt til þess, fyrir 70 ára aldur. En því verður ekki neitað, að það er mikið verk fram undan, ef lagareglum verður breytt, að skipuleggja vinnu fyrir fólk sem náð hefur 70 ára aldri. Eins og nú er er því áreiðanlega svo varið í ýmsum ríkisstofnunum að þær hafa engin tök á því, þær hafa hvorki fjármuni til þess né aðstöðu, svo sem húsnæði, þó ekki væri annað. Þetta kostar því allt mikla undirbúningsvinnu.

En ég vildi aðeins láta í ljós ánægju mína með þessa till. Ég tel að hún sé til mikils gagns, en þarna þurfi að vinna undirbúningsstarf áður en lagareglum verði breytt. Mér sýnist að þarna sé stuðst við það grundvallaratriði, að vinnuorka er verðmæti sem vitaskuld á að nýta eins lengi og unnt er, bæði þjóðfélaginu til gagns og ekki síður starfsmönnunum sjálfum.