20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (4890)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust á þessu stigi málsins að halda langa ræðu um þetta mál, sem hér er til umfjöllunar. Þetta mál hefur verið til athugunar líklega allt frá árinu 1954 og oft og tíðum hefur verið reynt að reikna arðsemi í þetta svokallaða iðnaðartækifæri. Nú hefur það tekist að áliti iðnrn.

Ég fagna því út af fyrir sig, að ráðh. skuli hafa lagt þetta mál fyrir Alþingi. Það ber þó að harma hversu seint það kemur fram á þinginu ásamt öðrum svokölluðum S-málum, sem iðnrh. hefur gjarnan flutt ræður um á undanförnum árum, en komu til þingsins fyrst þegar langt var liðið á þingið og lítil tækifæri gáfust til að kynna sér þau. Hins ber þó að geta, að talsverð gagnrýni hefur komið á þessa framkvæmd og útreikningar þeir, sem liggja fyrir, arðsemisútreikningar, hafa verið gagnrýndir. Ýmsir telja að hér sé ekki um jafnmikla ábatavon að ræða og látið er í veðri vaka. Um það get ég ekki dæmt hér og nú. Það er siður að þingnefndir skoði málin.

Ég kemst þó ekki hjá því að benda á að í nál. Ed. er fskj. 1 frá Þjóðhagsstofnun þar sem segir m. a. að engar marktækar niðurstöður liggi fyrir um viðbrögð neytenda erlendis við fiski — söltuðum með Reykjanessalti. Á einum stað kemur fram, og það er í niðurstöðu frá Þjóðhagsstofnun, að af því, sem þar hefur verið rakið, verði niðurstaðan helst sú, að brugðið geti til beggja vona með samkeppnishæfni innlends fisksalts, en vinnsla verðmeiri aukaefna kunni að reynast ábatasamari. Jafnframt hljóta viðhorf til þessa máls að nokkru að mótast af því, hvort unnt sé að benda á aðra og ábatasamari hagnýtingu jarðvarmans á Reykjanesi, og þá jafnframt hversu eftirsóknarverður sá efnaiðnaður sé sem helst er nefndur í tengslum við saltverksmiðjuna.

Mér finnst ótækt að láta 1. umr. líða hér í hv. Nd. án þess að benda á að undirtektir Þjóðhagsstofnunar eru ekki gífurlega miklar. Þar er bent á að líkast til sé fyrst og fremst hægt að binda vonir við þau efni sem falla út — einhver efni sem eru ekki í sjálfu sér matarsalt, heldur annars konar afurð, kalí, kalsíum, vítissódi og bróm, og bendir það til þess að ekki hafi verið athugað nægilega vel í raun og veru hvort forsendur séu til þess að þetta sé ábatasamt fyrirtæki.

Þess skal getið, að uppi hafa verið raddir um það, og ég get ekki heldur lagt á það dóm, en tel ástæðu til að nefna það í 1. umr., sérstaklega vegna þess að ég tel að iðnn. Nd, þurfi að skoða það má! vel, að saltverð í heiminum fari frekar lækkandi en hækkandi. Eins og allir vita þarf ekki aðra orku en sólarorkuna til að vinna salt úr sjó í suðlægari löndum.

