12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsi H. Magnússyni, fyrir góðar undirtektir undir þetta mál. En ég get ekki látið hjá tíða að gera nokkrar aths. við mál bæði síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar, og hv. 3. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, og skal byrja á þeim fyrrnefnda, Garðari Sigurðssyni.

Hann flytur þá skoðun, sem er góðra gjalda verð og ég veit að nýtur stuðnings víða í þjóðfélaginu, að peningar séu á engan hátt greiddir niður, þ.e. menn greiði eins og framboð og eftirspurn segi fyrir um á hverjum tíma fyrir fjármagnið. Þetta fannst mér sérstaklega athyglisvert að heyra úr munni þm. frá Alþb. vegna þess að það er grundvallarstefna Alþb., eins og hún er sett fram í efnahagsstefnu þeirra, að vexti í þjóðfélaginu eigi að lækka. Við heyrum það dag eftir dag í Þjóðviljanum og dag eftir dag þegar forsvarsmenn Alþb. ræða um efnahagsmál, að ein höfuðmeinsemd í íslensku efnahagslífi, ein aðalástæðan fyrir því, að atvinnuvegir þjóðarinnar standa eins illa og raun ber vitni, séu vextirnir, hinir háu vextir sem greiddir séu og þess vegna beri að lækka þá. Þess vegna er það sérstaklega athyglisvert að heyra þá skoðun frá einum af þm. Alþb., að peningar skuli fylgja framboði og eftirspurn.

Ég tók það sérstaklega fram þegar ég flutti framsögu fyrir þessu frv., að við flm. bærum ekki hag svokallaðra skuldakónga neitt sérstaklega fyrir brjósti, þ.e. þeirra manna sem hafa aðstöðu til að taka mikið af tánum, óeðlilega mikið af tánum e.t.v., auka eignir sínar á þann veg og láta verðbólguna síðan vinna með sér. Ástæðan fyrir þessu frv. okkar er fyrst og fremst sú, að við gerum okkur grein fyrir að sú mikla vaxtabyrði, sem nú hvílir á fólki, ekki síst þeim sem eru að byggja hús, er að sliga menn. Það er hægt að segja með almennum orðum, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson segir, að fara skuli aðrar leiðir til að aðstoða þetta fólk. En við erum með þessu frv. að reyna að horfast í augu við vandamálið eins og það er í dag. Sú staðreynd liggur fyrir, að í áratugi hafa vextir verið frádráttarbærir. Ég veit ekki hversu marga áratugi það hefur verið, en það er víst að vextir hafa ávallt verið frádráttarbærir frá sköttum og sú hefð hefur grópast mjög inn í hugi fólks að svo sé. Þessu er breytt í einu vetfangi nú og fyrst við álagningu næsta árs standa menn frammi fyrir því, að þessi regla, sem verið hefur í gildi, takmarkast mjög verulega. Við teljum að eins og ástandið er, eins og viðhorfin eru sé einfaldasta leiðin og sú fljótvirkasta að halda þessari gömlu reglu þangað til menn geta komið sér saman um einhverja aðra aðferð til að aðstoða húsbyggjendur, hvort sem það er með niðurgreiðslu vaxta eða fjármagnskostnaðar, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson lagði til, eða á einhvern annan hátt. En um það liggja engar till. fyrir, þannig að ég held að sú leið, sem við bendum á hér, sé auðveldasta leiðin, þ.e. að taka upp þá reglu, sem hefur gilt í áratugi, og koma þannig til móts við það fólk sem á í miklum erfiðleikum með húsbyggingar sínar og þær miklu byrðar sem slíkt skapar fólki.

Ég fagnaði þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Austurl., að hann teldi að þau mörk, sem eru í lögunum frá því í febrúar, væru of lág og þau væru miðuð við annað verðlag og rétt væri að hækka þau. Hann taldi hins vegar að það væri of hátt, sem við lögðum til, að hækka markið upp í 4 millj. fyrir einstakling eða 8 millj. fyrir hjón. Auðvitað má ávallt um það deila hvar þau mörk eiga að vera.

