20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4711 í B-deild Alþingistíðinda. (4913)

231. mál, eftirlaun til aldraðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við meðferð þessa frv. í Ed. kom fram gagnrýni á hvernig greiðslum samkv. 1. gr. þess er háttað, þ. e. að þær skuli uppi bornar af Atvinnuleysistryggingasjóði. Kom fram brtt. í Ed. frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og Salome Þorkelsdóttur um að þessar greiðslur kæmu úr ríkissjóði, en sú till. var felld.

Alþb.-menn hafa verið hér á þingi harðir andstæðingar þess, að verið sé að leggja byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð. Er þess skemmst að minnast, að vorið 1979, þegar frv. um eftirlaun til aldraðra var samþykkt hér á Alþingi, mótmæltu þeir því mjög að með því frv. væri verið að leggja auknar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð. Því var t. a. m. harðlega andmælt af einum verkalýðsforingja þeirra sem þá var á þingi, Eðvarð Sigurðssyni, sem talaði um þá að það væri hreint ömurlegt, að ríkisstj. skyldi standa fyrir slíkri aðför að Atvinnuleysistryggingasjóði, og það væri ekki sæmandi, að þeir, sem réttindi ættu að fá með því frv., væru látnir greiða reikninginn. Nú er það sama uppi á teningnum, að þeir, sem réttindanna eiga að njóta, eiga að greiða reikninginn. Talað er um í grg. frv. að þessu skuli létt af sjóðnum í áföngum án þess að það sé nokkuð nánar skilgreint. Ég tel nauðsynlegt að inn komi ákvæði um, á hvern hátt ríkissjóður standi að því að létta þessum byrðum, 820 millj. gkr., af Atvinnuleysistryggingasjóði, og það sé vitað þegar við samþykkjum þessa grein, hvernig réttindi skuli uppi borin af Atvinnuleysistryggingasjóði, hvenær áformað sé að létta þeim af sjóðnum. Ég er sannfærð um að a. m. k. formaður Verkamannasambandsins, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, getur verið sammála mér í því efni, að nauðsynlegt sé að fastsetja það þannig að ekki sé hægt að sniðganga að svo verði gert. Ég mun því flytja brtt. ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni og Magnúsi H. Magnússyni við frv. þess efnis, að til komi á eftir 4. gr, ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Greiðslum samkvæmt 4. gr. skal létta af Atvinnuleysistryggingasjóði eigi síðar en 1. jan. 1982“. Þessari brtt. hefur ekki enn, að ég held, verið dreift og leita þarf afbrigða fyrir því að hún megi fyrir koma. Því var mótmælt við kjarasamningana í vetur, að þessar greiðslur kæmu úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og við meðferð málsins í heilbr.- og trn. Ed. kom fram eindregin ósk frá forustu ASÍ um að skýrt kæmi fram hvenær þessu yrði létt af sjóðnum. Var talað um næstu áramót í því sambandi.

Ég vona að hv. Alþb.-menn reyni nú að vera samkvæmir sjálfum sér svona einu sinni til tilbreytingar á Alþingi í vetur og greiði götu þessarar brtt. í gegnum þessa hv. deild. Bind ég a. m. k. miklar vonir við formann Verkamannasambandsins í þessu efni, að hann styðji félaga sína í forustu ASÍ við að knýja á um að þessi brtt. nái í gegn á hv. Alþingi.