21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4832 í B-deild Alþingistíðinda. (5106)

333. mál, listskreytingasjóður ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka það fram út af ummælum mínum hér áðan, að þau áttu ekki við efni þessa máls, heldur hitt, að sá er háttur á þessa síðustu daga að setja fótinn fyrir þau mál sem frá einstökum þm. koma ef þeir eru úr stjórnarandstöðunni, en hins vegar níðst á þingvenjum og almennu velsæmi gagnvart sumum málum ráðh.

Varðandi þetta sérstaka frv. vil ég aðeins segja það, að eftir að núv. hæstv. menntmrh. settist í þann stól hafa framlög til myndlistarmála stórkostlega aukist og hann á verulegt hrós skilið fyrir afskipti sín af þeim málum. Og þó ég sé ekki í einstökum atriðum sammála um þetta frv., að svo stöddu a. m. k., þá vil ég samt fagna því, að það skuli fram komið og því frumkvæði, sem hæstv. menntmrh. hefur sýnt varðandi myndlistarmál.