16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

8. mál, aukning orkufreks iðnaðar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er flutt af þm. Alþfl., um aukningu orkufreks iðnaðar, gefur kærkomið tilefni til að ræða hér um þennan þátt í atvinnulífi okkar og hugsanlegri atvinnuþróun. En hún er einnig til vitnis um viðhorf Alþfl. til þessara mála, og það er vissulega athyglisvert að lýst sé inn í vopnabúr hans nú í stjórnarandstöðu í sambandi við þessi mál. Ég tel að þessi tillöguflutningur beri ekki vott um mikla málefnaauðgi eða frjósemi í hugsun í sambandi við atvinnumál hjá Alþfl., þó að aðrir hafi farið þar fram með meiri hávaða en núv. formaður flokksins, sem er fyrsti flm. þessarar tillögu. En það er skiljanlegt að hann sem annar af forustumönnum í stjórnarandstöðu vilji gera sig nokkuð gildandi, og einnig með það í huga að hann hyggst leita eftir endurkjöri til forustu í flokki sínum innan skamms.

Efni þáltill. er út af fyrir sig einfalt í sniðum. Þar er gert ráð fyrir að Alþ. kjósi nefnd sjö þm. sem fjalli um, eins og það er orðað, stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár. Nefnd þessari er ætlað að skila Alþ. og ríkisstj. skýrslum um valkosti í stóriðjumálum og sitthvað er að þeim lýtur. Í grg. er m.a. talað um að nú sé tímabært að móta stefnu fyrir a.m.k. næsta áratug um orkuframkvæmdir og taka um teið ákvörðun um hagnýtingu orkunnar umfram venjulegan vöxt orkuþarfar í landinu.

Það er út af fyrir sig hægt að vera sammála flutningsmönnum um það, að þörf er á að móta stefnu í sambandi við þau mikilsverðu mál sem þarna er að vikið, en Alþfl. ætti að vera kunnugt um það, að að slíkri stefnumótun er unnið, og það er skýrt fram tekið í málefnasamningi núverandi ríkisstj. að svo skuli vera.

Meginrökin fyrir því, að Alþfl. telur nauðsynlega stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár, eins og það er orðað, er að hans mati að íslenskt atvinnulíf eigi um þessar mundir í vök að verjast og stórframkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar næstu tvo áratugi séu án efa besta tækifærið til að auka atvinnu, bæta og tryggja lífskjör þjóðarinnar, eins og segir í grg. Á þessari röksemdafærslu vík ég síðar í máli mínu. En meginrökin fyrir því, að Alþ. eigi að kjósa nefnd sjö þm. til að vinna að tillögugerð, eru þau, eins og segir í grg., með leyfi hæstv. forseta, að: „þetta mál er svo stórt í sniðum að ekki dugir að pukrast sé með það í einu ráðuneyti.“

Er vísað til undirbúnings að samningum um álverið í Straumsvík sem fordæmis til eftirbreytni í þessu samhengi. Ég held að það væri vænlegra að leita annars staðar fyrirmyndar að farsælum undirbúningi að stóru máli heldur en varðandi álverið í Straumsvík, því að því miður er það ekki lýsandi fordæmi um hvernig standa beri að undirbúningi atvinnurekstrar í þessu landi og er ástæða til að víkja frekar að því síðar.

Í sérstökum feitletruðum kafla í grg. með þáltill. er kvartað undan því, að lítið sem ekkert hafi frést af athugunum iðnrn. um orkufrekan iðnað og að ég sem iðnrh. virðist áhugalítill um stóriðju. Þetta stendur ekki aðeins í þessari grg., heldur hefur Alþýðublaðið að undanförnu verið notað til að plægja akurinn fyrir þessum nýja stórasannleik flokksins í atvinnumálum. Þar hefur mátt lita fyrirsagnir síðustu tvær vikur, ýmist úr penna formanns flokksins eða ritstjóra blaðsins, — fyrirsagnir eins og þessar: „Iðnaðarráðherra er á móti orkufrekri stóriðju.“ „Orkufrekur útflutningsiðnaður er þjóðarnauðsyn.“ „Framleiðniaukning og atvinnuleysi eða stóriðja.“ Þetta eru dæmi um fyrirsagnir, flestar á útsíðum blaðsins. Og í gær, miðvikudaginn 15. okt., þar sem blaðið fjallar um þennan nýja bjarghring Alþfl. í atvinnumálum, er tillöguflutningur þm. flokksins túlkaður sem sérstakt vantraust á iðnrh., eins og það er orðað í forsíðufyrirsögn. Leiðara Alþýðublaðsins sama daga lýkur með svofelldum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalatriðið er að við megum engan tíma missa. Þjóðarhagsmunir eru í veði. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á því, að ákvörðunarvald í þessum málum sé einokað í höndum úrtölumanna Alþb.“

Við Alþb.-menn erum ekkert óvanir að heyra slík hljóð úr þessu horni og það raunar í vaxandi mæli nú síðustu mánuði og um ýmsa fleiri málaflokka en orku- og iðnaðarmál. Það er bersýnilegt af málflutningi talsmanna

Alþfl., ef marka má þann málflutning, að þeir líta á Alþb. sem höfuðandstæðing sinn í íslenskum stjórnmálum. Það er ekki verið að beina geiri að hinum borgaralega stjórnarandstöðuflokki, Sjálfstfl. Hann er lítið á dagskrá í þessum umræðum. Og það kann að vera lýsandi um það, hvert hugur stefnir hjá Alþfl., bæði varðandi almenn stefnumið og eins varðandi samstarfs- og samvinnuaðila í íslenskum stjórnmálum. Með ummælum sínum og umræðu varðandi stóriðjumál að undanförnu fetar Alþfl. dyggilega slóð sumra talsmanna Sjálfstfl. og Morgunblaðsins úr leiftursóknarstefnunni s.l. vetur. Það er eflaust engin tilviljun, að formaður flokksins vill nú þjappa sér sem fastast upp að þeim armi Sjálfstfl. í þessu máli sem öðrum.

Herra forseti. Áður en ég vík að stöðu þessara mála á líðandi stund og stefnu Alþb. og stefnu ríkisstj. varðandi orku- og iðnaðarmál, vil ég aðeins títa til baka eitt til tvö ár aftur í tímann. Þá sat Alþfl. ásamt Alþb. í ríkisstj. undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Hv. alþm. eru kannske í fersku minni tilþrif Alþfl. á þeim dögum, m.a. hér í þinginu, en ég kemst þó ekki hjá því að rifja hér upp örfá atriði vegna málflutnings flokksins nú.

Þingflokkur og ráðherrar Alþfl. knúðu vissulega fram ýmis nýmæli, sem svo voru kölluð og tengdust efnahagsmálum og því sem þeir töldu vera flestra meina bót í þeim efnum. Þau nýmæli vörðuðu einkum prósentumörk og viðmiðanir af ýmsu tagi er slíku tengdust. Á þessum prósentumörkum sínum í sambandi við fjárfestingar alveg sérstaklega og raunar peningamagn í umferð stóðu þeir eins og hundar á roði. Og þeir fengu því framgengt með miklu kappi, að þessar viðmiðanir voru lögfestar í svonefndum Ólafslögum. Að vísu tókst að skapa nokkurn sveigjanleika vegna þeirra sem andstæðir voru þessari nýju efnahagsstefnu Alþfl., en af viðleitni til að halda þessu stjórnarsamstarfi og reyna að ná árangri innan þess var þó látið undan sjónarmiðum Alþfl. að þessu leyti. Þannig var sett þak á fjárfestingu í landinu eftir þessum viðmiðunum, milli 24 og 25%, og raunar var þetta svo harðsótt og skyldi vera svo nákvæmt, að ráðh. Alþfl. — ég hygg þó með áhuga þingliðsins, þingflokksins sérstaklega að baki — börðust fyrir því harðri baráttu, að ekki yrði hvikað frá þessu og farið yfir 24.5 % í fjárfestingu. Um þessi mál og bæði fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var mikið tekist á í ríkisstj. á þessum tíma, og það er vert að rifja það upp, að allt skyldi reyrt undir þetta fjárfestingarþak Alþfl., m.a. fjárfesting á vegum álversins í Straumsvík og fjárfesting vegna járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, þó að viðurkennt væri af aðilum, sem á málið litu, að þarna væri að verulegu leyti um inn- og útfærslu að ræða á fjárfestingarvörum.

Þessi þrákelkni og þessi viðhorf Alþfl. á þessum tíma bitnuðu ekki síst á brýnum orkuframkvæmdum á árinu 1979, m.a. hitaveituframkvæmdum víða um land, raforkuframkvæmdum og hitaveitu- og virkjunarrannsóknum, svo ekki sé minnst á boranir fyrir Kröfluvirkjun, þar sem ekkert mátti hreyfa, ella skyldi skilið að skiptum.

