12.11.1980
Efri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

35. mál, álagning opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 65 24. júlí 1980.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt um var í ár í fyrsta skipti talið fram og lagt á eftir nýjum lögum um tekjuskatt og eignarskatt og nokkuð breyttum lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Breytingar samkv. þessum lögum höfðu áhrif á framtöl manna, en vegna þess, hversu síðbúin þessi lög voru, var framtalsgerðin einnig mjög síðbúin og þessar breytingar höfðu, ásamt þeirri aukavinnu sem fólst í endurmati atvinnurekstrarins, það í för með sér að framteljendur, einkum þeir sem stunda atvinnurekstur, urðu óvenjulega síðbúnir með framtöl sín. Við þetta bættist að starfsmenn skattkerfisins, sem vinna þurftu í fyrsta skipti eftir nýjum lagareglum og nýjum eyðublöðum, þurftu eðlilega nokkru rýmri tíma til að ljúka störfum sínum nú en endranær og breytt framkvæmd vélvinnslu hafði áhrif í sömu átt. Af öllum þessum ástæðum reyndist ekki unnt að ljúka álagningu fyrir það tímamark sem ákveðið er í 98. gr. tekjuskattslaga. Því var nauðsynlegt að setja brbl. sem heimiluðu nokkurt frávik frá almennum reglum við álagninguna nú í sumar.

Í 1. gr. frv. er almennur frestur til að ljúka álagningu framlengdur frá 30. júní til 31. ágúst og jafnframt heimilað að ljúka á mismunandi tíma álagningu á einstaka flokka gjaldenda innan sama umdæmis.

Álagningu á einstaklinga í Reykjavík, Reykjanesi og Norðurlandi eystra lauk fyrir 31. júlí, en álagningu á einstaklinga í öðrum skattumdæmum svo og álagningu á félög var lokið í ágústmánuði. Því miður reyndist óhjákvæmilegt af framkvæmdaástæðum að fresta álagningu á börn fram yfir hið almenna tímamark, sbr. 118. gr. tekjuskattslaga, og lauk henni 20. okt.

Ákvæði 2. og 3. gr. frv. fela í sér nauðsynlegar breytingar á innheimtureglum vegna þessarar frestunar á álagningu. Er þar kveðið á um að þeir gjaldendur, sem ekki fengu álagningu fyrir 1. ágúst, skuli greiða sömu fjárhæð í ágústmánuði og nam mánaðarlegri fyrirframgreiðslu á fyrri hluta ársins, en að sá munur, er reyndist á 1/5 hluta álagningar og þessari greiðslu, skyldi lagður við eða dreginn frá septembergreiðslu sama aðila. Þannig er reynt, eftir því sem verða má, að jafna greiðsluskyldu aðila þrátt fyrir að álagningu á þá lyki á mismunandi tímum.

Frv. þetta varðar einungis álagningu og innheimtu opinberra gjalda á árinu 1980 og er því ekki ætlað að hafa gildi til frambúðar, enda ættu þeir byrjunarörðugleikar, er gerðu brbl. þessi nauðsynleg, að vera yfirstignir við álagningu á næsta ári.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.