20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4699 í B-deild Alþingistíðinda. (4896)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég harma í upphafi míns máls hversu seint þetta mál er á ferðinni. En það er um það eins og ýmis önnur mál þessarar hæstv. ríkisstj., að hún dregur fram í síðustu lög að leggja mál fyrir þingið og ætlast svo til þess, að þau séu afgreidd á færibandi án þess að þingnefndir fái að fjalla um málin með eðlilegum hætti.

Ég hygg að það hafi vakið eftirtekt manna hversu stuttorður hæstv. iðnrh. var þegar hann mælti fyrir málinu. Það kom af þeirri brýnu nauðsyn, að hann var að reyna að flýta fyrir svo að það stæði þó ekki á honum þessa síðustu þrjá daga sem deildin á eftir að sitja að afgreiða þetta mál. Það er ekki ný saga, heldur hygg ég að sú skylda hvíli á stjórnarandstöðunni áfram, jafnvel hvaða ríkisstj. sem situr, að áminna ráðherrana um að skila frumvörpum sæmilega snemma inn í þingið ef ríkisstj. ætlast til að málin séu afgreidd, ekki síst ef mikið er í húfi og miklir fjármunir eru þar á ferðinni.

Ég tek undir með hv. 12. þm. Reykv., Guðmundi G. Þórarinssyni, að ég vona að flestir þm. eða þm. almennt nálgist þetta mál með jákvæðu hugarfari. Ég hygg að okkur sé öllum ljóst að á miklu ríður að okkur lærist að nýta náttúruauðlindir þannig að þær hjálpi okkur til að bæta mannlífið hér og lífskjörin. En því miður hefur reynslan ekki orðið sú af afskiptum ríkisstj., og sérstaklega ekki af afskiptum þessa hæstv. ráðh., af iðnaðar- og orkumálum að ástæða sé til þess að búast við að hann sé óskeikull í þessum efnum, sbr. síðasta embættisverk hans haustið 1979, þegar hann fyrirskipaði Bessastaðaárvirkjun, en hefur nú verið iðnrh. í rúmt ár án þess að sú virkjun komist aftur á blað, sbr. og ýmislegt fleira sem ég skal ekki rifja upp nú.

Ég hlýt að beina því til þeirrar þingnefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að gera á málinu rækilega könnun, líta á það frá öllum hliðum og gleyma ekki að það eru ekki aðeins hagsmunir saltinnflytjenda sem hér eru í húfi, heldur hagsmunir þjóðarheildarinnar. Ég vil m. a. benda á eitt smávægilegt atriði.

Ýmsum mönnum verður tíðrætt um að saltið, sem frá þessari verksmiðju komi, sé betra en það salt sem við fáum frá Spáni. Engin neytendakönnun hefur samt farið fram. Við vitum ekki hvernig markaðurinn bregst við saltinu af þeirri einföldu ástæðu að neytendakönnun hefur ekki farið fram.

Það er ýmislegt annað sem vekur spurningar og ekki er svarað til fulls. Ég vil t. d. vekja athygli á því, að hér er þessu fyrirtæki ætlað að starfa við önnur skilyrði en öðrum fyrirtækjum í landinu. að á að njóta meiri réttinda varðandi aðflutnings- og sölugjöld en önnur fyrirtæki. Hlutafélagalögin eiga ekki að gilda um þetta fyrirtæki eins og um önnur hlutafélög. Og sérstaklega er tekið fram að heimilt sé að undanþiggja hlutabréf í félaginu stimpilgjaldi. Ég álit að n. verði að taka rækilega til athugunar, hvort ekki sé rétt að sömu reglur gildi um þetta hlutafélag og önnur sambærileg, og einnig, hvort viðhlítandi upplýsingar liggi fyrir til þess að þingdeildin geti markað sína afstöðu með sæmilega öruggum hætti.

Ég minnist þess út af Kröfluvirkjun, sem hv. 9 þm. Reykv. minntist á áðan, að forveri núv. hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, sem var iðnrh. sumarið 1974, eftir að frv. um Kröfluvirkjun var ákveðið, veitti ekkert fé til boranarannsókna á Kröflusvæðinu á því ári. Sumarið 1975 lágu einnig boranir að mestu niðri á þessu svæði. Reynslan sýnir m. ö. o. að Alþingi getur ekki treyst því í sambandi við stórfyrirtæki og stórframkvæmdir að ríkisstj. eða stjórnarmeirihluti fylgi heimildarlöggjöf eftir með nægilegum þunga. Líka þetta atriði er óupplýst í málinu og hvernig ríkisstj. að öðru leyti hyggst standa að því.

Ég sakna þess, að hæstv. iðnrh. gaf sér ekki tíma til að fylgja þessu frv. úr hlaði og vonast til þess, að við afgreiðslu málsins í n. verði alls þess gætt sem snertir þetta mál og að frekari upplýsingar en nú er liggi fyrir við 2. umr. málsins.