Niðurstaðan af þessari glímu hefði orðið enn alvarlegri ef ekki hefði tekist um það samkomulag við stjórn Landsvirkjunar og við forustu Íslenska járnblendifélagsins að breyta nokkuð framkvæmdaáætlun fyrir árið 1979 og flytja allverulegt fjármagn milli ára. Þetta skipti nokkrum mill jörðum kr. og væru hærri tölur í dag en þær voru þá. Og það er vert að minnast þess, að þessi afstaða

Alþfl. reyndist óbifanleg. Þó komið væri fram á árið 1979 og olíuverð væri tekið að rjúka upp úr öllu valdi áður en gengið var frá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið, þá var ekki minnst á það, að hraða þyrfti virkjunarframkvæmdum í landinu eða undirbúa ný átök í sambandi við iðnaðarmannvirki, heldur þvert á móti. Þá mátti ekki heyra minnst á, svo dæmi sé tekið, virkjun á Austurlandi, miðlungsstóra virkjun, þótt sýnt væri að hún gæti tengst stærri virkjunarkosti með hagkvæmum hætti. Með semingi reyndist kleift að tosa þingliði Alþfl. til að samþykkja 2300 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til orkumála, er komið var fram í júlímánuð í fyrra, og þá eingöngu vegna þunga olíuverðhækkana og almenningsálitsins í landinu, sem hlaut að fylgja viðhorfsbreytingu í þessum efnum, og vegna margítrekaðra tillagna frá iðnrn. um viðbrögð við þeim aðstæðum.

Hinn stjórnarflokkurinn stóð heils hugar að þessum breytingum, þessari fjármagnsviðbót á orkuframkvæmdir á þessum tíma, en Alþfl. skar af fjármagn þar sem að leitast átti við að koma fjárfestingunni miklu í í Kröfluvirkjun í gagnið. Það mátti ekki fram ganga þá frekar en áður og engin viðleitni uppi til þess að ávaxta þá fjárfestingu, því að Alþfl. taldi sig þurfa þetta minnismerki til þess að ráðast á andstæðinga sína og þá sem þar höfðu staðið fyrir málum. Um það efni ætla ég ekki að ræða hér sérstaklega. Um það efni var Alþ. gefin sérstök skýrsla á s.l. vori.

Alþfl. fékk svo sitt tækifæri í sambandi við stefnumörkun í orkumálum og iðnaðarmálum á s.l. vetri. Hann fékk möguleika á að sýna stefnu sína og tillögugerð, a.m.k. á pappírnum, hér á Alþ. með framlagningu fjárlagafrv. af þáv. hæstv. fjmrh. flokksins. Ekki varð ég var við það, að þetta fjárlagafrv. bæri vott um sérstakan sóknarhug Alþfl., hvorki í sambandi nýtingu auðlinda okkar til almennra þarfa og til að útrýma dýrum innflutningi né heldur í sambandi við það áhugamál flokksins, sem hér er fram borið. Það var að vísu ekki mikið um beinan niðurskurð frá því sem hafði verið í fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, nokkrum mánuðum fyrr. En þó gætti þess, ef nokkuð var, í sambandi við fjárveitingar til virkjunarrannsókna er greiða eiga fyrir ákvörðunartöku um næstu virkjunarkosti. Þar skyldi skorið niður og það var gert. Það var deilt með tveimur í þá fjárveitingu sem til þess var ætluð.

Það mætti ýmislegt fleira rekja frá tíð Alþfl., valdaskeiði hans í fimm mánuði á s.l. vetri, til þess að sýna inn í það holrúm sem flokkurinn talar nú úr í þessum málum. En ég ætla ekki að tefja tíma þingsins með því að rekja miklu fleira. Þó er ástæða til þess að rifja það upp hér, að Alþfl. ber ábyrgð á því, að ekki tókst að ná fram skynsamlegri endurskipulagningu í raforkumálum landsmanna, með því að fulltrúi hans í borgarstjórn Reykjavíkur felldi rækilega undirbúinn sameignarsamning um nýtt raforkuöflunarfyrirtæki fyrir landið, og ég held að þeir skilji það, flestir Alþfl.-menn sem voru fylgjandi þessu máli, að það var til mikils ófarnaðar og á ekki eftir að flýta fyrir þeirri skipulegu hagnýtingu okkar orkulinda sem flokkurinn talar nú fyrir í sambandi við þessa þáltill.

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að stefnu núv. ríkisstj. í sambandi við aðgerðir í orkumálum, sem tengjast að sjálfsögðu orkunýtingu.

Stefna ríkisstj. kemur m.a. fram í því, að fjárframlög til hitaveituframkvæmda voru aukin samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun yfirstandandi árs um nær fimmtung varðandi framkvæmdamagn og raforkuframkvæmdir um 46–47%, einnig varðandi framkvæmdamagn. Þarna var brotið blað miðað við það sem var meðan Alþfl. kom í veg fyrir að hægt væri að leggja þá áherslu á orkumál sem ástæða var til, ekki síst í ljósi gerbreyttra viðhorfa.

Það hefur einnig á yfirstandandi ári verið hert verulega á virkjunarrannsóknum, og það er stefnt að því að taka ákvörðun um næstu stórvirkjun vegna landskerfisins á næsta ári, væntanlega á fyrri hluta næsta árs, og þá í samræmi við framkvæmdaáætlun til næstu 5–10 ára sem að hefur verið unnið um tveggja ára skeið á vegum iðnrn. Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að rannsóknir á sviði orkumála og orkunýtingar verði efldar og mörkuð samræmd orkustefna til langs tíma. Í því sambandi hafa menn í huga tímabilið fram til aldamóta, þ.e. næstu tvo áratugi. Að undirbúningi slíkrar stefnumótunar hefur verið unnið í iðnrn. um skeið og á þeirri vinnu verður hert á næstu mánuðum á vegum rn. og ríkisstj. Ég vænti þess, að hægt verði að leggja a.m.k. drög að slíkri samræmdri orkustefnu fram til kynningar hér á Alþ., væntanlega í formi þáltill., fyrir lok þessa þings. Þar er fyrirhugað að draga megintínur varðandi helstu þætti orkumála á þessu 20 ára tímabili, auðvitað með sveigjanleika og óvissu, sem slíkri áætlanagerð hlýtur að fylgja, einkum á síðasta áratug aldarinnar, svo og varðandi einstakar framkvæmdir. Með því að leggja fram slíka orkustefnu á mótunarstigi mun þingflokkum og þeim er áhuga hafa, gefast kostur á að kynna sér þær hugmyndir og tillögur og bera fram hugmyndir sínar og aths. er teknar yrðu að sjálfsögðu til athugunar við frekari vinnslu málsins. Og það er full ástæða til að gera ráð fyrir að starfandi þingnefndir — og þá öðru fremur iðnaðarnefndir Alþingis — hafi áhuga á að fjalla um slíkt mál og taka á þeim, og ég held að það séu miklu skynsamlegri vinnubrögð, að það verði iðnaðarnefndir þingsins sem á þeim málum taki, þær nefndir, sem eru að fjalla um orku- og iðnaðarmál á líðandi stund og horfa þá væntanlega fram á við, og þær nefndir, sem fá munu til meðferðar þau mál og verkefni sem upp úr ákvörðunum á grundvelli þessarar stefnumótunar kunna að spretta. Orkunýting, þar með talinn orkufrekur iðnaður, hlýtur að verða eitt af viðfangsefnum þeirrar stefnumörkunar sem hér er um að ræða. Í sáttmála ríkisstj. er sérstakur kafli um eflingu íslenskra atvinnuvega, m.a. að nýta skuli innlendar auðlindir og hráefni og efla rannsóknir þar að lútandi. Þar er kveðið á um, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, að „ríkið stuðli að uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar er m.a. byggi á innlendri orku og hráefnum, enda verði slíkur nýiðnaður og frekari stóriðja á vegum landsmanna sjálfra.“

Hér er því slegið föstu, að um íslensk fyrirtæki verði að ræða, — fyrirtæki er lúti íslenskum lögum og dómstólum og séu undir ótvíræðu forræði Íslendinga. Þetta er í samræmi við stefnumörkun Alþb. um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu, og ég veit ekki betur en að Framsfl. hafi gert ítrekaðar samþykktir á sínum þingum undanfarin ár, — samþykktir er ganga í sömu átt.

