21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4821 í B-deild Alþingistíðinda. (5084)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hélt þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði það í fyrri ræðu sinni að till. sinni að vísa þessu máli til menntmn., að hann væri að glettast, og ég tók hann ekki alvarlega. En eftir síðari ræðu hans, þegar hann stendur upp hér formlega til þess að ræða um þingsköp, þá verður að gera ráð fyrir að hv. þm. sé alvara þó ótrúlegt sé. En ég vil mótmæla skoðunum hans. Ég tel að ekki komi til greina að vísa þessu máli nú til menntmn., það sé algjört brot á þingsköpum og þá sé brotin 24. gr. þingskapalaga sem kveður á um það, hvað skuli gera í því tilfelli að deild fær mál endursent.