20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4750 í B-deild Alþingistíðinda. (4976)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil rifja það upp fyrst, að ég legg aðeins til í sambandi við framkvæmdasjóð aldraðra að farin sé svipuð leið og hv. 3. þm. Reykv. lagði einu sinni til í sambandi við framlög Reykjavikurborgar til aldraðra, þegar hann lagði til, að 10% af útsvarstekjum rynnu til þeirra þarfa, og vildi með þeim hætti binda saman tekjur og framlög til aldraðra.

Til þess að ekki fari milli mála hver mín skoðun er í þessu máli ætla ég að bera fram svohljóðandi brtt., að 1. tölul. 2. gr. orðist svo: „0.3% af tekjum ríkissjóðs, samkvæmt fjárlögum.“ Og til vara komi ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi: „Á árinu 1981 skal ríkissjóður inna af hendi til Framkvæmdasjóðs aldraðra 50% þeirrar fjárhæðar, er rennur til hans samkvæmt 1. tölul. 2. gr.“ — þ. e. ef fjh.- og viðskn. sér enga aðra leið út úr málinu en að leggja nýjan skatt á borgi ríkissjóður þá helming þess fjár og bæti mönnum þannig upp brigðin í sambandi við brbl.

Ég legg þetta hér með fram til forseta deildarinnar. Ég tek fram, að hvor aðferðin sem farin yrði, hvort sem miðað yrði við 0.3% af tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum eða hinn síðari kostur valinn, yrði heildarfjármagnið svipað, eða um 1.5 milljarðar gamlir í þessu skyni, 15 millj. kr.