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að hér komi fram mörkuð stefna Alþb. í þessum málum, ekki síst vegna rangtúlkunar og málflutnings hv. flm. þeirrar þáltill. sem hér er til umr., - stefnumörkun flokksins eins og hún var samþykkt samhljóða á flokksráðsfundi Alþb. í nóv. 1976 í tengslum við víðtæka stefnumótun í orkumálum, en þar segir svo um þessi efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Semja ber langtímaáætlanir um fjármögnun orkuvera og stóriðjufyrirtækja með tilliti til þess, að opinberir íslenskir aðilar eigi öll orkuver að fullu og a.m.k. verulegan meiri hluta í orkufrekum iðnfyrirtækjum. Gæta ber þess, að fjárfestingum á þessu sviði sé í hóf stillt þannig að þær hafi hvorki háskalega erlenda skuldasöfnun í för með sér né teljandi áhrif erlends auðmagns í íslensku atvinnulífi. Ýmiss konar orkufrekur iðnaður á fyllsta rétt á sér og getur fallið með eðlilegum hætti inn í atvinnulíf landsmanna. Þess þarf hins vegar að gæta, að hann sé í höndum landsmanna sjálfra og sé byggður upp innan ramma víðtækra þjóðhagsáætlana, þar sem ríkt tillit verði tekið til skynsamlegrar auðlindanýtingar svo og æskilegrar atvinnu- og byggðaþróunar í landinu.“

Og áfram segir í þessari stefnumörkun:

„Aðeins koma til greina fyrirtæki sem greiða viðunandi verð fyrir orkuna, sambærilegt við það sem öðrum iðnaði er ætlað að greiða þegar tekið hefur verið tillit til nýtingartíma og lægri orkuflutningskostnaðar í stórnotkun.“

Og enn fremur:

„Forgang hafi orkufrekur iðnaður, sem byggir á innlendum aðföngum (hráefni og orku, sbr. tilvitnaða töflu í áliti orkunefndar, sem fylgdi þessari samþykkt), iðnaður, sem er sem minnst háður einokunarhringum um framleiðsluaðföng og sölu afurða, sem fellur að æskilegri þróun byggðar, sem unnt er að byggja upp í áföngum með tilliti til fjárhagsgetu þjóðarbúsins, sem fellur að mótaðri stefnu um umhverfisvernd.“

Í samþykkt þessari er einnig fjallað um umhverfisvernd í tengslum við orkumannvirki og orkufrekan iðnað og um rannsóknir, skipulag og undirbúning ákvarðana um þessi efni. Eins og ekki hefur farið fram hjá mönnum í umræðu liðinna ára um þessi efni, hefur deilan í sambandi við orkufrekan iðnað í landinu ekki síst staðið um spurninguna um eignaraðild og svo vissulega það, hvernig ráðstafa skuli fjármagni, hvaða röðun skuli hafa í sambandi við verkefni. Af hálfu okkar Alþb.manna er meirihlutaeign íslenska ríkisins lágmarkskrafa þegar um stórrekstur er að ræða, eins og í flestum tilvikum er þegar orkufrekur iðnaður á í hlut. En það er rétt að taka fram, að við útilokum ekki samstarf við erlenda aðila, hvorki um minnihlutaeignaraðild né markaðsmál, ef það er metið svo, að það sé æskilegt og nauðsynlegt til þess að koma upp iðnfyrirtækjum sem falla að öðru leyti undir markaða stefnu. En það á hins vegar ekki að vera regla, ekki neinn óhjákvæmilegur fylgifiskur atvinnuuppbyggingar á þessu sviði, heldur ber að taka ákvarðanir um það í sambandi við einstök mál og í ljósi aðstæðna og aðeins ef æskilegt þykir að á slíka samvinnu eða eignaraðildarminnihluta reyni.

Ég minni á það, sem raunar kom fram í máli hv. frummælanda áðan um mat manna — það er vitnað í þekktan bankastjóra í grg. með þessari þáltill. — á möguleikum okkar Íslendinga til að reisa einir og óstuddir stóriðjufyrirtæki á borð við það sem fyrir er í landinu og að útvega lánsfjármagn til slíkra framkvæmda. Við höfum lánstraust, m.a. vegna þess bakhjarls sem við eigum í orkulindum landsins, til þess að ráðast í stór verkefni, enda séu að sjálfsögðu skynsamlegir kostir þar á ferðinni.

Nei, hv. þm., hér reynir vissulega á stefnu og viðhorf sem deilt er um í þessum efnum. En það hefur, held ég, ekki farið fram hjá neinum, að það hefur orðið viðhorfsbreyting í landinu á undanförnum árum í sambandi við það, hvernig æskilegt sé að standa að stórrekstri og hagnýtingu auðlinda okkar fyrir atvinnulífið. Þeim hefur fækkað stórlega sem mæna á erlent áhættufjármagn sem einu leiðina til að byggja upp slíkt atvinnulíf, og sem betur fer gætir þess í grg. með þáltill. þeirri sem hér er til umr., að menn, sem halda á penna, vilja ekki einhenda sér í erlenda stóriðju. Ég vænti þess fastlega, að Alþfl. beri gæfu til þess að móta skýra stefnu fyrr en síðar í þeim efnum, að þarna verði um íslenskt forræði yfir þeim atvinnurekstri að ræða sem við hugsum til að rísi í landi okkar. En eins og stendur hafa Alþfl. og Sjálfstfl. galopið fyrir innstreymi erlends áhættufjármagns, fjárfestingu erlendra auðhringa í landinu, þó að ég viti að það eru skiptar skoðanir innan þessara flokka um þessi mái. Í því sambandi er ástæða til að minna á afstöðu núv. hæstv. forsrh. í sambandi við málefni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, en ákvarðanir um hana voru teknar þegar hann gegndi starfi iðnrh. Þá var ráðist í þetta fyrirtæki með meinhlutaeign íslenska ríkisins. Þó að menn greini á um þá framkvæmd, þá var þarna þó betur á haldið en ef ráðist hefði verið í þetta fyrirtæki sem erlent fyrirtæki eftir þeirri formúlu sem fylgt var í sambandi við álverið í Straumsvík. En síðan heyrast hins vegar raddir innan þingliðs Sjálfstfl., og þær eru mönnum kunnar, sem tjá sig beinlínis andvígar eignaraðild okkar Íslendinga í orkufrekum iðnaði, og það eru þær raddir sem hljóma verst í mínum eyrum, ekki ósvipað og raddir sem mæla með því að við tökum fjármagni, við tökum við leigu vegna herstöðvar í landi okkar til þess að standa undir mannvirkjagerð í landinu.

Alþfl. segist í grg. með þessari þáltill. ekki setja neina fasta formúlu um eignaraðild og telur að fara verði eftir aðstæðum í hverju tilviki, eins og þar stendur. En það er tortryggilegt, að formaður flokksins, hv. frummælandi, 1. flm. þessarar þáltill., hefur eingöngu lofsungið samningsgerðina um álverið í Straumsvík, bæði í blaðagreinum að undanförnu og sami gagnrýnislausi tónninn kemur fram í grg. með þáltill. Samningarnir og reynslan af álverinu í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, þau fáu ár sem hún hefur starfað, eru lögð að jöfnu. Ég tel það verulega forherðingu að bera slíkt á borð, og ef það er hugurinn að baki þeirri eflingu orkufreks iðnaðar, sem kveðið er á um í þessari þáltill., þá horfir ekki vel ef sjónarmið Alþfl. næðu fram að ganga.

