20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4719 í B-deild Alþingistíðinda. (4922)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og réttilega kom fram hjá hv. frsm. félmn. Nd. höfum við tveir nm., ég og hv. þm. Steinþór Gestsson, flutt sérstakar brtt. á þskj. 898, auk þess sem við stöndum að brtt. n. eins og hv. frsm. lýsti þeim, en þær er að finna á þskj. 911.

Það hefur komið fram í þessu máli, bæði í umr. hér í deildinni og enn fremur í nefndarstörfum, að þegar þetta mál kom til Alþingis var ekki full samstaða í ríkisstj. um orðalag á lagatexta, en það leiddi til þess, að n. ákvað að gera verulegar breytingar á ýmsum ákvæðum frv. Um það er n. sammála, eins og ég hef talað um áður, en að auki höfum við leyft okkur að flytja sérstakar brtt. Það er í fyrsta lagi brtt. við 3. gr. og í öðru lagi brtt. við 4. gr.

Varðandi brtt. við 4. gr. vil ég taka það fram, að 1. mgr. er óbreytt frá núgildandi lögum og í samræmi við frv. drögin eins og n. leggur til að þau séu. Meginbreytingin frá till. n. er sú, að ekki er gert ráð fyrir að senda þurfi hvern ráðningarsamning til félmn. Fellt er niður ákvæði um tiltekið efnisinnihald ráðningarsamninga. Á hinn bóginn er kveðið á um að útlendingar skuli njóta launa og starfskjara sem heimamenn og hafa réttindi og bera skyldur í samræmi við viðkomandi kjarasamning, og er þá óþarfi að mæla fyrir um slíkt efnisinnihald í ráðningarsamningnum.

Jafnframt er kveðið á um rétt verkalýðsfélaga til umsagnar um atvinnuleyfi.

Þá er ráðh. heimilt að binda atvinnuleyfi ákveðnum skilyrðum:

Í fyrsta lagi skal atvinnurekandi greiða ferð útlendings frá Íslandi að ráðningartíma loknum, og er þá gert ráð fyrir að útlendingur, sem ráðið hefur sig í vinnu, verði allan ráðningartímann í vinnu hjá atvinnuveitandanum, en hins vegar eigi atvinnurekandinn endurkröfurétt ef útlendingurinn riftir samningnum með einhverjum hætti.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að atvinnurekandinn hafi hæfilegt húsnæði fyrir útlendan starfsmann meðan ráðningarsamningur er í gildi, ef hinn útlendi starfsmaður hefur ekki slíkt húsnæði sjálfur. Sérstök vottorð vegna húsnæðis eru óþörf að okkar mati. Í því efni á venjulegt eftirlit að duga ásamt með ofangreindu skilyrði. Um þessi atriði ætti því að vera óþarft að hafa frekari skriffinnskureglur.

Ráð er fyrir því gert, að ráðh. geti eftir sem áður gefið út bráðabirgðaleyfi. Skilyrði fyrir fullnaðarleyfi eru hins vegar þau, að fyrir liggi heilbrigðisvottorð og yfirlýsing um að útlendingur hafi kynnt sér upplýsingar þær sem kveðið er á um í 5. gr. frv. Ráðh. er þó heimilt að víkja frá þessum skilyrðum þegar í hlut eiga ríkisborgarar annarra Norðurlanda, eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns: Með þessu móti viljum við flm. þessarar till. jafnframt koma í veg fyrir tvöfalda skriffinnsku, en okkar till. ganga fyrst og fremst út á að draga úr skriffinnskunni vegna ráðningar erlendra starfsmanna við íslensk fyrirtæki, en eins og allir vita starfar fjöldi erlendra starfsmanna í frystiiðnaðinum hér á landi og hefur gert um árabil.

Varðandi 4. gr. er rétt að taka það fram, að felld er út krafa sú sem gerð er í 4. gr. um lýsingu á vinnustað í atvinnuleyfisumsókn. Almennt eftirlit með atvinnurekstri á að vera nægjanlegt í því efni og óþarfi að tvöfalda eftirlitið vegna útlendinga. Þá er dregið úr þeim kröfum sem kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. frv., enda ætti umsögn verkalýðsfélags að vera nægjanleg til að tryggja atvinnuhagsmuni Íslendinga. Sérstök athugun ráðuneytis um það efni yrði óþarfur tvíverknaður nema tilefni gæfist. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tvöfalt eftirlitskerfi af þessu tagi er 3. mgr. 4. gr. frv. felld niður í okkar till. Hérna er verið að leggja áherslu á að vinnumálaskrifstofa félmrn. þurfi ekki, áður en útlendingur sækir um vinnu hér á landi, að taka upp með sjálfstæðum hætti og meta atvinnuástand á viðkomandi stað og í nágrenni hans, heldur sé nægilegt að leitað sé umsagnar verkalýðsfélaganna, enda eiga að liggja fyrir hjá vinnumálaskrifstofu félmrn. á hverjum tíma nægilega glöggar upplýsingar um þetta efni sem eiga að vera til reiðu fyrir verkalýðsfélögin. Það ætti að vera nóg að verkalýðsfélögin á hverjum stað eða landssamböndin, ef ekki er um verkalýðsfélög að ræða, segi til um þetta. Okkur þykir vera hætta á því — og þar tala ég af nokkurri reynslu sjálfur sem nokkuð kunnugur því að ráða erlent starfsfólk í vinnu í frystiiðnaði — að það muni brenna við að rn. og útlendingaeftirlit tefji að svara bréfum þrátt fyrir að búið sé að gæta þeirra skilyrða að leita til verkalýðsfélaga um hvort ráða megi erlenda verkamenn, sem oft er bráðnauðsynlegt til að bjarga þeirri framleiðslu sem efnahagslíf okkar hvílir á. Við teljum, að með því að hafa tvöfalt kerfi, sanka í rn. mönnum sem hafa með það að gera að hafa eftirlit sem í raun og veru er óþarft vegna þess að aðrir aðilar hafa þegar látið slíkt eftirlit fara fram, sé um tvíverknað að ræða, og viljum þess vegna gera kerfið einfaldara, en þó nægilega tryggt til að vernda hagsmuni íslensks verkafólks og starfsmanna sem við viljum auðvitað hafa í fyrirrúmi.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að skýra till. okkar hv. þm. Steinþórs Gestssonar betur, og ég vonast til að hv. þm. í þessari deild hafi skilning á þeim málstað sem ég hef hér lýst, þeir vilji gera kerfið einfaldara og standi þess vegna með þessum brtt., auk þess að greiða atkvæði með till. sem n. flytur sameiginlega.