Það hefur verið bent á ýmislegt að undanförnu af aðilum sem þekkja til og eru hagsmunaaðilar og bæði eigendur í Undirbúningsfélaginu og jafnframt innflytjendur á salti. Hafa þeir reynt að reikna sig áfram á þeim forsendum sem gefnar eru af iðnrn. og nefndum á vegum þess. Án þess að ég geti lagt dóm á þær niðurstöður tel ég ástæðu til að kynna þær hér strax við 1. umr. málsins. Þar segir að ýmislegt sé óljóst og órannsakað og jafnvel hafi ekki fengist nægilega skýrar forsendur, ef þær eru þá til. Er talið í þeim reikningum, sem ég hef undir höndum, að árlegt rekstrartap gæti numið 2 700 millj. gkr. Er bent á að aukinn flutningskostnaður vegna saltfisks til Miðjarðarhafslanda sé um 400 millj. gkr. á ári vegna þess að ekki nýtist lestarrými á leiðinni heim. Á það er bent að Spánverjar eru nú með óhagstæðan viðskiptajöfnuð við Ísland upp á ca. 6600 gamlar millj. á ári, og talið er að með tilkomu saltverksmiðju muni þessi munur aukast jafnvel um 500 millj. gkr. Þá er bent á, eins og hjá Þjóðhagsstofnun, að óvíst sé að Spánverjar vilji kaupa saltfisk sem saltaður er með þessu verksmiðjusalti. Á það er bent að atvinnutækifærum fjölgi ekki að ráði, heldur sé hér um tilfærslu á atvinnutækifærum að ræða. Þá er það undirstrikað, sem kemur fram í skýrslu nefndar sem vann að þessu máli, að markaður fyrir kalsíumklóríð sé mjög ótryggur. Loks er bent á að kaupverð á kalíi til Áburðarverksmiðjunnar í jan. 1980 hafi orðið 75 dollarar á tonn, komið í hús 105 dollarar, og hafði þá staðið óbreytt í nokkur ár, en í áætlun sjóefnavinnslunefndar sé nefnd talan 123 dollarar komið í hús. Í forsendum þeirra, sem hér hafa reiknað, er borið saman það sem ætla má að verði saltverð á næstu árum.

Ég tel fyllilega ástæðu til þess að nefndin kanni þessi mál rækilega og gleymi ekki að það verður auðvitað að skoða, arðsemiútreikninga slíks fyrirtækis með það í huga að fjármagn, sem sett er í slíkt fyrirtæki, skili eðlilegum vöxtum, eins og það þarf að gera hjá öðrum fyrirtækjum innlendum, og hafa þeir, sem hér hafa reiknað, talið að 19% vextir á stofnkostnað mældan í dollurum sé eðlileg viðmiðun.

Ég hef rakið þessi atriði hér vegna þess að mér hefur fundist eftir lestur á fskj. með nál. Ed. að teflt sé á tæpt vað og það sé jafnvel hyggilegra að kanna slíkt mál enn betur af nefnd áður en látið er til skarar skríða. Ég skal þó segja það í lokin, að mér finnst full ástæða til að láta þá von í ljós, að þeir útreikningar, sem ég hef undir höndum, séu rangir og að arðsemi fyrirhugaðrar verksmiðju sé mun meiri en þar er sagt. En til þess að staðfesta það er auðvitað skylda þingnefndarinnar að fá þessa útreikninga betur athugaða. Ég legg til að þrátt fyrir að komið hafi gestir á fund nefndarinnar í Ed. verði því starfi haldið áfram í Nd. með þeim hætti að kannaðir verði þessir reikningar og fengnir til þess menn t. d. frá Þjóðhagsstofnun, en Gamalíel Sveinsson var sá sem sat í saltvinnslunefndinni á sínum tíma sem fulltrúi Þjóðhagsstofnunar, og kannað rækilega hvort arðsemihugmyndir iðnrn. séu á einhverjum rökum reistar.

Það, sem hér er sagt, er ekki sagt til að drepa þá hugmynd sem hér er á döfinni, heldur til að Nd. Alþingis geti betur tekið ákvörðun um þetta viðamikla mál, sem hefur verið tæp 30 ár á leiðinni í kerfinu, og sjá til þess að ekki verði tekin ákvörðun nema góðar ábatahorfur séu í málinu. Ég vona að þessi orð mín verði aðeins skilin á þann veg. Þau eru flutt til að skora á hv. þingnefnd að kanna þetta mál rækilega vegna gagna sem tiltölulega nýlega eru komin í hendur þm.