12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það er margt sem mælir með því, að verðbótaþáttur vaxta verði yfirleitt ekki skattlagður hjá lánveitendum og þá ekki heldur undanþeginn skatti hjá lántakendum. T.d. þyrftu þá seljendur íbúðarhúsnæðis í fjölmörgum tilfellum ekki að krefjast nálægt því eins mikillar útborgunar og nú er gert.

Við skulum hugsa okkur fullorðið fólk sem minnkar við sig húsnæði, fer í sérbyggðar íbúðir fyrir aldraða eða á dvalarheimili. Það selur hús sitt eða íbúð til að tryggja sig fjárhagslega í ellinni. Með núverandi kerfi þarf fólkið helst að fá eign sína að fullu greidda á borðið og leggja peningana inn á verðtryggðan bankareikning eða kaupa verðtryggð ríkisskuldabréf. Af hvoru tveggja eru vextir undanþegnir skatti. Ef sama fólk lánar kaupendunum verulegan hluta söluverðsins fær það fulla skatta af vöxtum af eigninni og einnig þótt mestur hluti þeirra sé í reynd verðbætur vegna verðbólgu. Auðvitað ætti fólkið að geta selt íbúðir sínar og fengið meiri hluta andvirðisins greiddan með skuldabréfi útgefnu af kaupanda til — við skulum segja — 10 ára. Bréfið þyrfti að vera verðtryggt, en með lágum vöxtum og a.m.k. ætti verðbótaþátturinn að vera skattfrjáls. Þetta mundi strax breyta miklu á fasteignamarkaðinum og auðvelda ungu fólki að kaupa sér eldri íbúðir.

Málin standa þannig núna að Byggingarsjóður ríkisins lánar óverulegan hluta kaupverðs eldra íbúðarhúsnæðis og reyndar einnig óverulegan hluta byggingarkostnaðar á hinum almenna markaði. Og það sem verra er: Miðað við stefnu núv. ríkisstj., eins og hún kemur fram í frv. til fjárlaga fyrir 1981, eru alls engar líkur á að þetta hlutfall fari hækkandi í næstu framtíð. Ungt fólk og aðrir, sem eru að kaupa og byggja, að ekki sé talað um þegar það er í fyrsta skipti, hafa engin önnur ráð en þau, ef þeir á annað borð hafa nokkur ráð, að taka vaxtaaukalán til skamms tíma eða önnur enn óhagstæðari lán. Síðan reynir fólkið að velta þessu á undan sér í mörg ár með nýjum og nýjum lánum, ef þau þá fást. Flestum eru þetta drápsklyfjar og fjölmargir gefast upp. Fasteignasalar segja að ungt fólk sé horfið af markaðinum og það segir sína dapurlegu sögu.

Félagslega kerfið hjálpar auðvitað mörgum og er það gott og blessað. En meiri hluti fólks hefur tekjur umfram þau mörk sem gefa rétt til þátttöku í því kerfi og sumir óska frekar af öðrum ástæðum að byggja eða kaupa á hinum almenna markaði. Vegna þessara aðstæðna í þjóðfélaginu, sem því miður er ekki sjáanlegt að fari batnandi með óbreyttri stefnu stjórnvalda, verður að koma ungu fólki og öðrum, sem eru að byggja og kaupa, til hjálpar, að ekki sé talað um þegar þeir eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti.

Herra forseti. Ég styð það meginefni frv. að hækka þau mörk sem lög um tekju- og eignarskatt setja um hámark þeirra vaxta sem frádráttarbærir eru við álagningu tekju- og eignarskatts. Aftur á móti tel ég rétt að þessi frádráttur sé áfram miðaður við kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis, en tíminn, sem þessum frádrætti er ætlað að gilda eftir kaup eða byggingu húsnæðis, verði lengdur verulega, a.m.k. tvöfaldaður frá því sem er í gildandi lögum.