20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4701 í B-deild Alþingistíðinda. (4899)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum um jafnrétti kvenna og karla, þskj. 516, ásamt brtt. á þskj. 552.

Nefndin sendi frv. ásamt brtt. ýmsum aðilum, svo sem Vinnuveitendasambandi Íslands, BSRB, Jafnréttisráði, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, ASÍ, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Umsagnir komu frá flestöllum þessum aðilum um málið. Nefndin kynnti sér þær umsagnir rækilega og fjallaði um þær.

Það hefði verið freistandi að birta þessar umsagnir. Þær eru um tvennt merkilegar: Annars vegar virðist vera mikill áhugi á málinu, og er það vel því að þessar tillögur hafa greinilega vakið umræður í þjóðfélaginu, en hins vegar eru talsvert umhugsunarefni þær umsagnir sem um málið hafa komið. Mér finnst ástæða til að grípa hér ofan í kafla úr nokkrum umsögnum til að skýra viðhorfin, hvað þau eru breytileg í sambandi við þetta mál, þar sem hér er um mál að ræða sem er mikið til umræðu í þjóðfélaginu. T. d. segir í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands með leyfi hæstv. forseta:

„Meginefnisbreyting frv. kemur fram í 2. gr. Vinnuveitendasamband Íslands er algjörlega andvígt kynbundnum torréttindum til starfa. Jafnrétti samkv. lögunum og grundvallarhugmyndum okkar stjórnskipunar er einstaklingsbundið. Hópjafnrétti er í eðli sínu fjarstæða í lýðræðisþjóðfélagi. Í annan stað er niðurlæging í því að hljóta starf samkvæmt forréttindaákvæði af þessu tagi.

Með hliðsjón af framansögðu telur VSÍ að ákvæði þessarar greinar frv. stuðli ekki að auknum jöfnuði karla og kvenna á vinnumarkaðinum. Vinnuveitendasambandið mælir því eindregið gegn frv.“

Í umsögn BSRB kemur fram jákvætt viðhorf að vissu marki um frv. og það hvetur til áframhaldandi baráttu fyrir fullu jafnrétti kynjanna til starfa og í kjaramálum. Þar kemur fram athyglisverður kafli:

„Hér á landi vantar algjörlega að fylgst sé með yfirborgunum, launaskriði. Mælir stjórn BSRB með því, að Hagstofu Íslands eða öðrum aðila verði með lögum falið að skrá reglubundið yfirborganir á vinnumarkaðinum og gefa út skýrslur þar um. Væri slík skráning áreiðanlega líkleg til þess að koma að notum við samanburð á raunverulegum launagreiðslum í landinu. Mundi það auðvelda starf til að útrýma launamisrétti.

Stjórn BSRB telur efni frv. annað en í 4. gr. þess ekki líklegt til að verða að gagni í jafnréttisbaráttunni, en augljóst er samt að til nýrra ráða þarf að grípa til aukinnar áherslu í jafnréttismálum.“

Í umsögn Jafnréttisráðs um málið segir m. a.: „Jafnréttisráð fagnar þeirri umræðu sem orðið hefur í kjölfar frv., en þar sem þegar hefur verið skipuð nefnd til að endurskoða lög um jafnrétti kvenna og karla með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengist hefur, telur ráðið ekki rétt að svo stöddu að breyta einstökum greinum laganna. Jafnréttisráð varar við breytingum á lögunum, sem gætu haft þær afleiðingar að erfiðara yrði fyrir konur að fá störf á vinnumarkaðnum.“

Í umsögn Kvenréttindafélags Íslands kemur fram að stjórn þess telur nauðsynlegt að lög nr. 78 1976, um jafnrétti kvenna og karla, verði endurskoðuð í heild í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur á s. l. fimm árum. Kvenréttindafélagið bendir mjög á umsögn er Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskóla Íslands viðhafði á norræna lögfræðingaþinginu í Kaupmannahöfn 1978, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sú staða kemur upp, að karl og kona sæki um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, þá skal veita þeim aðila starfið, sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Ég tel sem sagt að konur verði að vera sömu hæfileikum búnar og karlar til þess að fá starf og að ekki eigi að veita þeim forréttindi eingöngu vegna kynferðis þeirra.“

