21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4814 í B-deild Alþingistíðinda. (5073)

327. mál, umbætur á opinberum byggingum í þágu fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breyt. á l. um kostnað við opinberar byggingar, sem gerir ráð fyrir að sá kostnaður verði greiddur af ríki og sveitarfélögum í sömu hlutföllum og stofnkostnaður, enda sé um að ræða umbætur á viðkomandi húsnæði í þágu fatlaðra.

Frv. þetta hefur verið samið af allfjölmennri nefnd sem ég fékk til ráðuneytis um málið. Þar varð samstaða um þetta mál svo og í hv. Nd. Frv. snertir lög um heilbrigðisþjónustu, grunnskóla, dagvistarheimili, félagsheimili og íþróttalög og skýrir sig í rauninni sjálft vegna þess að efnisatriðið er ósköp einfaldlega eitt og hið sama, að kostnaður við að gera opinberar byggingar aðgengilegar fötluðu fólki greiðist af ríki og sveitarfélögum í sömu hlutföllum og stofnkostnaður samkvæmt þeim lögum sem hér er lagt til að breytt verði.

Herra forseti. Ég fer þess á leit að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. félmn., og þætti vænt um ef hún gæti tekið málið jafnskjótum tökum og gert var í Nd. þó málið sé seint fram komið.