Eitt mikilvægasta atriðið við mörkun framtíðarstefnu og undirbúning ákvarðana um orkufrekan iðnað er að læra af reynslunni og þá ekki síst af þeim iðnaði sem fyrir er af þessu tagi í landinu. Þar háttar býsna misjafnlega til. Þar höfum við alíslensk fyrirtæki sem reist voru fyrir áratugum, þar sem eru áburðarverksmiðjan í Gufunesi og sementsverksmiðjan, sem framleiða fyrir innlendan markað og falla að sjálfsögðu mjög vel að okkar atvinnulífi og spara mikinn gjaldeyri. Við höfum þar einnig kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn, sem er með sérstökum hætti, en er þó með samvinnu við útlendinga um markaðsmál. Það fyrirtæki gagnrýni ég ekki síst fyrir það — eða undirbúning, réttara sagt, að því fyrirtæki-að það var ekki farið að með skynsamlegri gát við staðsetningu þess. Ég býst við að enga greini á um það í dag, að ekki fer vel á þeim iðnrekstri innan fjallahringsins í Mývatnssveit, og menn hefðu kosið að öðruvísi hefði verið staðið að málum í sambandi við það. En þeir menn, sem að því stóðu, eiga sér málsbætur. Vakningin í umhverfismálum var ekki orðin á árinu 1964 eða þar um bil, en þá minnir mig að ákvarðanir hafi verið teknar um þetta fyrirtæki. Þá rifust menn um aukaatriði í sambandi við það, rifust um veginn, en ekki verksmiðjuna. En síðan eru það hin stóru fyrirtæki, álverið í Straumsvík, sem nú hefur starfað í 10 ár, og svo járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, sem hóf starfsemi 1978. Þótt hvorugur. samningurinn um þessi fyrirtæki, álverið og járnblendiverksmiðjuna, sé góður að mati Alþb. er á þeim mikill og afgerandi munur, sem m.a. tengist því sem hér hefur komið fram í mínu máli og allir þekkja raunar, ákvæðum um eignaraðild og réttarstöðu, ákvæðum um orkuverð og endurskoðun á orkuverði og ákvæðum um mengunarvarnir og umhverfisvernd, mengunarvarnir jafnt innra á vinnustað sem umhverfisvernd hið ytra. Á sama hátt er reynslan af ýmsu, er þessum fyrirtækjum tengist, býsna ólík, og hefði verið æskilegt að þingflokkur Alþfl. hefði fengist til þess að setja eitthvað á blað um það. Þau atriði tengjast að sjálfsögðu hinni ólíku eignaraðild að þessum fyrirtækjum og viðhorfum, er þróast hafa í kringum þessi fyrirtæki og varða þessa mismunandi eignaraðild, viðhorf gagnvart rekstri, viðhorf gagnvart tækniþekkingu og þróun tækniþekkingar og tengslum við annað atvinnulíf í landinu. Það eru fáir sem geta staðhæft að ræst hafi þær spár, sem haldið var á loft þegar ákvarðanir væru teknar um álverið í Straumsvík, að þessi stóriðja ætti eftir að verða innan fárra ára verulegur vaxtarbroddur í úrvinnsluiðnaði hér í landinu. Það hefði áliðnaður í íslenskri eigu eflaust orðið. En vegna þess að þeir aðilar, sem þarna ráða, hafa ekki minnsta áhuga á þróun íslensks atvinnulífs, hefur eðlilega ekki mikið hreyfst í þessum efnum. Og það er einkennilegt, að Alþfl., allur þingflokkurinn, setur í grg. sinni og rökstuðningi jafnaðarmerki milli þessara fyrirtækja og heldur því fram, að þarna hafi orðið hagstæð þróun, hagstæð áhrif — að vísu úr því dregið í sambandi við álsteypu. En ég er ekki bjartsýnn á að hún eigi eftir að þróast í tengslum við álverið í Straumsvík, þó að ég viti að eftir því er rekið af ýmsum aðilum að svo geti orðið.

En alveg sérstaklega er það eitt atriði.sem ástæða er til að ræða í sambandi við þetta mál, og það tengist orði sem ég held að sé ekki að finna í grg. með þessari þáltill. Alþfl., og það er sannarlega umhugsunarefni. Þetta orð er orkuverð. Í því sambandi mætti halda býsnalanga ræðu. Ég ætla ekki að taka hér tíma þingsins til þess að halda hana um þetta eitt sér, en það nægir að minna á í þessu sambandi, að á síðasta ári seldum við ÍSAL um það bil 43% af framleiddri orku í þessu landi, en fengum í tekjur frá sama fyrirtæki aðeins 8–9% af innkomnum tekjum fyrir orkusölu í landinu. Sá samningur, sem þannig háttar um og þessu skilar, — og ég held að menn ættu nú að reikna áður en þeir fullyrða mikið um nettógjaldeyristekjur af þessu fyrirtæki, — þessi samningur er njörvaður í 14 ár í viðbót á ábyrgð Alþfl. og Sjálfstfl. á sínum tíma, og horfur eru á að orkuverð samkv. samningnum fari í reynd lækkandi á þessu tímabili mælt á föstu verðlagi, þrátt fyrir þá endurskoðun á honum sem tókst að knýja fram á árinu 1975 og þá á kostnað stækkunar fyrirtækisins. Þau endurskoðunarákvæði, sem samkv. samningi þessum á að geta reynt á að 14 árum loknum, á árinu 1994, virðast ekki gefa mikla möguleika á leiðréttingu. Við skulum minnast þess, að þessi samningur er í gildi til ársins 2014. Og hvert á að skjóta ágreiningsefnum um þennan samning? Til erlendra dómstóla.

Sannarlega verður fyrr en seinna að reyna sanngirnissjónarmið í þessu máli með tilliti til gífurlegra breytinga á orkuverði í heiminum frá því að samningurinn var gerður. Það er hins vegar ekki einfatt mál, þar eð um ágreiningsatriði samkv. samningnum á að fjalla fyrir erlendum dómstóli, eins og ég gat um áðan. Í þessu sambandi er vert að rifja upp annan og að sumu leyti hliðstæðan nauðungarsamning, sem viðreisnarstjórnin stóð fyrir á sjöunda áratugnum, landhelgissamninginn við Breta frá árinu 1961, sem kvað einnig á um erlenda dómkvaðningu í sambandi við breytingar. Það þurfti meirihlutavilja hér á Alþingi til þess að láta reyna á þessi atriði, til að snúa þarna við. Það getur átt eftir að reyna á það með einhverjum hætti í sambandi við þann raforkusölusamning sem tengist hinni erlendu stóriðju hér í landinu.

Orkusölusamningurinn varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga er vissulega til muna skárri en sá samningur sem ég var hér að ræða um varðandi átverið í Straumsvík. En þó eru á þeim samningi miklir meinbugir, eins og fram kom í umræðum um þessi mál hér á Alþ. í ársbyrjun 1979, þar sem fram kom að samningsaðilinn hafði tryggt sér eins konar neitunarvald í sambandi við endurskoðun á rammasamningnum. Þrátt fyrir endurskoðunarákvæði, sem þar eru og eru öll önnur og hagstæðari en í samningnum um álverið í Straumsvík, og þar eru raunar engin endurskoðunarákvæði nema sem tengjast þróun á framleiðsluverði, þá er ljóst að orkuverð samkv. raforkusölusamningnum til járnblendiverksmiðjunnar heldur ekki raungildi hvað þá meir á samningstíma miðað við líklegar forsendur um verðbólgu. Því er það, að einnig þessi samningur þarfnast endurskoðunar, og það er vert að hafa í huga við umr. um þessi mál.

Herra forseti. Ég gat þess, að það vekti athygli að ekki er neitt að finna um orkuverð í grg. með þáltill. Alþfl. né heldur í skrifum málgagns flokksins að undanförnu um þessi mál. Þar er nánast ein samfelld lofgerðarrolla um þá stóriðjusamninga sem hér hafa verið gerðir síðasta áratug, og það er ekki vegvísandi í sambandi við íslenska atvinnuþróun og hvatningu til að halda áfram á þeirri braut, þó að ég ætli út af fyrir sig ekki að lasta það að menn hugsi til þeirra mála sem fram á við horfa.

Í þessu sambandi er vert að rifja það upp, að umræða hefur verið mikil einmitt sérstaklega um orkuverð til orkufreks iðnaðar í grannlöndum okkar, bæði austan hafs og vestan. Í þessum löndum, í Noregi og í Kanada, hefur farið fram endurmat á þessum málum og mikil umræða í stjórnmálaflokkum, ekki síst í stjórnmálaflokki sem Alþfl. — að vísu með röngu að mínu mati — telur sinn bræðraflokk, jafnaðarmannaflokknum í Noregi. Hann hefur tekið þessi mál upp og flutt þau inn á norska Stórþingið með myndarlegum hætti, þar sem boðuð er róttæk endurskoðun á orkuverði til stóriðju í Noregi, ekki bara til væntanlegra stóriðjufyrirtækja, heldur varðandi gamla samninga. Ég held að það sé full ástæða til að vekja athygli á þessari umr. hér á Alþ. þó að ég efist ekki um að þeir menn, sem um þessi mál hugsa, hafi fylgst með henni og veitt henni athygli.

Hliðstæð umræða er í gangi vestan hafs, í Kanada, sem er keppinautur norskra framleiðsluafurða orkufreks iðnaðar, en þar hagar vissulega talsvert öðruvísi til í sambandi við eignarhald á raforkuframleiðslufyrirtækjum, sem í mörgum tilfellum eru í mun meira mæli í höndum iðnaðarfyrirtækjanna sjálfra, — í meira mæli en er í Noregi þó að þess finnist þar einnig dæmi.

Bæði í Noregi og í Kanada hafa menn sett sér það mark að reyna að gera þessi mál upp og ganga frá þessum málum ekki síðar en á árinu 1983. Það er samt engin tilviljun að þeir hafa auga hvor á öðrum og hvernig framvinda mála verður í þessum efnum í þessum löndum.