Í umsögn Kvenfélagasambands Íslands kemur m. a. fram að tvær af þremur stjórnarkonum lýstu andstöðu við frv. Jóhönnu Sigurðardóttur alþm. Álitu þær að misrétti yrði ekki leiðrétt með öðru misrétti. Hins vegar er þriðji stjórnaraðilinn meðmæltur — telur frv. vera stórt skref í rétta átt og bráðnauðsynlegt til að vekja fólk til umhugsunar og afskipta af þessu máli.

Í umsögn ASÍ kemur m. a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hins vegar tækist að veita kynbundinn forgang gætu orðið snögg umskipti á ýmsum sviðum. Til dæmis hefðu karlar ótvíræðan forgang til starfa við pökkun og snyrtingu í frystihúsum, til ræstingarstarfa og flugfreyjustarfa. Hliðstætt mundi gilda um störf þar sem karlmenn eru í meiri hluta, svo sem að konur færu í hafnarvinnu og bifreiðarstjórn. Slík þróun gæti verið æskileg, en ýmsir annmarkar eru því samfara að loka fyrir aðgang annars kynsins að ákveðnum störfum um nokkurt árabil. Ákveðin hlutföll við nýráðningu kynni að vera heppilegri leið, en miðstjórn telur að aðferðir sem þessar hafi ekki verið nægilega ræddar innan samtakanna eða í þjóðfélaginu almennt til þess að unnt sé að mæla með slíkum aðgerðum nú.“

Ég taldi rétt að gefa þingheimi aðeins sýnishorn af því sem fram hefur komið í umsögnum um málið. Nefndin ræddi málið ítarlega, eins og ég sagði áður, og náði algjörri samstöðu um afgreiðslu málsins á þessu stigi. Þessi afgreiðsla kemur fram á þskj. 905, nál. frá félmn., og vil ég lesa það upp:

Félmn. hefur haft til meðferðar frv. um breyt. á lögum um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Með tilliti til aths., sem fram komu í umsögnum um málið, telur n. ekki tímabært á þessu stigi að taka afstöðu til annarra ákvæða frv. en 4. gr. sem felur í sér að framlög skuli veitt til að standa fyrir könnunum á launakjörum kvenna og karla.

Nefndin telur brýnt að þessar kannanir verði gerðar til þess að Jafnréttisráði sé unnt að fylgjast með að virt sé 2. gr. jafnréttislaganna sem m. a. kveður á um að greidd séu jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Samkvæmt 10. gr. jafnréttislaganna frá 1976 kemur fram að eitt af verkefnum Jafnréttisráðs sé að taka til rannsóknar af sjálfsdáðum hver brögð kunni að vera að misrétti í jafnréttismálum.

Í þessu ákvæði felst að Jafnréttisráð, sem skipað er samkv. 9. gr. laga nr. 78/1976, rannsaki þessi mál. Framkvæmdaaðili þessarar könnunar gæti þó verið Kjararannsóknarnefnd sé það talið hagkvæmara. Leggja verður þó áherslu á að samráð verði haft við Jafnréttisráð um alla framkvæmd og undirbúning á þessum könnunum.

Nefndin hefur því orðið sammála um að leggja til að frv. verði afgreitt með eftirfarandi rökstuddri dagskrá: Í trausti þess, að ríkisstj. beiti sér fyrir því nú þegar, að kannanir verði gerðar á raunverulegum launakjörum kvenna og karla, svo og að kannanir þessar verði gerðar reglulega og Kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráði eða öðrum aðila verði gert kleift með fjárframlögum eða á annan hátt að standa fyrir þeim, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Eins og ég sagði áðan voru allir nm. sammála um afgreiðslu málsins á þennan hátt, og legg ég til að þessi rökstudda dagskrá verði samþykkt.