21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (5135)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram, að ástæðan til þess, að ég á aðild að nál. þar sem mælt er með samþykkt þess frv. sem hér er til umr., er sú, að við meðferð malsins í nefndinni hafa fengist fram þær takmarkanir á dragnótaveiðum í Faxaflóa sem tilgreindar eru í fskj. með nál. Í bréfi hæstv. sjútvrh., sem þar er birt, kemur fram að veiðarnar verða nánast í sama horfi og verið hefur að undanförnu. Samþykkt frv. þýðir að nánast verður engin rýmkun frá því sem verið hefur.

Hefði þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. ekki verið tryggð var hins vegar hætta á því, að samþykkt þessa frv. gæti þýtt verulega aukningu á fjölda báta og rýmkun veiða á annan hátt. Ég hefði ekki greitt frv. atkv. eins og það kom frá hv. Nd., þar sem engin trygging hefði verið fyrir því, hvernig heimildarákvæðum laganna yrði beitt, engin trygging hefði verið fyrir því, að veiðunum yrði sem mest haldið innan óbreyttra marka, og algjörlega lagt á vald sjútvrn. hvernig að þeim yrði staðið.

Ég hef að athuguðu máli metið meira að eiga þátt í því, að þessar ákveðnu takmarkanir yrðu settar, og samþykkja frv. þannig, en að greiða atkv. gegn því án þessara takmarkana, vitandi að allar líkur eru á því, að meiri hl. væri einnig í þessari hv. deild til þess að samþykkja það óbreytt eins og það kom frá Nd.