20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4707 í B-deild Alþingistíðinda. (4904)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti sagði að það væri óþarfi fyrir menn að láta í sér heyra vegna þessa máls vegna þess að allir hefðu verið sammála um hvernig ætti að afgreiða það, þ. e. með því að vísa því frá með þessum gamla og klassíska hætti að vísa því til ríkisstj. Ég er samþykkur þeirri afgreiðslu. En það er ekki þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs. Ég ætlaði raunar alls ekki að segja orð um þetta, ósköp einfaldlega vegna þess að ég var samþykkur þessari afgreiðslu þó að ég hafi auðvitað alls ekki verið samþykkur frv. Það er langur vegur frá því.

Ástæðan til þess, að ég bað um orðið, er ósköp einfaldlega sú, að eftir sakleysislegt frammíkall, eins og hefur lengi tíðkast hér, í hundrað ár a. m. k., gerir hv. þm., sem var í ræðustól, Árni Gunnarsson, sér það ómak að gera mér upp skoðanir í jafnréttismálum með þessum líka hávaðanum og fyrirganginum. Ég hálfsé eftir því að hafa truflað hann við ræðuhöldin því að þetta var ekta framboðsræða af kratategundinni og af verstu gerð. (ÁG: Eru kosningar fram undan?) Hv. þm. var að nudda sér á hálfógeðslegan hátt utan í konur í ræðu sinni. Ég efast um að málflutningur af þessu tagi verði þessum hv. þm. sérstaklega til framdráttar.

Ég er auðvitað málsvari jafnréttis, en ég tel þessa leið afar óskynsamlega. Það er ákaflega slæmt og ekki jafnrétti kvenna til framdráttar að einmitt konur skuli bera fram óskynsamleg mál. Ég tel að þessi leið sé ekki skynsamleg og frv. klaufalega sett fram, svo ég tali nú ekki um þá brtt. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom með inn í málið og er ákaflega heimskuleg og sú alvitlausasta sem hér hefur sést síðan ég kom fyrir 10 árum inn á hið háa Alþingi. Ég ætla að gera það fyrir hæstv. forseta að fara ekki að leggja út af þeim texta, en svo sannarlega mætti velta sér upp úr þeirri hugmynd í langan tíma.

Herra forseti. Ég gæti auðvitað margt fleira sagt, bæði um þetta mál og ekki síst málflutning hv. þm. Árna Gunnarssonar, sem var því miður, en sem betur fer ekki oft, á ákaflega lágu plani.