21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4837 í B-deild Alþingistíðinda. (5117)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. vitnar hér til laga um vinnuvernd og les þar grein eftir grein. Um framkvæmd þessara laga — ég hef nú ekki lögin hér við höndina — þarf hv. 1. þm. Vestf., jafngjörkunnugur og hann er atvinnulífi landsmanna, ekki að láta sér koma þetta á óvart. Það þarf ekki að segja honum það, að í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Hornafirði og víðar hér í verstöðvum við suðurströndina var unnið ekki einn sólarhring, ekki tvö kvöld, heldur tvo og þrjá sólarhringa, og var ekki álitið brot á lögum. Og það þóttu engar fréttir að það væri unnið til tvö að nóttu. Nú eru það stórfréttir í útvarpi að þm. hafi verið að störfum til tvö s. l. nótt. Það er forsíðufrétt í blöðum og það er ein höfuðfréttin í útvarpi. Framkvæmd laganna er því ekki hagstæð þó að ég vilji á engan hátt gera lítið úr þeirri meginreglu sem sá ágæti maður Lúðvík Jósepsson hefur haft.

En það er talað einhvers staðar í þessum lögum um sérstakar undanþágur ef sérstakt ástand skapist og aðilar geti samið um það sín á milli. Og fyrst leyft var að vinna allt upp í þrjá sólarhringa í Vestmannaeyjum, á Hornafirði og Þorlákshöfn, þá held ég ekki að hæstv. forseti fari í tugthúsið þó að við fengjum að vinna hér eitthvað fram eftir nóttu.