20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4722 í B-deild Alþingistíðinda. (4934)

43. mál, Orlofssjóður aldraðra

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. til l. um orlofssjóð aldraðra á þskj. 45, sem hv. 3. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Suðurl. fluttu á sínum tíma um að stofna orlofssjóð aldraðra, eins og segir þar í 1. gr.

Nefndin sendi frv. til umsagnar nokkurra aðila og umsagnir bárust frá Tryggingastofnun ríkisins og félmrn. Kom fram í báðum þessum umsögnum að hér er — að þeirra áliti — um gott mál að ræða sem allrar athygli er vert, en í báðum umsögnum var bent á þann höfuðgalla þessa frv. að ekki er nægjanlega tryggð sú fjármögnun sem nauðsynleg er til að koma þessu máli fram.

Nefndin varð sammála um nál., sem er svohljóðandi á þskj. 891:

„Nefndin tekur undir það meginmarkmið frv., að átak þurfi að gera í skipulagningu og fjárhagslegri fyrirgreiðslu vegna orlofsstarfsemi fyrir aldraða.

Meiri hl. n. taldi að kanna þyrfti betur, áður en afstaða væri tekin til þess, hvort sjóðsstofnun í þessu skyni sé besta leiðin.

Nefndin telur því rétt að beina þeim tilmælum til ríkisstj., að kannað verði í samráði við samtök launþega, Samband ísl. sveitarfélaga og aðra, sem unnið hafa að þessum málum, með hvaða hætti skipulagningu og fjárhagslegri fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera verði best fyrir komið.

Í trausti þess, að svo verði gert, mælir n. með að málinu verði vísað til ríkisstj.

Undir þetta álit skrifuðu allir nm. félmn. Nd.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en vænti þess, að þessi afstaða n., sem er einhuga, verði samþykkt.