Hér í iðnrn. reynum við að fylgjast sem gleggst með þessari þróun og umræðum sem þarna eru í gangi, vegna þess að það skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli í sambandi við þau efni sem nú eru til athugunar, hugsanlega þróun orkufreks iðnaðar í landinu og þá samninga sem við höfum gert í þessum efnum. — Ég held að það sé rétt að ég vitni hér aðeins — með leyfi hæstv. forseta — í norsku orkustefnuna, sem jafnaðarmannastjórnin norska lagði fyrir Stórþingið í marsmánuði s.l. og er að finna í Stórþingstíðindum nr. 54 frá mars s.l., þar sem segir um orkuverð til orkufreks iðnaðar:

Ríkisstj. lítur svo á (þ.e. norska ríkisstj.), að það sé mikilvægt, bæði með tilliti til iðnaðar og byggðastefnu, að efla og þróa orkufrekan iðnað í Noregi og úrvinnslu sem á slíkum iðnaði byggist: Jafnframt að örva eins og mögulegt er nýtingu þeirrar orku, sem er til umráða, og að bæta ytra og innra umhverfi. Þessari viðleitni þarf að beina að starfandi fyrirtækjum, og veita ætti þeim möguleika til að endurnýja og endurskipuleggja framleiðslutæki sín til þess að bæta samkeppnishæfnina. Slíkar aðgerðir gætu einnig haft í för með sér framleiðsluaukningu.“

Síðan segir: „Svo framarlega sem það samrýmist þessum markmiðum í iðnaðarmálum mun ríkisstj. smám saman aðlaga orkuverðið núverandi framleiðslukostnaði, 11–12 aurar á kwst. fyrir utan virðisaukaskatt á janúarverði 1980.

Núverandi orkuverð er breytilegt eftir því, hvenær samningarnir voru gerðir. Möguleikar á að breyta verðinu eru einnig mismunandi. Lögð er til eftirfarandi stefnumörkun fyrir verðlagsþróun á orku til orkufreks iðnaðar:

Ný orkuafhending, sem fer fram yfir þær 29.6 terawattstundir vergrar forgangsorku sem iðnaðurinn hefur í dag, skal greidd samkv. verði sem endurspeglar kostnaðinn fyrir nýja orku. Grunnverð samninga, sem gerðir voru 1976 eða síðar, skal endurskoða 1985. Nýtt grunnverð fyrir úthlutun orku samkv. þessum samningum verði svipað og fyrir nýja orku. Vísitöluákvæði verði notuð frá 1980 til þess að raforkuverð verði fært til samræmis við raunverulegt verðlag. Orkuafhending samkv. þessum samningum verði vergar 2.6 terawattstundir“. Þarna er byggt á þeirra hugmyndum um ráðstöfun á orku umfram það sem nú er til orkufreks iðnaðar. — „Orku frá orkuverum, sem taka til starfa á tímabilinu 1979–1984, skal verðtryggja frá 1990 í samræmi við kostnaðinn fyrir nýja orku. Forgangsorka frá þessum orkuverum nemur 2.3 terawattstundum vergum.“ — Og takið nú eftir:

„Gamla ríkissamninga, sem renna út eftir 1990, verður reynt að endurskoða þar sem ríkið getur ekki einhliða breytt samningum. Takmarkið er að samræma grunnverð og vísitöluákvæði öðrum samningum. Náist ekki slíkir samningar mun ríkisstj. auka orkuskatt till að ná sama takmarki. Þeir samningar, sem nú fela í sér lægsta verð, ná til forgangsorku sem nemur vergum 10.8 terawattstundum.“ — Framleiðslan á Íslandi er tæpar 3 twst. nú. Hún er meira en þreföld framleiðslan sem lýtur að gömlum samningum um orkufrekan iðnað í Noregi og þessi endurskoðun á að taka til.

Og síðan segir: „Notkun á söluskatti kemur einnig til greina fyrir eigin orkuver iðnaðarins sem hafa í verga forgangsorku 10.5 terawattstundir. Flest þessara orkuvera munu fyrst verða byggð eftir árið 2000. Orkuverð frá öðrum en ríkisorkuverum, vergar 3.4 terawattstundir, hefur fram að þessu fylgt ríkisorkuverði. Það er þó skilyrði að þetta verð breytist í samræmi við ríkisorkuverð í framtíðinni.

Samningum og væntanlegu mati á orkuskatti fyrir langtímasamninga og fyrir eigin orkuframleiðslu skal lokið í síðasta lagi fyrir 1983. Spurningin um að aðlaga orkuskattinn verðlagsþróuninni, m.a. á orkufrekri framleiðslu, verður skoðuð. Ríkisstj. leggur áherslu á að sú verðlagsstefnumörkun verði valin að tekið verði hæfilegt tillit til efnahagslegrar undirstöðu, samkeppnishæfni og þróunarmöguleika iðnaðarins. Það uppkast, sem ríkisstj. hefur lagt fram í sambandi við ákvörðun á orkuverði til orkufreks iðnaðar, á ekki að koma í veg fyrir að ríkisstj. geti bæði fyrir og eftir 1983 gert breytingar á orkuverðinu í samræmi við markaða verðlags- eða tekjustefnu. Sama gildir um orkuverð til almenningsnota.“ — Tilvitnun lýkur í þessa samþykkt úr orkustefnu norsku ríkisstj., sem fram var lögð í mars s.l.

Þessi mál hafa verið mikið á dagskrá í Noregi frá því að þessi orkustefna var þar lögð fram og verið mikið um þau deilt og þá stefnu sem hér er fram sett. Iðnaðarnefnd Stórþingsins hefur um þessi mál fjallað og hefur komið fram ágreiningur og meirihlutaálit og minnihlutaálit, mismunandi eftir flokkum. Verkamannaflokkurinn myndar meiri hluta í umsögn sem fram hefur verið lögð, og er meiri hl. n. sammála ríkisstj. um stefnumörkunina í orkumálum og að æskilegt sé að aðlaga orkuverð til iðnaðar almennri verðþróun á orku með tilliti til þess, hve mikil hún hefur hækkað síðustu ár, og stefnt verði að því að tekið sé mið af framleiðslukostnaði í sambandi við nýja orku.

Ég er ekki að fjalla hér um eða rekja frekar umr. um þessi efni eða álitsgerðir fulltrúa einstakra flokka í iðnn. norska Stórþingsins, en ég taldi rétt að vekja athygli hv. þm. á þessari umræðu í Noregi og gögnum sem þar hafa komið fram, en þessi umr. er ekki enn til lykta leidd.

Ég ræddi áðan um samningana um álverið og járnblendiverksmiðjuna. Afstaða Alþb. til þeirra samninga réðst af mörgum þáttum, en flokkurinn greiddi atkv. á móti þeim í báðum tilvikum. Þessi afstaða byggðist m.a. á réttarstöðu í sambandi við samninginn um álverið í Straumsvík, en einnig á efnahagslegum forsendum — því orkuverði sem lagt var þarna til grundvallar og afkomuhorfum í sambandi við fyrirtækið þar sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga átti í hlut. Inn í þessi mál og viðhorf komu einnig umhverfismál í ríkum mæli, eins og mönnum er í fersku minni. Sem betur fer virðist hafa tekist að leysa þau mál á viðunandi hátt í sambandi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga að því er varðar hið ytra umhverfi, og starfsskilyrði hið innra eru sögð betri en gerist víðast hvar í hliðstæðum fyrirtækjum. Eru taldar líkur á að tækniþróun geri kleift að loka ofnum í slíkum verksmiðjum þannig að hægt sé að skapa mun skárri aðstæður á slíkum vinnustað en er með hina opnu ofna, eins og er í þessu fyrirtæki á Grundartanga.

En afstaða Alþb. til þessara mála var ekki síður spurningum um ráðstöfun orkunnar. Flokkurinn vakti í umr. um þessi mál m.a. athygli á húshitunarþættinum, alveg sérstaklega í sambandi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, og benti á það sem knýjandi verkefni, strax og olíuverðshækkunin fyrri kom fram haustið 1973, að beina fjármagni og kröftum að því að útrýma olíu úr húshitun landsmanna. Þar var mikið verkefni á ferðinni. Sem betur fer hefur verið mikið að gert á því sviði þó að meira hefði mátt gera ef menn hefðu haft fjármagn til þeirrar ráðstöfunar eins og raunverulega hefði þurft að vera. Ég held að það blandist engum hugur um að þarna voru á ferðinni arðsamar framkvæmdir, jafnt hitaveitur og raflínulagnir til að gera kleift að útrýma olíu úr húshitun landsmanna. Ef ekki hefði verið ráðist í járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga á sínum tíma hefði ótvírætt verið meira svigrúm en ella til að ná árangri í því að útrýma hinni innfluttu orku í húshitunarþættinum og e.t.v. einnig í fleiri þáttum.

