20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4758 í B-deild Alþingistíðinda. (4986)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hefur verið mælt hér fyrir tveimur nál. í þessu máli, en fulltrúar Sjálfstfl. hafa ekki gefið út nál. Þetta frv. hefur legið fyrir n. í mestallan vetur, enda flutt mjög snemma, og það er til staðfestingar, eins og fram hefur komið, á brbl. sem gefin voru út 9. sept. Að því er segir í formála forseta Íslands fyrir þeim brbl. eru þau gefin út af því að fjmrh. taldi brýna nauðsyn bera „til að fá lögfest ákvæði um nokkur félagsleg málefni, sem opinberir starfsmenn telja sér mikilvæg og ríkisstj. hefur fallist á að hlutast til um að nái fram að ganga og vill þannig stuðla að því að kjarasamningar geti náðst við þá, sem samrýmst gætu stefnumörkun í kjaramálum í stjórnarsáttmála ríkisstj., “ eins og segir þar.

Í ljós kom, þegar þetta frv. um staðfestingu á brbl. þessum var rætt í fjh.- og viðskn., að það var takmarkað fylgi sem þetta frv. óbreytt átti í n., og í viðræðum n. við bæði fulltrúa ASÍ og fulltrúa BSRB kom fljótlega í ljós að hér var um alvarlegan ágreining að ræða. Það kom greinilega fram hjá fulltrúum ASÍ, að þeir töldu sig ekki geta staðið að því, að 1. gr. yrði samþykkt óbreytt eins og hún lá fyrir á þskj. Þeir töldu m. ö. o. brýna nauðsyn bera til þess að lögfesta efnislega skilning fulltrúa ASÍ í þessu máli.

En svo gerist það, að þegar komið er að þinglokum kemur það bréf sem hér hefur verið vitnað í frá hæstv. fjmrh., og það er dagsett 18. maí. Þar er gefin skýring að gefnu tilefni vegna umræðna um þessa margnefndu 1. gr. brbl., og þegar þessi skýring er gefin og liggur fyrir, sem hér hefur verið vitnað til og ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa því það er búið að gera það hér, töldu fulltrúar ASÍ, sem mættu aftur á fundi fjh.- og viðskn., sig geta við unað. Hitt er alveg rétt að mínum dómi, eins og fram kemur í nál. fulltrúa Alþfl., að það hefði þó verið enn skýrara og ákveðnara að setja þessar skýringar inn í sjálfa lagagreinina.

Formaður fjh.- og viðskn. lýsti því yfir í framsögu, að enn hefði komið eitt bréf eftir að n. hafði gengið frá afgreiðslu málsins. Er það bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Það bréf hef ég ekki séð. Var ekki sent ljósrit af því til okkar nm., þó ekki hafi þá verið búið að taka málið fyrir, fyrr en í nótt.

Ég vil taka það fram, að þegar ríkisstj. blandar sér í kjarasamninga með þessum eða öðrum hætti og lofar að lögfesta tiltekin atriði, eins og hér er um að ræða, held ég að það sé hyggilegt fyrir hvaða ríkisstj. sem er að hafa um það eins náið samráð við Alþingi og hægt er og ræða slík atriði við stjórnarandstöðu. Það er ekki þar með sagt að stjórnarandstaðan felli sig við slíka lausn, en ríkisstj. hefur þá gefið henni kost á að fylgjast með frá fyrstu tíð. Það var ekki gert í þessu máli, — a. m. k. ekki hvað viðkemur Sjálfstfl., því að honum var ekki skýrt frá því, hverju væri verið að lofa. Því teljum við fulltrúar Sjálfstfl. í n. að lögfesting á þessu atriði sé algerlega einkamál ríkisstj. sem við ættum ekki að blanda okkur í afgreiðslu á. Hins vegar vil ég taka fram, að í umræðum og viðræðum við n. af og til í vetur var ég algerlega hlutlaus í þessu máli til að byrja með og hlustaði aðeins á mál manna. Eftir því að dæma, sem ég heyrði frá þessum fulltrúum, var ég persónulega sannfærður um að þær skoðanir, sem fulltrúar Alþýðusambands Íslands höfðu, áttu fullan rétt á sér.

Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram. Ég tel ekki rétt af okkur að vera að gefa út neitt sérstakt nál., en vildi með þessum orðum koma því hér að, hver var okkar skoðun eftir þá meðferð sem málið hefur fengið í nefndinni.