20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4759 í B-deild Alþingistíðinda. (4987)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt eins og ég get með tilliti til þess, hversu áliðið er vinnudags, en ég hlýt þó að lýsa því hér, að ég mun að sjálfsögðu greiða því atkv., að þessi brbl. verði samþykkt óbreytt. Það ætti varla að ræða hvort þeim ætti að breyta eða ekki. Auðvitað eiga þau að standa óbreytt eins og um var samið. Hins vegar segir í nál. á þskj. 967, að minni hl. n. leggi til að frv. verði samþykkt með þeim skilningi varðandi 1. gr, er fram kemur í bréfi fjmrn.

Umrætt bréf fjmrn. hefur verið lagt fram hér með þskj., en bréf, sem fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis var skrifað 19. maí 1981 af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, er ekki lagt fram hér. Þar sem mér sýnist á öllu að hér sé um túlkun að ræða sem ekki verður úr skorið hér, tel ég það skyldu mína, og það var einróma samþykkt í stjórn BSRB, að skjalfesta í Alþingistíðindum umrætt bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Það hlýtur að teljast eðlileg meðferð málsins. En þetta bréf hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í tilefni af bréfi fjmrn. til nefndarinnar, dags. 18. þ. m., um túlkun á 1. gr. brbl. nr. 68 1980, um breyt. á lögum nr. 29 1976, vill stjórn BSRB taka eftirfarandi fram:

Hafa ber það ríkt í huga, að brbl. eru samin sameiginlega af fulltrúum fjmrh. og samningamönnum BSRB, enda eru þau hluti af undirrituðu samkomulagi sem lagt var fyrir til samþykktar í allsherjaratkvgr. ásamt aðalkjarasamningi undirrituðum 20. ágúst 1980. Í viðræðum fulltrúa BSRB og ríkisins um frvgr. var gengið út frá þeirri framkvæmd, sem tíðkast hefur undanfarin ár, að hálfopinberar stofnanir, er um ræðir í frv., hafa eftir á gengið inn í samninga BSRB og ríkisins. Á það hefur skort að starfsmenn þessara stofnana hafi fengið að greiða atkv. um sáttatillögur. Hins vegar hafa þeir jafnan greitt atkv. þegar BSRB hefur lagt samninga undir atkvæði félagsmanna. Í 1. gr. brbl. segir að lögin skuli með þeim hætti einnig taka til sjálfseignarstofnana o. s. frv. Þetta vísar augljóslega til þess sem segir í 1. málsgr. 1. gr. laga nr. 29 1976, sem verið er að breyta, en þar segir: „Lögin taka til allra starfsmanna sem eru félagar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eða félagi innan vébanda þess og skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.“

Í ljósi þessa alls ber að skoða afstöðu BSRB til lagagreinar þeirrar sem bréf fjmrn. fjallar um. Eins og sést af framansögðu hafa hinar hálfopinberu stofnanir þannig í reynd samþykkt að fara eftir samningsréttarlögunum.

Stjórn BSRB bendir á að í lagagr., sem frv. er ætlað að staðfesta, er hvergi ákvæði þess efnis, að hlutaðeigandi stofnun sé ætlað að veita fjmrh. umboð sitt til samningsgerðar. Slíkt væri heldur ekki til að rýmka samningsrétt BSRB, eins og heitið er í meðfylgjandi bréfi fjmrh. til BSRB, dags. 12. mars 1980, þvert á móti yrði hann verulega þrengdur.

Í 3. gr. laga nr. 29 1976 er tekið fram að fjmrh. fari með fyrirsvar ríkissjóðs, og viðbótarákvæði í brbl. veitir honum ekkert umboð til að semja fyrir hálfopinberar stofnanir, heldur þarf samþykki þeirra til að aðalkjarasamningur BSRB og ríkisins gildi fyrir þær.