Það er ástæða til að rifja það upp hér, að enn fara um 60 þús. tonn af olíu til upphitunar íbúðarhúsnæðis hérlendis á ári og miðað við áætlaða skiptingu í rafhitun og varmaveitu þarf um 300 gígawattstunda raforkuframleiðslu á ári til að útrýma olíunni úr húshitun okkar, en allnokkur byggðarlög eiga í vændum eða stefna að því að leysa þau mál með varmaveitum. Til viðbótar þessu er svo gert ráð fyrir viðbótarþörf vegna rafhitunar húsnæðis sem nemur 200 gígawattstundum á ári fram til 1990 eða samanlagt um 500 gígawattstundum á ári í viðbót innan 10 ára.

Í iðnrekstri í landinu notum við um 120 þús. tonn af olíu. Þar eru fiskimjölsverksmiðjurnar þurftarfrekastar með 84 þús. tonn á árinu 1978, svo að það kann að hafa verið einhver önnur tala 1979, en ég hef ekki upplýsingar um það. Samtals er olíunotkunin í iðnrekstri í landinu, og þá ekki meðtalið það sem fer til upphitunar iðnaðarhúsnæðis, 120 þús. tonn. Það er eflaust hægt að lækka þessa tölu þó nokkuð með orkusparnaðaraðgerðum, alveg sérstaklega á fiskimjölsverksmiðjum okkar, og þar er um afar brýnt verkefni að ræða til að bæta rekstrarstöðu þessara fyrirtækja og draga jafnframt úr mengun. Ef því verkefni væri lokið - það er talið að hægt sé að lækka þarna um þriðjung orkunotkun í fiskimjölsverksmiðjunum með tækni sem nú hefur sannað gildi sitt — eru um 90 þús. tonn notuð í iðnaði okkar miðað við núverandi fyrirtæki. Til þess að útrýma þessu með raforku svarar það til um 900 gígawattstunda. En ég er ekki með því að segja að það sé fýsilegt verkefni í öllum tilvikum. Það er eftir að meta. Sumt af þessum markaði er vissulega þess eðlis að hann er erfiður sem sölumarkaður fyrir raforku, einkum vegna stutts og ójafns nýtingartíma, eins og gerist í fiskimjölsverksmiðjum okkar alveg sérstaklega. En það er vert að gefa gaum að graskögglaverksmiðjum, sem notuðu 3000 tonn af olíu á árinu 1978. Þar eru fyrirtæki sem þyrfti að einbeita sér að að nýti innlenda orku. Þau eru starfrækt þegar sannanlega er afgangsorka til reiðu í raforkukerfi okkar að sumarlagi.

Undanfarin ár og allra næstu ár eru tímabil þar sem unnið er að að útrýma innfluttri orku í sambandi við húshitun, og það sér sem betur fer fyrir endann á þessu verkefni í aðalatriðum. Þegar þessu verkefni verður lokið, væntanlega sem fyrst, ég nefni þrjú ár, kannske í hæsta lagi 5 ár, þá ætti að skapast og hlýtur að skapast aukið svigrúm til fjárfestingar á öðrum sviðum, og þá er eðlilegt að menn horfi til iðnaðar og þ. á m. til orkufreks iðnaðar. Ég tel mjög eðlilegt að farið sé yfir þetta svið í heild sinni, þá kosti sem gefast kunna á sviði orkufreks iðnaðar, og verði leitað eftir viðráðanlegum og álitlegum kostum sem falli með skynsamlegum hætti að íslenskum þjóðarbúskap út frá efnahagslegum forsendum og jafnframt byggðarlegum forsendum. Að þessu verkefni hefur verið unnið, að vísu kvartað undan því af hv. flm. þessarar till., að það hafi ekki verið nógu mikið látið bera á því. Það er kannske vert að hafa það í huga í sambandi við fleiri mál, sem eru til meðferðar á vegum iðnrn., að menn vilja meira um hlutina heyra. En að þessu hefur verið unnið að undanförnu eins og ítrekað hefur komið fram opinberlega og í fjölmiðlum og á þingum þar sem ég hef greint frá ýmsum þáttum þessara mála á síðustu mánuðum.

Það er gengið í þetta verk út frá þeirri forsendu, að um íslenskt forræði og forustu sé að ræða varðandi atvinnuuppbyggingu á þessu sviði, en ekki hugsað til útsölu á orkulindum okkar til erlendra fyrirtækja. Því er það að við hljótum að kosta kapps um að afla sem víðtækastrar þekkingar á þessu sviði á vegum íslenskra stjórnvalda og afla þeirrar þekkingar frá öllum þeim aðilum innanlands sem geta haft til mála að leggja og geta mælt af reynslu á þessu sviði, og hefur iðnrn. ekki dregið neinar markalínur í sambandi við það, heldur leitað út fyrir veggi sína til að fá fram þekkingu og viðhorf í sambandi við þessi efni frá aðilum hér innanlands og stofnunum sem um þessi mál hafa fjallað og eiga að fjalla, eins og t.d. Iðntæknistofnun Íslands, en ekki takmarkað við hana. Ég nefni í þessu sambandi, af því að ég talaði um tækniþekkingu og reynslu sem þeir, sem starfa við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, safna og hafa áhuga á að safna með tilliti til hugsanlegrar frekari þróunar orkufreks iðnaðar í landinu, að við hlustum að sjálfsögðu á það sem slíkir aðilar telja sig hafa til mála að leggja í þessu sambandi. Erlendis frá þurfum við ekkert síður að leita upplýsinga og reynslu um þróunarmöguleika á þessu sviði.

Þetta er kannske ekki verkefni af því tagi, að það sé spurningin um vikur eða mánuði hvenær menn eru með marktækar niðurstöður, en ég hef getið þess hér, að iðnrn. hefur áhuga á að geta lagt fram upplýsingar um þessi efni og ábendingar um þessi efni áður en mjög langur tími líður. Hér er ekki vettvangur til að rekja stöðu þessara athugana. Mun gefast tækifæri til þess síðar og þá væntanlega í tengslum við þá orkustefnumótum sem ég gat um að unnið er að og kynnt verður á Alþingi áður en punkturinn verður settur aftan við vinnu að því máli.

Það má víkja örfáum orðum að iðnaðarkostum, af því að menn eru afskaplega mikið að spyrja um iðnaðarkosti og það heyrist býsna hávært ákall um ál og járnblendi. Það er kannske ósköp eðlilegt, vegna þess að við erum með fyrirtæki af því tagi í landinu, og iðnrn. hefur út af fyrir sig ekki verið að útiloka slíka kosti, að á þá sé litið. En það er ekki sérstaklega frjótt hugarfar að mæna eingöngu á það sem fyrir er. Þarna þarf að líta til margra átta. Það er oft notað orðalagið að hafa ekki öll egg í sömu körfu, og það á auðvitað alveg sérstaklega við, þegar hugsað er til uppbyggingar íslenskra fyrirtækja á þessu sviði, að gæta fjölbreytni, að hætta sem minnstu til í sambandi við þennan atvinnurekstur sem annan og leita þar skynsamlegra ákvarðana með dreifingu áhættu og forðast einokunaraðila, sem vissulega eru fyrirferðamiklir í orkufrekum iðnaði, einnig á markaði, sem honum tengist í heiminum, og þá ekki síst í áliðnaði, sem er einn af þeim þáttum sem gjalda þarf vissan varhug við þegar rætt er um slíkan framleiðslukost. Við höfum sannar orðið varir við sveiflur í framleiðslu af þessu tagi, og við höfum því miður orðið vitni að því, að þar hefur verið að síga í öldudalinn með markað fyrir það fyrirtæki sem íslenska tíkið á meiri hl. að, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, þó að það sé kannske ekki ástæða til að vera sérstaklega kvíðinn yfir því, að sú þróun standi lengi.

Ég er ekki þar með að segja að orkufrekur iðnaður sé einn um sveiflur. Sveiflur eru í flestum atvinnurekstri og þar skiptir því fjölbreytnin allverulegu máli. En við hljótum alveg sérstaklega að athuga þá kosti sem tengjast úrvinnslu á íslenskum hráefnum í sambandi við nýtingu á auðlindum okkar. Við slíkar aðstæður, ef slíkir kostir liggja fyrir, er þess að vænta, að arðurinn af slíkri framleiðslu verði meiri en ef aðföngin eru flutt inn til landsins að verulegu leyti, þó að það út af fyrir sig þurfi ekki að vera útilokað. Og þarna hefur verið á ýmislegt bent.

