20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4709 í B-deild Alþingistíðinda. (4908)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það er örstutt aths. út af ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., sem var að gera tilraun til að gera heldur lítið úr þessu nál.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Ég vil aðeins, þar sem hann gerði lítið úr þessum rannsóknarþætti, benda honum á umsögn Jafnréttisráðs og benda honum einnig á 4. gr. frv. á þskj. 516 þar sem aðalkrafa flm. og Jafnréttisráðs er að fá meira fjármagn til að kanna launakjör kvenna og karla sem Jafnréttisráð telur sér skylt að gera lögum samkvæmt og telur eiginlega grundvöll þess að Jafnréttisráð geti starfað.

Einnig vil ég benda honum á það, að þetta nál., sem er rökstudd dagskrá, er raunverulega orðið til að tillögu hv. flm. frv., 10. landsk. þm., sem þm. lagði fyrir nefndina og nefndin féllst á að yrði samhljóða nál. nefndarinnar eins og það er á þskj. 905. Þess vegna er það, að ef hv. þm. vill reyna að gera lítið úr þessu er hann um leið að fjargviðrast yfir því, að félmn. tekur fullt tillit til hv. flm. frv., 10. landsk. þm.