21.05.1981
Sameinað þing: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4773 í B-deild Alþingistíðinda. (5022)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá utanrmn. um till. til þál. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík. Þáltill. þessi var rædd á nokkrum fundum utanrmn. og fékk nefndin upplýsingar frá ýmsum aðilum auk þess sem utanrrh. gerði nefndinni grein fyrir stöðu mála. Þá var og á fundum nefndarinnar deildarstjóri varnarmáladeildar, Helgi Ágústsson, svo og komu fram upplýsingar, munnlegar og skriflegar, frá olíufélögunum: Olíufélaginu hf., Olíuverslun Íslands hf. og Olíufélaginu Skeljungi hf.

Að loknum umr. í utanrmn. urðu nm. sammála um að mæla með samþykkt till. með breytingu sem flutt er till. um á þskj. 948. Brtt. á þskj. 948 er svohljóðandi:

„1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela utanrrh. að vinna að því, að framkvæmdum til lausnar á vandamálum, er skapast hafa fyrir byggðarlögin í Keflavík og Njarðvík vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins, verði hraðað svo sem kostur er.

2. Fyrirsögnin orðist svo: Till. til þál um lausn á vandamálum vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins.“ Eins og ég gat um áðan, þá urðu allir nm. sammála um þessar tillögur, en Ólafur Ragnar Grímsson ritaði undir með fyrirvara sem ég geri ráð fyrir að hann geri grein fyrir hér á eftir.

Efnislega er hér ekki um að ræða breytingu á þeirri till. til þál. sem fyrr var flutt hér á þingi af þeim hv. þm. Ólafi Björnssyni, Karli Steinari Guðnasyni, Matthíasi Á Mathiesen, Ólafi G. Einarssyni og Salome Þorkelsdóttur. Mönnum þótti hins vegar rétt að það kæmi fram, að utanrrh. og þar til bær íslensk yfirvöld hefðu frjálsar hendur um tilhögun framkvæmdanna, hvernig unnt væri að koma þeim á sem allra fyrst með tilvísun til þeirrar nauðsynjar sem á því er að úrbætur fáist annars vegar fyrir byggðarlögin, sem hlut eiga að máli, Njarðvík og Keflavík, og hins vegar vegna þeirra þarfa sem varnarliðið og varnarstarfsemin á Keflavíkurflugvelli hefur til þess að hafa öruggar geymslur fyrir eldsneyti það sem nauðsynlegt er vegna starfsemi varnarliðsins.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjalla frekar nema að gefnu tilefni um þessa till. eins og hún liggur fyrir, en vænti þess, að hún verði samþykkt.