21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4836 í B-deild Alþingistíðinda. (5113)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hefur verið venja öll þau ár sem ég hef átt sæti á þingi, að miklar annir hafa verið bæði fyrir jól og eins í þinglok, og þm. hafa ekki talið eftir sér að starfa þó að vinnudagur hafi oft verið langur. En ég minnist þess, að þegar Alþb. var í stjórnarandstöðu var formaður þingflokks þess lengst af Lúðvík Jósepsson sem sat allra manna best þingfundi og tók mjög virkan þátt í þingstörfum. En hann var strangur í einu og stjórnarliðið varð að láta undan þeirri kröfu hans. Hann sagðist ekki láta bjóða sér að sitja nema tvö kvöld í einu á fundum, þriðja kvöldið vildi hann fá að eiga frí, það væri of mikið álag, þm. þyrftu mörgu að sinna, öðrum fundarhöldum í nefndum í þingi og þingflokkum, það þyrfti líka að lesa margvísleg þingskjöl

Nú skeði það í lok síðasta þings, að hv. Alþingi samþykkti lög nr. 46 28. maí 1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í þessum lögum segir:

„Lög þessi gilda um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn.“

Síðan kemur hverjir eru undanþegnir þessum lögum, og þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„a) siglingamál og önnur verkefni, sem sérstaklega eru falin Siglingamálastofnun ríkisins, sbr. lög nr. 51/1970 og lög nr. 12/1976 um kafarastörf. Einnig alþjóðasamþykktir, sem Ísland er og verður aðili að og falla undir verksvið Siglingamálastofnunar ríkisins, þar með talið um gáma, um flutning á hættulegum efnum, um mengun sjávar o. fl.,

b) loftferðir, sbr. lög nr. 34/1964 og lóg nr. 71/1974 um breyt. á l. nr. 34 1964 um loftferðir. Einnig alþjóðasamþykktir, sem Ísland er og verður aðili að og falla undir verksvið flugmálastjórnar,

c) algeng heimilisstörf í einkaíbúðum.“

Þetta eru einu undantekningarnar frá þessum lögum sem Alþingi samþykkti fyrir u. þ. b. ári. Síðan segir í 52. gr.:

„Vinnutíma skal haga þannig, að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn a. m. k. 10 klst. samfellda hvíld.

Samfelldan hvíldartíma má stytta í 8 klst. með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd, þegar um er að ræða: a) vaktavinnu, b) störf að landbúnaði, c) björgun verðmæta frá skemmdum, svo sem sjávarafla.“

Síðan segir í 54. gr.:

„Vinnueftirlit ríkisins getur veitt undanþágu frá ákvæðum 52. gr. þegar a) starfið er þess eðlis, að ekki er hægt að stöðva starfsemina, b) sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.“

Nú vil ég spyrja hæstv. forseta: Telur hann hér ekki um gróft lögbrot að ræða af sjálfum löggjafanum á ársgömlum lögum? Hér er búið að brjóta þessi lög, og mér er ekki kunnugt um að til Vinnueftirlitsins hafi verið leitað. Forseti skýrir þá frá því. Það ræður ef stytta má þennan hvíldartíma. Nú geri ég kröfu sem einn af meðlimum löggjafarvaldsins að löggjafinn sjálfur brjóti ekki þau lög sem hann setti 28. maí 1980.