21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4830 í B-deild Alþingistíðinda. (5103)

333. mál, listskreytingasjóður ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér var sagt. Alþingi starfar nú þannig að menn hafa naumast tíma til þess að kynna sér mál, og svo á af eintómri — ég veit ekki hvað á að kalla þetta — tilgerð að fara að mæla hér fyrir máli sem engum manni dettur í hug að einn einasti nefndarfundur verði haldinn út af. Ég held að það væri nær að fresta þessum fundi og gefa þm. tækifæri til þess að kynna sér betur þau stóru mál, sem ætlast er til að menn afgreiði fyrir helgina, heldur en vera að hlusta á einstaka ráðh. setja upp langar tölur af tómum hégómaskap um mál sem ekkert verður gert með, hvorki hér né annars staðar, á þessu þingi.