11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

69. mál, félagsbú

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, að ánægjulegt væri ef menn tækju til máls um þetta efni og lýstu skoðun sinni, en ég sé ekki neina sérstaka ástæðu til að harma þótt framsóknarmenn ræði till. ekki, því að ég tel að fleiri geti talað um landbúnaðarmál en þeir.

Hins vegar vil ég taka undir efni þessarar till. og ég tel mikilvægt að sett séu einhver skýrari ákvæði í lög einmitt um félagsbú. Ég tel að reynslan af félagsbúum hafi verið slík í íslenskum landbúnaði að það sé til hagræðis í búskapnum og það sé til vinnuléttis fyrir þá aðila sem að félagsbúum standa.

Mér er ljóst að vegna þess, að vantað hefur í lög ákvæði sem eru greinileg um félagsbúin, hafa menn, sem annars hefðu kannske snúið sér að því að mynda félagsbú, farið fram á skiptingu jarða og tvíbýlisaðstöðu, sem ég tel í flestum atriðum vera óþægilegra rekstrarform en félagsbúið. Auk þess tel ég rétt að benda á að einmitt ef búið væri að forma greinilega ákvæði og reglurum félagsbú væri það sennilega auðveldasta leiðin til þess að með auðveldum hætti geti orðið kynslóðaskipti á jörðunum.

Ég ætla ekki að tala lengra mál um þetta efni, þó e.t.v. væri ástæða til, en ég vil lýsa því aftur að mér er efni þessarar þáltill. mjög hugstætt og ég vil að Alþ. sinni því að afgreiða þetta mál.