Ég er hins vegar ekki sammála því, sem fram kom hjá honum m.a., að það væri aðeins hátekjufólk sem gæti greitt og greiddi svo háa vexti. Ég hef séð framtöl hjá ungu fólki sem stendur í húsbyggingum og það er með ólíkindum hvað vaxtabyrði er mikil og þung á slíku fólki. Þær fjárhæðir, sem margt af þessu fólki greiðir í vexti eða í fjármagnskostnað, vexti og vísitölubætur á hverju ári, standa í engu hlutfalli við þær tekjur sem það fólk hefur. Þetta er vegna þess séríslenska fyrirbæris, sem við þekkjum, að menn fleyta sér áfram á skammtímalánum sem mæta hvert öðru, menn taka hvert lánið á eftir öðru til stutts tíma, borga gamla lánið upp með hinu nýja og mjaka sér þannig áfram hægt og hægt út úr fjárhagserfiðleikunum þangað til jafnvægi hefur fengist í fjármálin eftir það mikla átak sem það er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég hygg því að þó að þetta séu háar vaxtagreiðslur miðað við það sem vitað er um tekjur hjá öllum almenningi, hjá öllu launafólki, sé það samt svo, að margt af því fólki, sem telst til almenns launafólks, beri ótrúlega háa vaxtabyrði vegna lána sinna.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson gat þess réttilega um t.d. húsnæðismálastjórnarlánin, að nú væru aðeins greiddar verðbætur sem teldust vextir í þeim skilningi sem lögin segja fyrir um og væru frádráttarbærar. Það er rétt samkv. því kerfi sem nú hefur verið tekið upp hjá húsnæðismálastjórn. Hitt er annað mál, að það eru mörg lán í gangi vegna þess að það er tiltöluleg a nýlega sem þetta kerfi var tekið upp, — það eru mörg lán í gangi, bæði hjá húsnæðismálastjórn og hjá lífeyrissjóðum, þar sem fullar vísitölubætur eru greiddar út og teljast til útgjalda á árinu. Ég gat þess t.d. í framsöguræðu minni með frv., að lán, sem veitt voru t.d. úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar á árunum 1978 og 1979, eru með hæstu lögleyfðu fasteignavöxtum eins og þeir eru á hverjum tíma. Þeir vextir eru núna 38%, þannig að menn greiða af tiltöluleg a litlu láni, 2.3 millj. kr. láni sem þeir tóku árið 1979, í vexti á þessu ári 874 þús. kr. Þetta er bara eitt lán af mörgum lánum sem margt fólk hefur þurft að taka til að eignast þak yfir höfuðið.

Ég legg áherslu á að þetta frv. miðast fyrst og fremst við að koma til móts við þá erfiðleika sem þetta fólk á við að glíma núna. Það miðar að því að bregðast við brennandi vandamáli sem hvílir á herðum mjög margra, ungra sem gamalla, sem í húsbyggingum standa.

Við höfum líka gert ráð fyrir að ekki yrði skilið á milli lána til íbúðarhúsnæðis og annarra lána. Ég get vissulega fallist á margt af því sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði um að þegar út í svokölluð eyðslulán væri komið, þá væri óeðlilegt að vextir væru frádráttarbærir. Hins vegar er skattstofum fengið nú mjög mikið vald til að vega og meta hvort lán séu í rauninni tekin til húsbygginga eða ekki. Ég kem enn að því sérstaka fyrirbæri hér á Íslandi varðandi lán til húsbygginga, — þessi mörgu lán sem menn eru að taka hvert á eftir öðru til að greiða með niður gömlu lánin. Í fljótu bragði virðist oft og tíðum ekkert samhengi vera á milli húsbygginga og slíkra lána, sem e.t.v. eru tekin mörgum árum eftir að byggingu lauk eða kaup áttu sér stað, og þess vegna ákaflega auðvelt fyrir skattstofur að meta það þannig að lánin standi ekki í sambandi við húsbyggingar þó að svo sé í raun. Þess vegna fannst okkur, að skattstofunum væri fengið ákaflega mikið vald á að meta þetta, og töldum að jafnvel þótt einn og einn óverðugur flyti með væri eðlilegt að taka upp gömlu regluna um að allir vextir ættu þarna undir að koma.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. En mér þótti sérstaklega athyglisverð yfirlýsing hv. 4. þm. Suðurl. um að sú regla ætti að gilda í þjóðfélaginu, að framboð og eftirspurn á peningum ætti að ráða því endurgjaldi sem menn greiddu fyrir þá.