20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4708 í B-deild Alþingistíðinda. (4906)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. 6. þm. Norðurl. e. sérstaklega.

Ég held að varla sé hægt að uppræta óréttlæti með verra. Hér er í 2. gr. beinlínis lagt til að karlar og konur standi ekki jafnfætis varðandi möguleika á að fá starf, og það er réttlætt með því, að ranglæti hafi fyrr meir tíðkast. Ég held að ranglæti gagnvart ungum mönnum nú sé ekkert léttbærara en ranglæti gagnvart ungum konum áður og menn verði í þessum efnum að reyna að feta einhverja skynsamlega leið. Mér sýnist raunar, ef farið er um fyrirtæki eða stofnanir, að konur hafi haslað sér völl þar sem þeim sýnist og hafi ekki neina minnimáttarkennd. Ég verð því að segja að ástæðan fyrir því, að þessu frv. er vísað til ríkisstj., er einfaldlega sú, að ekki er hægt að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir af því að það stangast á við stjórnarskrá og heilbrigða skynsemi og stuðlar beinlínis að óréttlæti og rangindum, og á móti því eru menn að sjálfsögðu.