20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4703 í B-deild Alþingistíðinda. (4900)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Frá því að þetta frv. var lagt fram, sem félmn. hefur nú skilað áliti um, hefur margt komið fram í umræðum um þetta mál og í umsögnum sem hægt væri að ræða hér í löngu máli og raunar freistandi að gera hér nokkur skil. Ég skal þó ekki tefja tíma þingsins að þessu sinni með langri ræðu um þetta mál, enda mun ég beita mér fyrir því, að þetta mál komi til kasta þingsins aftur á næsta vetri. Eðlilegt verður að telja að þetta mál, sem er nokkuð umdeilt, sé skoðað á milli þinga, en ég tel nokkurs virði ef deildin tekur undir þá afgreiðslu, sem er lögð til í nál. varðandi 4. gr. frv. um kannanir á launakjörum kvenna og karla, og get því fallist á þessa afgreiðslu á þessu stigi málsins. Örfá atriði vil ég þó minnast á.

Nokkurs misskilnings og raunar mistúlkunar hefur gætt í umræðum þeim sem orðið hafa um þetta mál, sem ég raunar furða mig á.

Í fyrsta lagi gætir töluverðs misskilnings varðandi það ákvæði sem kveður á um að velja beri konur til starfa í þeim starfsgreinum sem frekar hafa valist til karlar. Margir túlka ákvæðið á þann veg, að konur þurfi ekki að hafa sömu hæfileika og menntun til að bera og karlar sem krafist er til starfans. Hér er auðvitað um reginmisskilning að ræða og gefur tilefni til að ætla að ekki sé nægjanlegt að tala um að „öðru jöfnu“ í þessu sambandi, eins og gert er í ákvæðinu í frv., heldur þurfi beinlínis að taka skýrar fram hvað við er átt. Í aths. við þessa grein kom skýrt fram hvað við er átt, að eigi að velja konur til starfans verði þær að hafa sömu menntun og hæfileika til að bera og karlar sem sækja um starfið. Auðvitað verður það ekki til að skapa jákvætt viðhorf til þessa ákvæðis frv. meðan svo villandi túlkun er lögð í þetta ákvæði.

Í annan stað hefur oft mátt skilja á umræðum um málið, að verði þetta ákvæði lögfest séu konur að biðja um meira en jafnrétti, meira en það sem karlmenn hafa, þær séu að krefjast þeirra forréttinda að vera settar skör ofar en þeir í atvinnulífinu, og mikið er hamrað á orðunum „forréttindi og misrétti“ í þessu sambandi. Auðvitað er það fjarstæða og felst í því mikil þversögn. Það vita þeir sem leggja raunsætt mat á þessi efni. Hér er einungis verið að reyna að leita nýrra leiða til að ná fram jafnrétti sem fyrir löngu átti að vera komið á, en ekki tekist. Það er verið að reyna að ná fram þeim réttindum, því jafnrétti, sem allir viðurkenna, a. m. k. í orði, að eigi að gilda og konur áttu að hafa öðlast fyrir löngu. Það er raunar verið að rétta af þá slagsíðu, sem er í atvinnulífinu á kjörum kvenna og karla, og leiðrétta það misrétti sem ríkir í þeim málum. Því felst, eins og ég segi, nokkuð mikil þversögn í þeim umræðum sem orðið hafa.

Mig hefur furðað hvað fortakslaust margir tala um forréttindi kvenna í þessu sambandi. Sem betur fer er það þó svo, að margir leggja annan skilning í þessi mál, og vitnaði ég t. a. m. í minni framsögu fyrir þessu frv. til túlkunar Guðrúnar Erlendsdóttur á ,gildandi lögum í þessu sambandi, en Guðrún er einn af höfundum núgildandi jafnréttislaga. Í umsögn Jafnréttisráðs, sem félmn. fékk um þetta frv., kemur fram svipuð túlkun og túlkun Guðrúnar, og er fróðlegt að bera saman þá túlkun á gildandi lögum og svo ákvæði frv.

Í umsögn Jafnréttisráðs er bent á eftirfarandi atriði varðandi efni frv. og brtt.: Jafnréttisráð leggur þann skilning í 2. og 3. gr. laganna, þ. e. núgildandi laga um jafnrétti kvenna og karla, að ef sú staða kemur upp að karl og kona sæki um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er alls ráðandi og bæði hafa sömu menntun og hæfileika til að bera, þá skuli veita þeim aðila starfið sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Telur ráðið að sá skilningur sé í samræmi við tilgang laganna eins og hann kemur fram í 1. gr. laga nr. 78/1976. Vegna þeirra umræðna, sem orðið hafa í kjölfar frv., kemur fram í umsögn Jafnréttisráðs, að sú spurning vakni, hvort nauðsyn sé að lögfesta þessa túlkun Jafnréttisráðs á núgildandi lögum.

