21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4820 í B-deild Alþingistíðinda. (5083)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég lagði til að hv. menntmn. fjallaði eingöngu um það sem lýtur að þeirri breytingu sem gerð var á þessu frv. frá upprunalegri mynd, fyrst í þessari hv. deild að tillögu félmn., síðan aftur í hv. félmn. Nd. Ég ítreka það, að hér er ekki um efnisatriði að ræða, heldur um atriði sem varðar meðferð á íslensku máli og grundaða, skynsamlega og kurteislega hugsun í meðferð þess gagnvart fólki sem þingmálið á erindi til. Ég hygg að félmn., sem spjallaði frv. upprunalega með tilliti til dægurmáls og sakamáls sem upp á hafði borið hér við Faxaflóa, sé ekki bær að fjalla um þetta atriði. Henni væri enn þá trúandi til þess að viðhafa annarleg sjónarmið. Því vil ég og æski ég þess af forseta, að borin verði upp undir atkvæði till. mín um að málinu verði nú vísað til menntmn.