21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4818 í B-deild Alþingistíðinda. (5081)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það var hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni líkt að leggja andmæli mín gegn þeirri breytingu, sem gerð var á orðalagi frv. í félmn. Ed., út á hinn besta veg. Það er honum líkt. En þó að hann vilji gjarnan túlka sjónarmið meðdeildarmanna sinna og meðþingmanna á þá lund að best hæfi hans ljúfa og græskulausa geði, þá skaust honum nú þarna. Mér var það mikil alvara að mæla gegn þessari breytingu sem gerð var á fyrirsögn frv. og heiti þessu víðar í frv. sjálfu vegna þess að ég taldi að hér væri rangt að farið, ekki vegna þess að það geti ekki staðist eins og hv. þm. sagði, að réttmætt sé að tala um landkaup eins og landakaup, heldur af hinu, að það lá í augum uppi að hin skírlífa nefnd, hv. félmn. þessarar mjög svo virðulegu deildar, gerði þessa breytingu hvorki af tilfinningu fyrir íslensku máli né af tilraun til þess að gera ákvæði þessa lagafrv. ljósari, heldur af furðulegum ótta um að menn — kjósendur, Íslendingar í ákveðnu byggðarlagi sem nýlega hafði verið orðað við lítils háttar framleiðslu og smávegis sölu á íslensku brennivíni heimatilbúnu, — að fólk í þessu byggðarlagi kynni að vera þannig gáfum gætt að það misskildi efni frv. og færi e. t. v. að leita í þennan sjóð um styrk til kaupa á heimabrugguðu áfengi.

Að mínu viti er þessi ályktun hv. félmn. þess háttar að jaðrar við hreinan dónaskap. Ég var uggandi um að fólk úti um land allt mundi fara að segja þessa sögu um ályktun hv. félmn. Ed. eins og hvern annan Hafnarfjarðarbrandara og þá um vitsmuni nefndarmanna.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar, sem jafnan vandar mjög undirbúning málsins, hann hringdi, eins og hann orðaði það, leitaði ráða, eins og hann orðaði það, hjá hinum fremsta núlifandi orðmyndunarfræðingi. Lengra gat hann ekki farið. Að vísu veit ég ekki hvernig hann býr til þessa einkunn sem hann gefur Halldóri Halldórssyni. En það er ekki hægt að ætlast til meira af hv. frsm., hv. ræðumanni, en að hann leiti til þess sem hann telur fremstan núlifandi orðmyndunarfræðing á Íslandi. Að vísu var einn tæknilegur möguleiki, það fer eftir trúarlegri afstöðu: hann hefði náttúrlega getað farið á miðilsfund og leitað til hinna fremstu framliðinna orðmyndunarfræðinga líka. Þá hefði þetta verið neglt í bak og fyrir.

Mér er gjörsamlega sama um það þótt hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sé þeirrar skoðunar, hvað sem hann hefur fyrir s~r í því, að Halldór Halldórsson sé einhver hæstiréttur í íslenskri orðmyndunarfræði. Það má vel vera að hann sé það. En það kemur hvergi fram í þessari undarlegu álitsgerð, skrifaðri á löggiltan skjalapappír að því er virðist, — það er kopía sem hér er lesin, — hver skoðun þessa núlifandi manns, eða sem var lifandi a. m. k. 20. maí, er á því, hvort orðið sé betra eða réttara: landkaupasjóður eða landakaupasjóður. En hinu mun Halldór Halldórsson ekki hnekkja, sem vitað er og vitað hefur verið lengi, og þess munu einnig finnast dæmi í Njálu, m. a. í orðaskiptum Hrúts og Gunnars — ekki Thoroddsens, heldur frá Hlíðarenda, Hámundarsonar, að það er eðli tungunnar í samsettum orðum, til þess að hún geti hljómað eðlilega eins og gildi hennar er og eðli, að sérhljóði komi á milli tveggja samhljóða í samsetningu orða. Öðruvísi getur ástkæra ylhýra málið ekki hljómað.

