20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4752 í B-deild Alþingistíðinda. (4983)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. til staðfestingar á brbl. sem sett voru varðandi kjarasamninga við BSRB. Frv. þessu er í fyrsta lagi ætlað að tryggja rétt þessara launþega til að fá atvinnuleysisbætur og í öðru lagi er því ætlað að tryggja þeim, er vinna á samningssviði BSRB, atkvæðisrétt um kaup og kjör.

Það virtist vera uppi nokkur misskilningur og töldu sumir að þetta frv. ætti að leiða til þess að BSRB yfirtæki með lögum þessum jafnvel félaga í öðrum stéttarfélögum. Það var að sjálfsögðu aldrei tilgangurinn og er þetta áréttað með bréfi fjmrn.

Við kölluðum til fundar á sínum tíma aðila frá BSRB og kom það skýrt fram á þeim fundi, að þeir voru fyrst og fremst að leita eftir því, að þeirra fólk fengi atkvæðisrétt um aðalkjarasamninga, en væru á engan hátt að seilast eftir öðrum félögum. Einnig komu á okkar fund fulltrúar frá ASÍ og skýrðu sjónarmið sín.

1. minni hl. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim skilningi varðandi 1. gr. er fram kemur í bréfi fjmrn. Eftir að við gengum frá nál. kom bréf frá stjórn BSRB.

Þar virðist enn gæta einhvers misskilnings milli hennar annars vegar og fjmrn. hins vegar. Ætla ég ekki að blanda mér á þessu stigi í það mál og lít svo á að þar sé fyrst og fremst um að ræða málefni þeirra annars vegar og fjmrn. hins vegar.

Að svo mæltu vil ég aðeins ítreka það, að við undirrituðum nál., ég, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og Jón Ingi Ingvarsson., Sighvatur Björgvinsson skilaði séráliti. En mér er ekki kunnugt um að aðrir nm. hafi séð ástæðu til að skila nál. um þetta mál.