Ég þarf ekki annað en nefna atriði eins og magnesíumvinnslu. Hún hefur verið til umræðu sem eitt þrep í víðtækri sjóefnavinnslu í landinu. Ég er ekki þar með að segja að það sé neitt einfalt mál að koma slíkri vinnslu á fót, en markaðsþróun á þessu sviði hefur verið hagstæð og virðist vera hagstæð framundan, en ýmis atriði eru þess eðlis að þau hrekja kannske frá. — Ein afurð sem til fellur við þessa vinnslu er klór, sem er efni sem er ekki auðvelt í meðförum.

Iðnaðarkostur þar sem hægt væri að fá aðföngin úr íslensku vatni, er þungt vatn. Það er mál sem full ástæða er til að litið sé á áfram þó að það tengist þróun m.a. á kjarnorkuverum í útlöndum sem nota þungt vatn í sambandi við framleiðslu sína, í sambandi við rekstur sinn. — Títanvinnsla úr íslensku bergi hefur verið nefnd sem einn þróunarkostur. Þetta eru dæmi sem ég nefni hér.

Það hefur einnig verið nefndur iðnaðarkostur, sem að vísu byggir ekki á innlendu hráefni, en þar sem aðföng eru ekki einokuð og eru mjög aðgengileg að því leyti, en það er kísilmálmvinnslan, sem ekki fylgir þróun í stáliðnaði eins og járnblendið, heldur þróun í áliðnaði, þar sem um 3/4 af heimsframleiðslunni á þessu sviði eru notaðir til íblöndunar í ál, en afgangurinn tengist þróun í svokölluðum sílikoniðnaði sem er í örum vexti, og er sílikon notað til margvíslegrar húðunar, þ. á m. í spegla sem hugmyndir eru um og reyndar framleiðsla er hafin á í sambandi við nýtingu á sólarorku.

Þetta nefni ég aðeins sem dæmi um að mönnum ber að líta til fleiri átta en þess iðnrekstrar sem fyrir hendi er af þessu tagi hér í landinu.

Herra forseti. Ég fer að stytta mál mitt, en ég tel þó nauðsynlegt að víkja hér að örfáum atriðum áður en ég læt því lokið.

Ég tel vissulega mikla möguleika á því að hagnýta orkulindir lands okkar, vatnsafl og jarðvarma, til verulegrar eflingar íslensku atvinnulífi í framtíðinni, en þetta viðfangsefni krefst frumkvæðis af hálfu okkar Íslendinga, m.a. öflugrar rannsóknastarfsemi á auðlindum okkar, jafnt á orkulindum sem hráefnaauðlindum. Sem dæmi um svið sem hefur verið vanrækt í sambandi við rannsóknir á orkulindunum, og svið, sem varðar Alþingi og ráðstöfun fjármagns héðan, eru háhitasvæði okkar. Það hafa legið fyrir óskir um margra ára skeið um að veita fjármagn til þess að fara í hægfara rannsóknir á háhitasvæðum okkar, m.a. með tilliti til hugsanlegra iðnaðarnota. Og menn skyldu vera minnugir þeirra áfalla sem þjóðin hefur orðið fyrir við Kröfluvirkjun og vegna þess, hvernig mál þróuðust þar. Það bendir til þess, að það sé full þörf á því að afla upplýsinga um þessar auðlindir okkar með sæmilegum fyrirvara og þjóðin ráðstafi til þess nokkru fjármagni. Þá er líklegra að unnt sé að afstýra áföllum. (HBI: Hver er afstaða ráðh. að þessu sinni um Kröfluvirkjun?)

Það er margt sem getur skapað nýja og e.t.v. óvænta möguleika í framtíðinni einmitt á þessu sviði, í orkunýtnum iðnaði, en í þessu sambandi þurfum við að hafa ríkulega í huga sjálfstæði og öryggi þjóðar okkar, ekki aðeins í efnahagsmálum almennt, heldur í orkumálunum, á orkumálasviðinu. Og því er einn þáttur orkufreks iðnaðar, sem við eigum að hugsa til og fylgjast náið með hvað snertir þróun og framleiðslumöguleika, framleiðsla innlends eldsneytis. Það er mikið á döfinni í ríkjum víða um heim, í iðnríkjunum fyrst og fremst, að þróa úrvinnslu á eldsneyti úr lífrænum auðlindum, kolum og mó og öðrum tífrænum auðlindum. En möguleiki okkar Íslendinga á þessu sviði gæti legið í því að nýta okkur fyrirliggjandi auðlindir í landinu, vatnsaflið og sumir segja jafnvel hugsanlega jarðhitann, með nýrri tækni til þess að framleiða hér innlent eldsneyti, og vissulega væri það gífurlegt stórmál og hagsmunamál fyrir okkur ef það tækist. Það sýnir sig, að það vantar þó nokkuð enn á hagkvæmni í sambandi við slíka framleiðslu, en það bil er að minnka og það getur brúast innan fárra ára ef sú þróun heldur áfram í sambandi við verð á olíu sem verið hefur í gangi um skeið og flestir spá að haldi áfram. Og þó að slík framleiðsla gæfi ekki miklar tekjur í aðra hönd og væri ekki samkeppnisfær á alþjóðlegan mælikvarða gæti samt verið réttlætanlegt að leggja út í hana að vissu marki vegna öryggissjónarmiða. — Fyrir utan þetta, að útrýma hinni innfluttu orku eftir því sem föng eru á, er svo möguleikinn, sem við erum að ræða hér um, að afla gjaldeyris með framleiðsluiðnaði á þessu sviði.

Það er eðlilegt að menn spyrji í þessu samhengi hvenær við höfum orku til ráðstöfunar í umtalsverðum mæli fyrir viðbót í orkufrekum iðnaði, — verulega viðbót. Hvað snertir næstu ár eru það mjög takmarkaðir möguleikar. Menn vilja kannske ekki útiloka að það geti verið í tengslum við Hrauneyjafossvirkjun í einhverjum óverulegum mæli, en það er ekki stórt, ef nokkuð, og það er fyrst hugsanlegt í einhverjum verulegum mæli í tengslum við næstu stórvirkjun eftir Hrauneyjafossvirkjun, — þá stórvirkjun sem taka þarf ákvörðun um á næstu misserum og komið gæti í gagnið á seinni hluta komandi áratugs — eða eigum við að segja nýbyrjaðs áratugs. Við höfum því nokkurn tíma til stefnu til að átta okkur í þessum málum og fara yfir vænlega kosti á þessu sviði. En ég er ekki þar með að segja að við eigum að halda að okkur höndum. Það er engu að síður eðlilegt að að þessum málum sé unnið þó að málin standi ekki þannig að við þurfum að taka ákvarðanir um framleiðslukosti í dag eða á morgun.

En það er fleira en iðnaðarkostirnir sjálfir sem máli skiptir og athuga þarf og undirbúa. Inn í þá mynd kemur staðarval í sambandi við slíkan iðnrekstur, umhverfi slíks iðnrekstrar. Félagslegar aðstæður í slíkum iðnrekstri tengjast, og það er úrlausnarefni, sem kanna þarf með góðum fyrirvara. Að því er vikið í fyrirliggjandi þáltill. Þess vegna tel ég rétt að greina hér frá því, hvað iðnrn. hefur fyrirhugað á því sviði og raunar ákveðið.

Um þessi efni hefur verið rætt nokkuð lengi milli aðila sem láta sig þessi mál varða, alveg sérstaklega Náttúruverndarráðs og iðnrn. sem hafa haft um átta ára skeið formlegt samstarf með sér til þess að fara yfir þau mál sem þeim ber að hyggja að í sameiningu, og samstarfsnefnd þessara aðila gerði tillögur fyrir allnokkru um hvernig æskilegt sé að standa að þessum málum, sem ég nefndi hér. Með hliðsjón af þeim tillögum var ákveðið fyrir ekki löngu að setja á fót vinnuhóp til að vinna að þessum verkefnum, sem tengjast staðarvali fyrir meiri háttar iðnrekstur í landinu. Um það segir m.a. í fréttatilkynningu frá iðnrn., með leyfi hæstv. forseta:

„Nýlega hefur iðnrn. skipað nefnd til að kanna hvar helst komi til álita að staðsetja meiri háttar iðnað í tengslum við nýtingu á orku- og hráefnalindum landsins. Er nefndinni ætlað að beita sér fyrir athugunum á slíkum stöðum og taka tillit til líklegra áhrifa sem slík fyrirtæki hefðu á atvinnulega og efnahagslega þróun, samfélag, náttúru og umhverfi. Er nefndinni falið að greina í hverju slík áhrif séu helst fólgin og bera saman viðkomandi staði með hliðsjón af því.

