20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4713 í B-deild Alþingistíðinda. (4916)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. meiri hl. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur fjallað um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, en það mál hefur verið afgreitt í Ed. Nefndin er sammála um að flytja við frv. eina breytingu og hún varðar það, að bætt er inn í þann lista, sem kom frá Ed., tveimur nýjum nöfnum. Er n. sammála um þá tillögu.

Að því er varðar 2. gr. frv. voru gerðar á henni verulegar breytingar í Ed. Allshn. fékk til viðtals við sig hagstofustjórann, Klemens Tryggvason, þegar hún fjallaði um breytinguna á 2. gr. Hann skýrði afstöðu sína og Hagstofunnar til þessarar breytingar á 2. gr. Í stuttu máli var afstaða hans sú, að hann telur að sú breyting, sem gerð var í Ed. á 2. gr. frv., sé þess eðlis að rétt sé og skylt að athuga hana vandlega frá öllum hliðum áður en hún verður lögfest. Hér er um að ræða gerbreytingu á kerfi sem haldist hefur að mestu óbreytt í nærri 30 ár og fengið snurðulausa framkvæmd þannig að allir hlutaðeigendur hafa setið við sama borð. Ljóst er að breyting á slíku kerfi ætti ekki að vera skyndiákvörðun, heldur rækilega undirbúin, og m. a. virðist sjálfsagt að leitað sé umsagnar um málið frá þeim aðilum sem sjá um framkvæmd mannanafnaákvæða svo og frá heimspekideild Háskólans og fleiri aðilum. Almennt skoðað, telur hagstofustjóri, verður að telja að æskilegt sé að tillögur um breytingar á umræddu kerfi séu teknar til meðferðar um leið og sett yrðu ný lög um mannanöfn.

Þá telur hagstofustjóri að 2. gr. frv., eins og Ed. gekk frá henni, sé mjög óljóst orðuð. En eins og hún er sögð eiga að skiljast er með samþykkt hennar það lítið eftir af því kerfi, sem gilt hefur, að tilgangslítið er að áliti hagstofustjóra að halda í þær slitrur. Foreldri, sem fær íslenskt ríkisfang samkvæmt lögum, heldur nafni sínu, og sama er að segja um öll börn yngri en IS ára sem fá réttinn með foreldrum. Aðeins börn, sem fædd eru eftir að hlutaðeigandi fær ríkisfang, eiga að fá íslensk nöfn. Hér er um að ræða það lítinn hluta þeirra einstaklinga, sem hingað til hafa sætt nafnbreytingu, að ekki tekur að láta svo fáa sæta kvöð í þessu sambandi.

Þá er einnig á það bent, að augljóslega er illa stætt á því frá siðferðilegu og félagslegu sjónarmiði að mismuna, eins og frv. gerir ráð fyrir, milli barna fæddra fyrir og eftir viðtöku foreldris á íslensku ríkisfangi. Auk þess skapast við þetta afkáralegt ósamræmi í nöfnum einstaklinga af sömu fjölskyldu. Að dómi hagstofustjóra væri mun réttara og eðlilegra að ganga hreint til verks og fella alveg niður gildandi nafnbreytingarkerfi.

Hagstofustjóri vakti einnig athygli á því, að eins og Ed. hefur gengið frá 2. gr. mundu viðtakendur íslensks ríkisfangs samkv. lögum yfirleitt aldrei nota íslenska eiginnafnið sem þeir eiga að fá. Þeir munu að sjálfsögðu nota sitt erlenda eiginnafn áfram, enda engin skylda að nota íslenska eiginnafnið. Það mundi því eingöngu koma fram í kenninöfnum þeirra barna sem fæddust eftir að foreldri fékk íslenskt ríkisfang, og augljóslega yrði þetta mjög óeðlilegt og óviðkunnanleg tilhögun í framkvæmd.

Hagstofustjóri telur einnig, að ef núgildandi nafnbreytingarkerfi yrði gerbreytt, eins og er gert ráð fyrir í 2. gr. eins og hún liggur fyrir eftir afgreiðslu Ed., mundu koma upp mjög háværar kröfur um endurheimt nafna frá mörgum þeirra sem á undanförnum 30 árum hafa beint eða óbeint orðið að sæta nafnbreytingum.

Það er fráleitt að dómi meiri hl. allshn. að fella niður það kerfi, sem við höfum búið við í nokkra áratugi, án þess að taka afstöðu til þess, hvernig eigi að fará með þá íslenska ríkisborgara sem urðu að breyta nafni sínu á undanförnum árum og áratugum við það að öðlast íslenskt ríkisfang.

Í samræmi við þetta álit hagstofustjóra leggur meiri hl. allshn. til að 2. gr. frv. verði færð í upphaflegt horf og frá gengið með þeim hætti sem verið hefur föst venja hér á Alþingi um alllangt árabil. En n. getur þess í nál., að brýna nauðsyn beri til þess að lóg um mannanöfn verði tekin til endurskoðunar og það verði gert samhliða því sem hugsanlega verði gerðar breytingar á þeim reglum sem hafa gilt um mannanafnabreytingar við að menn öðlast íslenskt ríkisfang.