Þessar aths. taldi ég rétt að kæmu fram við afgreiðslu málsins hér í deildinni.

Þá afgreiðslu, sem málið fékk í félmn. og fram kemur í þessu nál., get ég sætt mig við á þessu stigi málsins. Ég tel eðlilegt að bæði Alþingi og þeir, sem láta sig jafnréttismál skipta, fái nokkurn tíma til að fjalla um þessi mál áður en ákvörðun er tekin um hvaða leið sé heppilegust og samkomulag getur tekist um til að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu.

Ég get fullyrt það hér, að þótt frv. þetta hafi mætt nokkuð sterkri andstöðu margra fyrst þegar það var lagt fram hef ég þó fundið að viðhorf margra hafa breyst og velflestir viðurkenna að átak þurfi að gera til að uppræta misrétti sem ríkir í launa- og atvinnumálum milli kvenna og karla, þó nokkuð skiptar skoðanir séu um hvernig það verði best tryggt.

Ég sagði í framsögu fyrir þessu frv., að sú leið, sem ég legg til í þessu frv., þyrfti ekki að vera sú eina rétta og ég væri tilbúin að skoða aðrar leiðir væri ég sannfærð um að þær skiluðu raunverulegum árangri. Í félmn. lagði ég t. d. fram aðra till. sem er hliðstæð ákvæði norsku jafnréttislaganna og felur í sér að sé talið nauðsynlegt til að afnema raunverulegt misrétti kynjanna sé það ekki andstætt lögunum þó að kynjunum sé mismunað — ef það er í samræmi við tilgang laganna, þ. e. stuðli að jafnrétti kynjanna. Ekki ósvipuð ákvæði eru einnig í dönskum og sænskum jafnréttislögum. Í Svíþjóð er það þannig, að fyrirtæki, sem njóta opinbers fjárstuðnings, verða að hafa a. m. k. 40% af hvoru kyni í störfum. Í þessum löndum hafa slík ákvæði þótt nauðsynleg til að ná fram jafnrétti. Því er varla óeðlilegt þó að upp komi hugmyndir á landi hér um ekki ósvipaðar leiðir. Ekki erum við fremri þessum þjóðum í jafnréttisbaráttunni. Standa konur hér á landi langt að baki konum á hinum Norðurlöndunum hvað varðar forustu á Alþingi, í sveitarstjórnum, í embættismannakerfinu og ýmsum áhrifastöðum í atvinnulífinu.

Mér er tjáð að nú liggi fyrir norska þinginu frv. sem er eins að efni til og það frv. sem ég lagði fram, þ. e. að þegar um er að ræða störf þar sem frekar hafa valist til karlar en konur skal konunni að öðru jöfnu veitt starfið. Eins má benda á að í Noregi hafa verið síðan 1975 í gildi reglur sem kveða á um að a. m. k. skuli vera ein kona í öllum nefndum, ráðum og stjórnum sem ríkisstj. og hið opinbera skipar í.

Ég sagði í upphafi að ég skyldi ekki vera langorð um þetta mál nú og við það skal ég standa. Ég ítreka að ég tel eðlilegt að frekari umræður eigi sér stað í þjóðfélaginu um þessi mál áður en Alþingi tekur ákvörðun þannig að milli þinga gefist tóm til að athuga málið betur.

Í nál. hefur félmn. gert einu ákvæði frv. sérstök skil og því ber að fagna. Þar er lagt til að ríkisstj. beiti sér fyrir því nú þegar, að kannanir verði gerðar á raunverulegum launakjörum kvenna og karla og Kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráði eða öðrum aðila verði gert kleift með fjárframlögum eða á annan hátt að standa fyrir þeim. Ég hef sagt í umræðum um þetta mál að ég tel þetta ákvæði mikilvægasta ákvæði frv., því að verði það framkvæmt er ég sannfærð um að það hefur áhrif á kjör fjölda kvenna á vinnumarkaðinum. Þær örfáu kannanir, sem þegar hafa verið gerðar í þessu efni, benda mjög skýrt til að mikið misrétti ríki í launamálum kvenna og karla. Því geri ég mér vonir um að deildin geti fallist á afgreiðslu þessa máls, sem lögð er til á þessu stigi málsins og fram kemur í nál., og hún verði til þess að þegar verði hafist handa í þessu máli. Í trausti þess að svo verði leggja nm. félmn. til þá afgreiðslu frá deildinni sem fram kemur í þessu nál. og að ákvarðanir um önnur ákvæði frv. bíði næsta þings.