21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4786 í B-deild Alþingistíðinda. (5034)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það var raunar fyrst og fremst vegna þess að hér kvaddi sér hljóðs hv. þm. Friðrik Sophusson um þingsköp að gefnu tilefni á hinum fyrra fundi Sþ. í dag. Þagnað leita ég líka efnis í þessa mjög svo stuttu aths. mína og hafði raunar óskað eftir því, að hv. þm. Matthías Bjarnason yrði viðstaddur, því erindi á ég við þá báða, hann, hv. þm. Matthías Bjarnason, og hæstv. forseta Sþ., Jón Helgason, ef forseti umbæri mig nú eitt andartak á meðan kallað er á hv. þm. Matthías Bjarnason, því ekki vil ég bera hann orðum í þessu sambandi fjarverandi. (Gripið fram í.) Það væri ólíkt Matthíasi Bjarnasyni og því trúi ég ekki, að hann sé neitt hræddur við að standa fyrir máli sínu.

Mér þykir leitt, herra forseti, að draga þessa stuttu aths. mína á langinn og get kannske byrjað á formálanum. Hann er þess efnis, að ég játa fúslega að til álita kemur hvort framíköll í ræður þm. séu æskilegur fundarmáti. Helst er ég þeirrar skoðunar, að hafa megi þau í hófi. Nú ber svo til að einnig getur að lesa í þingsköpum ákvæði um það, með hvaða hætti menn geri grein fyrir atkv. sínu. Það á að vera í stuttu máli, en ekki langri ræðu, og hef ég það mér til afsökunar fyrir að kalla fram í fyrir hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni er hann gerði grein fyrir atkv. sínu hér í atkvgr. við nafnakall, að mér þótti hann tala fulllengi. — Nú sé ég, að hv. þm. Matthías Bjarnason er genginn í salinn, og get þá beint máli mínu til hans a. m. k. í leiðinni.

Ég viðurkenni það, að ég kallaði e. t. v. of oft fram í fyrir hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni er hann flutti ræðu sem mér þótti vera, en hann kvaðst gera grein fyrir atkv. sínu. Þetta kemur til álita, og vil ég alls ekki liggja hv. þm. á hálsi fyrir það þótt honum rynni í skap. En svo er nú þetta eigi að síður og kem ég þar að þingsköpum og venjum hér í þinginu, að enda þótt þessi skapheiti og tíðum orðhvassi þm. sé nú þann veg tenntur og tungurættur og búinn að öðru leyti þannig til munns og máls, að vel henti í illvígum fundarhöldum vestur á landi, hvort heldur á Þingeyri eða Ísafirði, og hann hljóti nú að brúka þetta sama verkfæri til að tjá sig hér í sölum Alþingis, þá mun vera ætlast til þess, að hann geri það með dálítið öðrum hætti. Egill á Borg komst þannig að orði, ef ég man rétt: „Það ber ég út úr orðhofi mærðar timbur.“ Hv. þm. verður að gæta þess, þó að hann sé svo vel búinn til illvígrar orðræðu sem síður en svo hefði hneykslað mig, að út úr því hinu sama — ef ég má orða það svo — tannfjósi má hann ekki ausa meðþm. sína fúkyrðum, t. d. ekki kalla þá ræfla, ekki einu sinni háttvirta ræfla. Skap Matthíasar Bjarnasonar skil ég vel og lái honum ekki, það er honum í brjóst of lagið. Og ég hefði alls ekki gert aths. við þetta í raun og veru, talið mig hvorki meiri né minni ræfil fyrir það, ef hæstv. forseti hefði ekki skotið sér undan því þrátt fyrir beiðni að gera viðeigandi aths. úr ræðustól þótt um væri beðinn. Ég hef oft borið lof á hæstv. forseta, Jón Helgason, fyrir ljúfmennsku hans og prúðmennsku. En svo ljúfir mega menn ekki vera í forsetastóli þegar til kastanna kemur að þeir glati annaðhvort meðvitund sinni eða dáðinni til þess að stjórna fundum sæmilega.

Þessa aths. vildi ég gera nú og þakka fyrir orðin.