Varðandi áfangaskiptingu á störfum nefndarinnar og um æskileg samráð við gerð þessarar könnunar er vísað til grg. frá samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs. Haga á könnun þessari þannig, að hún geti nýst við ákvarðanir um hugsanlega iðnaðarkosti og orkuver sem eru til umr. Nefndinni er ætlað að samræma störf þeirra stofnana sem málið varðar og tryggja að staðarval fyrir meiri háttar iðnrekstur sé sem best undirbúið. Jafnframt verði unnið að þessum málum í eðlilegu samráði við sveitarfélög og samtök þeirra. Gert er ráð fyrir að nefndin skili áliti til rn. í áföngum.“

Þessi nefnd, sem er að búa sig til starfa, hefur á að skipa, fyrir utan formann tilnefndan af iðnrn., mönnum tilnefndum af Orkustofnun, heilbrrn., en sem kunnugt er veitir heilbrrn. starfsleyfi fyrir allan meiri háttar iðnrekstur og þarf því að fylgjast náið með þessum málum, og þar er fulltrúi tilnefndur af byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins svo og fulltrúi frá Náttúruverndarráði. Þar sem umfangsmikið verkefni er framundan á þessu sviði er gert ráð fyrir að þessi nefnd geti ráðið sér verkefnisstjóra til að standa fyrir þessu starfi þannig að því miði á eðlilegan hátt.

Sem kunnugt er eru á döfinni og hafa verið til athugunar um nokkurt skeið nokkur miðlungsstór iðnaðarverkefni, sem að vísu nýta ekki orku í stórum stíl í samanburði við það sem gerist í hinum eiginlega orkufreka iðnaði, en eru þó verulegir iðnaðarkostir ef hagkvæmir reynast. Þarna eru framleiðslukostir sem ég þarf ekki að fjalla mikið um hér, eins og saltverksmiðja og steinullarverksmiðja, svo að dæmi séu tekin. Niðurstaða liggur ekki enn fyrir þrátt fyrir að að athugunum hefur verið unnið ötullega að undanförnu, en ég vænti þess að niðurstöður fáist fyrir lok þessa árs varðandi þessa iðnaðarkosti og fleiri. Þær niðurstöður geta alveg eins orðið neikvæðar eins og jákvæðar, það vil ég taka fram, en þarna er á ferðinni fjárfesting á bilinu 7–12 milljarðar, mismunandi eftir einstökum kostum.

Svo mikilvægt sem það er að átta sig á nýtingarkostum orkulinda okkar er full ástæða til að vara við einsýni og vara við röngum áherslum í þessum efnum. Við verðum að líta á atvinnulíf okkar í heild og þróunarkosti innan þess, jafnt í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Við þurfum við skoðun þessara mála að hafa allt atvinnusviðið undir og við verðum að gæta þess að mínu mati að vekja ekki falskar vonir, síst meðal alþýðu þessa lands, um einhverjar hókus-pókus aðferðir sem tiltækar geti verið til að leysa úr tímabundnum þrengingum í atvinnulífi okkar, — þrengingum sem margir telja að nú ríki og vissulega eru til á ýmsum sviðum, en eru ekki alvarlegra eðlis en margt af því sem við höfum komist yfir með góðu móti í fortíðinni.

Ég verð að segja það, að mér þykir nokkuð einhliða áherslur vera að finna í því máli, sem Alþfl. ber hér fram, og þeirri grg., sem fylgir, og bera vott um því miður svipaðan málflutning og þegar þessi mál hafa verið á döfinni fyrr á árum, — málflutning sem kannske gekk lengst og frægastur varð þegar sett var fram sem hugmynd, að því er virtist í alvöru, að reisa á ekki ýkjalöngum tíma 20 álbræðslur á Íslandi. Við eigum vissulega mikla möguleika í okkar hefðbundnu atvinnuvegum og margir af þeim möguleikum eru skjótunnari, gefa skjótfengnari lausn í sambandi við atvinnuvandamálið í landinu en uppbygging í orkufrekum iðnaði, þó skynsamleg og æskileg geti verið að vissu marki horft til lengri tíma, og slíka kosti er að finna á iðnaðarsviðinu í almennum iðnaði, ekki síst ef fjármagni, hugviti og góðu skipulagi er þar beitt og aðstæður skapaðar til eðlilegrar þróunar í iðnaði okkar, eins og stjórnvöld hafa unnið að á undanförnum misserum.

Inn í þessa mynd hins ekki fjármagnsfreka iðnaðar kemur t.d. hinn svonefndi rafiðnaður að meðtöldum rafeindaiðnaði, en við þá iðngrein og þróun þess iðnaðar eru tengdar hugmyndir sem byltingarkenndar verða að teljast og varða ekki bara iðnrekstur, heldur einnig aðra atvinnustarfsemi og geta vissulega breytt viðhorfum í atvinnurekstri mjög verulega á næstu árum, og svo ekki sé talað um áratugi. Það er fyllsta ástæða til að fylgjast með þeirri þróun með tilliti til þess, að hún getur leitt af sér mjög verulega framleiðniaukningu og fækkun starfa eða við skulum vona styttri vinnutíma öðru fremur og við þurfum einnig að huga að framleiðslukostum hér innanlands á þessu sviði og að því er nú unnið ötullega, að ég hygg, á vegum starfshóps á vegum iðnrn.

En undir lokin vildi ég nefna hér alveg sérstaklega þörfina á því, að þegar við erum að fjalla um atvinnuþróun og atvinnustefnu í landi okkar hugsum við til þess að móta jafnhliða svokallaða auðlindastefnu, — stefnu um skynsamlega ráðstöfun og meðferð auðlinda okkar til hagnýtingar sem sé reist á varanlegum grunni með eðlilegri verndun þessara auðlinda. Við þurfum að leggja mjög aukið kapp á það á næstu árum að afla okkur þekkingar á þessum auðlindum, sem hægt er að reisa á velferðarþjóðfélag til frambúðar á Íslandi, og við getum hugsað til þess með glöðu bragði að kostir þessara auðlinda okkar eru miklir og taka á marga lund fram því sem gerist með öðrum þjóðum þótt ríkar teljist. Einkenni íslenskra auðlinda, lífrænna auðlinda og orkulinda, eru sem betur fer að þær endurnýjast þó að þær séu takmörkunum háðar og það séu takmörk sem við þurfum að gæta. Þar reynir á hófsemi, þar reynir á framsýni, þar reynir á skynsamlega stjórnun.

Herra forseti. Um efni þáltill. hef ég þegar tjáð mig. Ég tel vissulega eðlilegt að Alþ. láti sig þessi mál skipta, eins og aðra þætti er varða atvinnulíf og atvinnuuppbyggingu í landinu, og því rn., sem fer með framkvæmdavaldið í þessum málaflokki, ber að sjálfsögðu að stuðla að því, að eðlileg athugun fari fram um þessi mál og upplýsingar komi fram um það gagnvart þingi og þjóð eftir því sem málum þokar fram. Og ég tel það í fyllsta mála eðlilegt, að þegar slíkar upplýsingar koma fram í áföngum sé um það fjallað í þingflokkum og í nefndum þingsins, sem láta sig viðkomandi mál varða, og alveg sérstaklega í iðnaðarnefndum þingsins. Ég held að það ætti að falla að hugmyndum sem Alþfl. hefur nú lagt býsna ríka áherslu á, að fastanefndir þingsins hugi að þessum málum og fleiri málum en bara koma í gegnum málflutning einstakra þm. eða ríkisstj. hér á Alþingi. Ég vænti vissulega góðrar samvinnu við nefndir þingsins sem kunna að taka á þessum málum í samvinnu við iðnrn.

Það er mjög eðlilegt að við hyggjumst sækja fram til bættra lífskjara í þessu landi og beitum þar skynsamlegri hagnýtingu auðtinda okkar en jafnhliða þurfum við að fara þar að með gát í býsna hverfulum heimi. Sem betur fer býr þessi þjóð betur að orku en flestar grannþjóðir miðað við fólksfjöldann. Þann auð ber okkur að vernda og hagnýta og gæta þess, að sú hagnýting verði til að styrkja efnahagslegt sjálfstæði þjóðar okkar. Að því miðar stefna núv. ríkisstj., og um undirbúning að meðferð þessara mála hefur ríkt góð samstaða, eins og um flest meginmál frá myndun núv. ríkisstj.

Herra forseti. Um þetta mál og atvinnuþróun í landinu mætti enn lengi ræða, en ég tæt þetta nægja í dag. Tækifæri munu eflaust gefast síðar til að bæta hér ýmsu við.