20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4731 í B-deild Alþingistíðinda. (4963)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Eins og fram kemur í þskj. 966 treystir hv. heilbr.- og trn. sér ekki til að afgreiða frv. til l. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða, en vegna þess, hve nauðsynlegt er að afla fjár til málaflokksins, leggur n. til ákveðna tekjuöflunarleið á þskj. 965. Hún gengur út á það að leggja 100 kr. gjald á hvern skattskyldan einstakling, þ. e. 10 þús. gkr., eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir var að lýsa áðan.

Flm. þeirrar brtt., sem hér er til umr., þ. e. undirritaður og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, viðurkenna nauðsyn tekjuöflunar, en finnst hugmyndin um 100 kr. gjaldið heldur hvimleið. T. d. leggst hún þungt á börn og unglinga sem njóta ekki persónuafsláttar, gæti í mörgum tilvikum tvöfaldað álögð gjöld barna og unglinga og gott betur. Einnig gæti þetta gjald í vissum tilvikum komið illa við gamalt fólk. Það hefur aldrei þótt góð latína hér á landi að leggja jafnháan skatt, þótt ekki sé kannske mjög stór í krónum, á skólabörn og hátekjufólk, en það er vissulega gert í þessu frv.

Við höfum sem sagt leyft okkur á þskj. 983, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að leggja til aðra tekjuöflunarleið. Við viðurkennum fyllilega nauðsynina, en okkar hugmyndir eru þær að leggja 1% gjald á álagðan tekju- og eignarskatt einstaklinga og félaga á sama hátt og gert var fyrir Byggingarsjóð ríkisins allt fram á síðasta ár. Þessi skattheimta er einföld í framkvæmd. Hún leggst létt á börn og unglinga, og gamalmenni og annað tekjulágt fólk sleppur flest alveg við þessa skatta. Aftur á móti leggst hún, eins og tekju- og eignarskattur á að gera, þyngst á þá sem mestar hafa tekjurnar og mestar eiga eignirnar. Heildartekjur verða svipaðar eða um það bil 1 milljarður gkr. í hvoru tilvikinu sem er, en þar sem 1% skatturinn leggst einnig á fyrirtæki lækkar hann að sama skapi á einstaklingum.

Ég vil að lokum láta það álit mitt í ljós, að ég tel að ef frv. um framkvæmdasjóð aldraðra verður að lögum, muni þau lög verða endurskoðuð og felld inn í væntanlega lagasetningu um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða sem verður vonandi afgreidd á næsta þingi. Ég hefði mjög gjarnan óskað eftir því, að hæstv. heilbr.- og trmrh. staðfesti að sú væri ætlunin, því að ef svo er ekki hefði ég gjarnan viljað koma með fleiri brtt. við þetta frv.