20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4709 í B-deild Alþingistíðinda. (4907)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég ætla að gera nærfellt akademískar athugasemdir við málflutning einkum og sér í lagi hv. 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar.

Hann notaði þau orð um málflutning hv. þm. Árna Gunnarssonar að hann hefði verið „ógeðslegur“ og „á lágu plani“. Menn segja ýmislegt til að vinna skoðunum sínum fylgi og það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga. En því næst sagði hv. þm. Garðar Sigurðsson nokkuð sem gera má mjög alvarlegar athugasemdir við. Hann sagði að það væri ekki jafnréttisbaráttu til framdráttar þegar konur flyttu vitlaus frumvörp. Sannleikurinn er sá, að ef menn hugleiða aðeins hugsunina, sem í þessum orðum felst, er málið það, að hv. þm. Garðar Sigurðsson — og nú tek ég fram að ég er einasta að gera fræðilega athugasemd — getur verið Vestmannaeyjum til skammar. Hann er það auðvitað ekki, en fræðilega gæti hann verið það. Hann getur líka verið Alþb. til skammar. Hann er það ekki, en fræðilega gæti hann verið það. En hann er ekki karlmönnum til skammar þó að hann geri eitthvað af sér. Sannleikurinn er sá, að með þessum hætti er verið að draga konur í annan og lakari undirmálsflokk, og þó að þetta séu orð sem falla í hita umræðunnar felst á bak við þau 19. aldar hugsunarháttur sem er eiginlega ágætur til undirstrikunar því, hvers vegna þetta frv. er flutt.

Nú geri ég ekki ráð fyrir að hv. þm. Garðar Sigurðsson hafi verið að boða heimspekikenningar með þessum orðum sínum, en ef baksvið þessara orða er skoðað felst engu að síður heilt heimspekikerfi, heilt kerfi lífsskoðana, í baksviði þeirra orða sem þm. segir um þessi efni. (GS: Hvaða orð eru það, hv. þm.?) Það eru þau orð, að það sé jafnréttisbaráttu ekki til framdráttar að konur flytji vitlaus frumvörp.

Ég endurtek það, að því er vakin athygli á þessu að ég hygg að þessi orð, þessi sennilega ómeðvitaða kynjaskipting hv. þm., skýri til hvers frv. af þessu tagi er flutt.