11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

76. mál, björgunarnet

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 82 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta sérfróða menn gera úttekt á notagildi björgunarnets Markúsar B. Þorgeirssonar með það fyrir augum, að séu þetta talin nauðsynleg öryggistæki, þá skuli um það sett ákvæði í reglugerð um öryggismál, að skip skuli búin þessum netum svo og að þau séu tiltæk á hafnarsvæðum.“

Í grg. er að því vikið, að björgunarnet Markúsar B. Þorgeirssonar, sem reyndar hefur nú fengið nafnið björgunarnetið Markús, hafi vakið verðskuldaða athygli og hlotið hina lofsamlegustu dóma. Telja margir, sem gerst þekkja til í björgunarmálum okkar, að hér sé um að ræða ótvíræða framför og gildi þessara neta sé mikið og ótvírætt.

Á það er bent í grg., að öryggi á vinnustöðum sé nú mjög til umræðu. Við höfum nýlega sett um það viðamikla löggjöf hvernig að skuli staðið með öryggi á vinnustöðum. Sjómannsvinnustaðurinn er á hafi úti við misjafnar aðstæður og óblíðar á stundum og þar má einskis láta ófreistað að öryggi og björgunartæki séu sem allra best. Hversu oft heyrist ekki hörmuleg frétt um að skipverji hafi fallið útbyrðis og þrátt fyrir ýtrustu viðleitni hafi allar björgunartilraunir reynst árangurslausar.

Það er einmitt skoðun margra, sem í hvívetna má treysta, að einmitt við þessar aðstæður komi björgunarnet Markúsar sannarlega að notum. Úr því þarf hins vegar að fást skorið óyggjandi, svo gera megi viðeigandi ráðstafanir varðandi reglugerðarsetningu um að björgunarnetin skuli vera um borð í bátum og skipum, ef niðurstöður úttektar verða ótvíræðar í þá átt.

Hið sama gildir um öryggi á hafnarsvæðum. Þar þarf einnig að hyggja vel að hvert notagildi björgunarnetanna gæti verið til að ná mönnum úr sjó. Dómbærir aðilar telja að vísu á því engan vafa.

Hér er of mikið í húfi til að unnt sé að skella við skollaeyrum, og álit flm. er það, að svo sterk rök hnígi að því að taka beri upp björgunarnet Markúsar að sjálfsagt sé að hreyfa málinu á þann veg sem þáltill. segir til um. Þar hlýtur að þurfa að koma til tafarlaus úttekt þar sem svo margir viðurkenndir aðilar telja löggildinu sjálfsagða.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í bréf frá siglingamálastjóra þar sem segir að Siglingamálastofnun ríkisins hafi skoðað og tekið nokkurn þátt í prófun á björgunarneti því sem Markús B. Þorgeirsson, Hafnarfirði, hefur hannað. Hér er lýsing á netinu, en síðan segir:

„Þessa nets er ekki krafist í skipum samkvæmt gildandi reglum. Hins vegar er Siglingamálastofnun ríkisins sannfærð um að slíkt björgunarnet geti verið til aukins öryggis um borð í skipum og megi þess vegna skoða sem björgunartæki sem mæla má með að sé til um borð í íslenskum skipum til viðbótar þeim björgunartækjum sem krafist er samkvæmt gildandi reglum, en það kemur ekki í stað þeirra.“

Þetta segir Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri í umsögn sinni og segir það sína sögu einnig, að í þessari grg. hnykkir hann sérstaklega á því, að þetta björgunarnet Markúsar sé mjög til þess fallið að auðvelda að ná mönnum, er fallið hafa útbyrðis, um borð í skip aftur.

Ég hef, frá því að þessi till. var flutt, fengið skeyti frá áhöfnum farskipa sem óska mjög eindregið eftir því, að Alþ. taki þá afstöðu að úttektin verði gerð. Ég hef fengið yfirlýsingar frá skipverjum á ms. Herjólfi alveg sérstaklega. Það er ástæða til þess, því að rétt áðan var ég að fá mynd af fyrsta skipverjanum sem bjargaðist í björgunarnet Markúsar, en hann var einmitt á ms. Herjólfi.

Markús lætur ekki deigan síga frekar í þessu máli en öðrum. Menn þekkja dugnað hans í þessu máli. Hann kynnir nú þetta net sitt víða meðal skipstjórnarmanna, hefur farið m.a. til Vestmannaeyja til kynningar á því, og síðast í gær var hann uppi í Sjómannaskóla undir stjórn skólastjórans þar, þar sem hátíðarsalur skólans var þétt setinn og hann fékk hinar bestu undirtektir við tilraun sína og áskorun frá öllum þeim fjölda kennara og nemenda skólans, sem þar voru, um að halda áfram baráttu sinni fyrir lögleiðingu á neti þessu.

Ég legg ekki út af fyrir sig neinn dóm á það, hvort um skilyrðislausa lögleiðingu eigi að vera að ræða. Ég vil láta framkvæma á því hlutlausa úttekt, þannig að af séu tekin öll tvímæli um þetta, en till. er einnig ákveðin í þá átt. Það má kannske segja að það hefði verið réttara að skora á viðkomandi ráðh. að láta sérfróða menn gera úttekt á þessu notagildi og því verður þá breytt í nefnd. En að lokinni þessari umr. vil ég leyfa mér, herra forseti, að leggja til að till. verði vísað til hv. allshn.