20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4737 í B-deild Alþingistíðinda. (4967)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Mér er ljóst að það hefði verið miklu æskilegra að reyna að ná heildarsamstöðu og víðtækri samstöðu um heilbrigðis- og vistunarþjónustu aldraðra. Á því varð ekki kostur og þess vegna varð niðurstaðan að gera sérstakar ráðstafanir til að afla fjár í framkvæmdasjóð aldraðra. Eftir mjög ítarlegar umr., sem fram fóru á milli alþm. bæði úr stjórn og stjórnarandstöðuliði, varð niðurstaðan sú að miða við þá tekjuinnheimtu sem gert er ráð fyrir í þessu frv. nú, þ. e. 100 kr. á hvern framteljanda.

Ég er út af fyrir sig ekkert mjög ánægður með þessa leið, en ég tel að hér sé um að ræða svo mikilvægt og svo alvarlegt vandamál í þjóðfélaginu að við getum ekki látið þetta þing líða og því ljúka án þess að við gerum ítrustu tilraun til að kanna hvort Alþingi er reiðubúið til að leggja þarna nokkuð á sig með þeim hætti að samþykkja sérstaka fjáröflun í þessu skyni. Hér er ekki verið að innheimta peninga í ríkissjóð, eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um áðan. Hér er verið að innheimta fjármuni vegna sérstaks neyðar- og vandræðaástands í málefnum aldraðra.

Ég minni á að við erum með í byggingu nú tvær verulega stórar byggingar. Þar er annars vegar B-álma Borgarspítalans og hins vegar húsnæði Hrafnistu í Hafnarfirði. Þessar framkvæmdir þurfa á fjármunum að halda ef það á að ganga fram með þær eins og brýn nauðsyn er. Af þessum ástæðum þætti mér ákaflega vænt um það, ef Alþingi treysti sér til að afgreiða ákvæði um framkvæmdasjóð aldraðra eins og hér hefur verið lagt til. Samkomulag varð um þessa leið í hv. n. að verulegum hluta til.

Ég vil segja um málið að öðru leyti, að ég mun nú í sumar óska eftir því við alþm. úr öllum flokkum að þeir, eins og hv. frsm. n. mun hafa getið um, taki til sérstakrar meðferðar tillöguflutning sem hér hefur verið á þinginu varðandi þessi mál nú í vetur og að þessi meðferð leiði til þess að fluttar verði hér í haust tillögur um þessi efni. Þá væri væntanlega gert ráð fyrir að lögin eða ákvæðin um framkvæmdasjóð aldraðra yrðu í rauninni felld inn í hin nýju hugsanlegu lög og þar með féllu hin sérstöku ákvæði niður við endurskoðunina.

Ég vona, herra forseti, að Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál þó að knappur tími sé til þingloka og erfitt að taka á jafnstóru máli með stuttum fyrirvara. Hið erfiða ástand í þessum málefnum réttlætir að við gerum okkar ítrasta til að ná um þetta mál samkomulagi.