Ég vil ekki deila um það út af fyrir sig, hvort sé réttara. Eðlilegra er í vitund þeirra manna, sem ekki eru óskaplega óttaslegnir um að Garðbæingar fari að sækja um framlag úr þessum sjóði sér til huggunar í annarlegum tilgangi, — það er eðlilegra samkvæmt eðli þessarar tungu og tilhneigingu hennar til þess að hljóma að fá sérhljóða á milli sem menn megi lengja. Það er eðlilegra að kalla þennan sjóð landakaupasjóð.

Með tilliti til þess, að hv. frsm. hafði, eins og að líkum lætur, af því honum er eðlilegt að undirbúa mál vel, ekki tækifæri til þess að leita til miklu fleiri fræðimanna en hann gerði, þá vil ég ekki lá honum slíkur skipulagshyggjumaður sem hann er, þótt hann léti sitja við að leita í h-unum og b-unum, að Halldórunum og tveimur Blöndulum. Þó vil ég nú staðhæfa það, að á sama hátt og félmn. þessarar hv. og vandvirku deildar hefur oft unnið ágæt störf undir handleiðslu hins þingvana og sanngjarna manns og smekkvísa, Þorvalds Garðars Kristjánssonar, þá gerði hún hróplega skyssu þegar hún var að breyta fyrirsögn frv. og heiti í því í upphafi. Málið snýst ekki lengur um efnisatriði frv., heldur um málfar og smekk á íslenskri tungu. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði, Halldór Blöndal, hv. þm. í Nd., er bæði hagmæltur og smekkmaður á mál, en ekkert framúrskarandi. Ég leyfi mér að staðhæfa að það þyrfti að leggja það í dóm nokkurra Halldóra og fáeinna óskeikulla Blöndala, hvor sé meiri smekkmaður á mál, Sverrir Hermannsson, hv. þm. og forseti Nd., eða Halldór Blöndal. (Gripið fram í.) Ég vil ekki leggja dóm á þetta. Ég vil aðeins vitna til forseta Nd. sem að mínu viti er smekkmaður á mál, jafnvel framúrskarandi ef við lítum yfir þingmannahópinn. Þarna rekast á sjónarmið. En með tilliti til þess, að ég er harla vondaufur um að ég fái sannfært jafnstaðfasta~ mann í skoðunum sínum og hv. þm. Þorvald Garðar Kristjánsson um að félmn. Ed. hafi haft rangt fyrir sér í þessu, vegna þess að hér er ekki lengur um að ræða efnisatriði þessa frv., heldur um málsmekk, þá legg ég til að máli þessu verði nú vísað til menntmn. fyrst svo er mikið í húfi að viðhalda hinni undarlegu breytingu sem á frv. var gerð hér í deildinni þrátt fyrir andmæli mín. Fyrst hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson telur svo mikið í húfi að viðhalda þessari breytingu, þá legg ég nú endilega til að hv. menntmn. samkvæmt till. minni leiti til enn fleiri núlifandi — svo ég noti orðalag hv. þm. — núlifandi sérfræðinga um orðmyndun í íslenskri tungu, þó að þeir kynnu kannske ekki að vera jafnframúrskarandi úrtakslaust alvitrir eins og hv. þm. telur Vestfirðinginn Halldór Halldórsson. Vil ég engu nema góðu að honum víkja, en gjarnan vildi ég að hann kynni að bera fram sjálfur k, p og t þannig að það ruglaðist ekki við hina lægri sérhljóða. Leitað verði sem sagt til annarra, ef fróðir menn kynnu að finnast og formaður hv. menntmn. Ed. vildi nú leggja höfuðið í bleyti að hafa upp á slíkum mönnum. En ella er till. mín um að þessu máli verði vísað til menntmn. og um það fjallað þar. Þá vil ég að málið verði lagt í gjörð sameinaðs þings.