21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4783 í B-deild Alþingistíðinda. (5029)

336. mál, langtímaáætlun um vegagerð

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hlýt að fagna þessari niðurstöðu fjvn. sem áfanga á réttri leið. Það sýnir sig að barátta okkar sjálfstæðismanna og málflutningur og tillögugerð hefur borið hér ávöxt þó hann sé að vísu megurri en ég hafði gert mér vonir um. En lengra verður ekki náð að þessu sinni og ég hlýt að fagna hverjum áfanga á réttri leið. Breytingin er veruleg. Það geta menn séð af tillögugerðinni. Hún gengur verulega í rétta átt með auknu fjármagni, með styttingu framkvæmdatímabils og eins eru ýmis meginatriði tekin þar upp sem allir geta sameinast um og vissulega voru í tillögugerð hæstv. samgrh. í hans stefnumótunartillögu hér á hinu háa Alþingi.

Ég greiði þess vegna þessari till. atkvæði mitt sem áfanga, en að sjálfsögðu mun baráttunni haldið áfram fyrir miklu stærra framtaki og átaki í þessum efnum en þó þegar hefur áunnist með þessari niðurstöðu.