Stjórn BSRB vill vekja athygli Alþingis á því, að 1. gr. brbl. hefur verið beitt og er komin til framkvæmda við gerð samninga síðan haustið 1980. Stjórn BSRB vekur athygli á því, að stéttarfélög innan ASÍ gera kjarasamninga við Vinnuveitendasamband Íslands. Eftir á gengur fjöldi atvinnurekenda, sem ekki eru í Vinnuveitendasambandinu, inn í þessa samninga. Enginn skyldar þessa atvinnurekendur til að afsala sér samningsrétti né þessi stéttarfélög til þess að semja um kjör þessa fólks beint við Vinnuveitendasambandið. Er hér um hliðstæða framkvæmd að ræða.

Rétt er að taka fram að eftirgreindar hálfopinberar stofnanir hafa gengið inn í samningana frá 20. ágúst 1980 á grundvelli brbl. fyrir þá starfsmenn sem eru félagsmenn í BSRB: Brunabótafélag Íslands; Hrafnista DAS; Hrafnista í Hafnarfirði; Dvalarheimilið Ás, Ásbyrgi; Elli- og hjúkrunarheimilið Grund; Grænmetisverslun landbúnaðarins; Hjartavernd; Kirkjugarður Reykjavíkur; Krabbameinsfélag Íslands; Landakotsspítalinn; Náttúrulækningafélagið í Hveragerði, heilsuhælið; Norræna eldfjallastöðin; Norræna húsið; Rauði kross Íslands; Reykjalundur; Samábyrgð Íslands á Fiskiskipum; S. Á. Á., Lágmúla 9, Sogni, Silungapolli; Sjálfsbjörg, Reykjavíkurdeild, Sjálfsbjörg, vinnu- og dvalarheimili, Sjálfsbjörg, skrifstofa og dagvistun; Skálatúnsheimilið; Tónmenntaskóli Reykjavíkur; Slysavarnafélag Íslands; Tilkynningaskyldan; Styrktarfélag vangefinna, skrifstofa, Lyngás, Bjarkarás; Ásgerði, sambýlið; Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra; Sólborg vistheimili þroskaheftra; St. Fransiskussjúkrahús; St. Jósepsspítalinn; Vistheimilið Víðinesi; Orkubú Vestfjarða; og Erfðafræðinefnd Háskóla Íslands.

Þá hafa sjúkrahús víðs vegar um landið varðandi kjör hjúkrunarfræðinga fylgt þeim kjörum sem samið var um. Hefur fjh.- og viðskn. skrá yfir þau sjúkrahús í höndum.

Með tilvísun til yfirlýsingar fjmrh. um rýmkun samningsréttar, sem var grundvöllur samkomulags um aukinn samningsrétt BSRB, sem síðar var samþykkt af félagsmönnum BSRB í allsherjaratkvgr., mótmælir stjórn BSRB túlkun þeirri, sem fram kemur í bréfi ráðh., og telur hana samningsrof. Af hálfu samningsnefndar BSRB var hins vegar sá skilningur, sem fram kemur í bréfi þessu, margítrekaður í viðræðum við sáttanefnd.“

Undir þetta bréf skrifa. Kristján Thorlacius, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Haraldur Steinþórsson.

Ég held að hér eins og oft áður hafi ekki verið gengið nógu skýrt og vel frá samningum og það ber að harma, en enn þá meira ber að harma þá togstreitu sem virðist uppi milli stórra verkalýðssambanda eins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambands Íslands. Ég leyfi mér að fullyrða að sú togstreita hefur ekki orðið til innan vébanda Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Stjórn BSRB hefur aldrei viljað troða illsakir við ASÍ. Því hafna ég algerlega. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um að þarna stendur túlkun gegn túlkun, og á það verður auðvitað að reyna þegar vandamál koma upp við næstu samninga. En ég get ekki samþykkt þessi brbl. með því nál. sem hér fylgir ásamt túlkun fjmrh., en mun að sjálfsögðu greiða þessu frv. atkv. eins og það liggur fyrir.