21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (5124)

320. mál, raforkuver

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa frv. lýsti ég því yfir, að ég gæti ekki samþykkt það óbreytt eins og það var lagt fram, og boðaði að ég mundi leggja fram brtt.brtt. liggur nú fyrir og hefur hv. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, lýst henni. Ég er flm. að þeim till., sem hann hefur gert grein fyrir, og hef ég þar litlu við að bæta.

Í upphaflega frv. er að vísu gert ráð fyrir þremur virkjunum án tímaröðunar, þ. e. Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun, auk að vísu Villinganesvirkjunar sem vandséð er hvers vegna verið er að nefna þar til, nema þá helst til þess að ala á hrepparíg meðal þeirra norðanmanna. En sé grg. lesin og framsöguræða hæstv. orkuráðh. skoðuð kemur fram að raunverulega hefur verið raðað og í hans huga er nánast eingöngu Fljótsdalsvirkjun og svo Blönduvirkjun. Sultartangavirkjun kemur einhvers staðar aftast í röðinni. Þessa gat ég um við 1. umr. og ítreka hér enn.

Þetta eru vinnubrögð sem ég get ekki sætt mig við. Ég tel að á þessu stigi málsins verði að gera þessum virkjunum jafnt undir höfði. Og ummæli orkuráðherra í útvarpinu nú nýlega, ögrunarorð hans í þessum málum gagnvart virkjun á Suðurlandi, eru ekki og voru ekki heppileg.

Hér er um þrjá valkosti að ræða sem allir eru taldir hagkvæmir. Undirbúningsvinna vegna þeirra er mjög misjafnlega á vegi stödd þannig að kostnaðarlegur samanburður virkjana á þessu stigi getur ekki verið marktækur. Til þess eru allt of margir lausir endar. Þar er mest áberandi að ekkert er ákveðið til hvers á að nota raforkuna sem fæst með þessum virkjunum. Að sjálfsögðu notast eitthvað fyrir almennan markað, en ef einungis er um það að ræða má segja að liggi ekkert á að virkja. Með þeim aðgerðum, sem Landsvirkjun hefur á prjónunum, telur hún að unnt sé að fullnægja almennum markaði fram undir 1990, þá fyrst þyrfti ný virkjun að takast í notkun. Áður en ráðist er í virkjun er því frumskilyrði að vita til hvers á að nota raforkuna.

Þegar grg. er lesin kemur það fram að enginn veit með vissu til hvers á að nota megnið af raforkunni og því síður hvar á að nota hana. Nokkrar svífandi hugmyndir eru settar fram, en ekkert bitastætt. Þegar taka á ákvörðun um virkjun er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir ýmsum atriðum, m. a.:

Til hvers á að virkja, hver er notandinn, hver eðlis er notkunin og hversu mikil er hún? Hvar er notkunin staðsett? Hvaða verð fæst fyrir raforkuna? Hvað kostar að framleiða hverja kwst.? Hvað kostar að flytja hverja kwst. á notkunarstað og hvenær er þörf fyrir notkunina?

Öll þessi atriði og ýmis fleiri koma inn í dæmið þegar gera á upp á milli virkjunarkosta. En þessu eru gerð harla lítil skil í grg. og af henni verður ekki séð að hægt sé af skynsemi að gera upp á milli valkosta. Til þess þarf að taka á málum á annan hátt og af meiri festu. Draumórar duga ekki.

Ef reisa á þessar virkjanir á næsta áratug hlýtur hver heilvita maður að sjá að raforka þeirra verður ekki nýtt á annan hátt en með orkufrekum iðnaði. Það litla, sem menn hafa verið að gera sér grein fyrir möguleikum í því efni, er nánast ekki annað en umtal um að þetta eða hitt geti komið til greina, nokkrar langlokur í skýrsluformi og annað þess háttar. Markviss leit að kaupendum eða samstarfsaðilum virðist ekki enn vera fyrir hendi.

Brtt., sem ég stend að ásamt nokkrum hv. þm. öðrum, gerir ráð fyrir að bæði virkjunarmálin og orkusölumálin verði tekin miklu fastari tökum en gert hefur verið hingað til og þau mál verði skoðuð í samhengi eins og nauðsynlegt er. Meiri hl. iðnn. hefur lagt fram aðra brtt.till. er viðurkenning á því, að undirbúningi frv. er ábótavant og að nauðsynlegt er að gera betur áður en til ákvörðunartöku kemur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á Þjórsársvæðinu, virkjunarrannsóknir og hönnun við Blöndu og í Fljótsdal haldi viðstöðulaust áfram, en frekari gagna verði aflað um hagkvæmni hinna þriggja stóru virkjana og metið hver þeirra sé þjóðhagslega hagkvæmust. Samkvæmt þeim brtt. þarf ríkisstj. einnig að gera sér grein fyrir möguleikum á orkufrekum iðnaði áður en ákvörðun um virkjun er tekin. Sultartangavirkjun er samkvæmt þeim brtt. færð til jafnréttis við aðra virkjunarkosti þótt grg. frv. og ræða ráðh. segi annað, eins og kom fram hjá mér fyrr. Brtt. meiri hl. iðnn. bætir því frv. frá upphaflegri mynd. En mest batnar frv. ef brtt. okkar nokkurra þm. á þskj. 974 nær fram að ganga.