12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, sem flestir stjórnarþm. þyrftu raunverulega sí og æ að vera að endurtaka, að það er undarlegt hve margir hv. sjálfstæðismenn leggjast lágt hér í hv. d. í málflutningi sínum á allra handa máta. Þeir eru að nudda sér utan í krakka út af skattamálunum, hágrátandi, hlutum sem þeir eru sjálfir búnir að margsamþykkja alla áður. En eitt er líka sem fer hálfpartinn í taugarnar á mér, að heyra jafnrólegan og yfirvegaðan mann, að því er virðist, fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík, hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson, vera að snúa út úr máli mínu hér á ómerkilegasta hátt. Ég átti ekki von á því. Hann virðist vera heiðarlegur á framhliðinni. (HBI: Hvernig gerði hann það?) Ég hef ekki verið að mæla með því, að farið sé almennt eftir einhverjum lögmálum um framboð og eftirspurn. Ég var að benda á að flm. þessarar till. eru einmitt hörðustu baráttumenn þeirrar stefnu að láta framboð og eftirspurn ráða í þjóðfélaginu, — og fleiri raunar. Ég sé þarna lærisvein Hayeks út við dyr og lærisveina Thatchers hér til hægri og í öllum áttum. En að ég sé einn af þeim eru auðvitað ósannindi af versta tagi.

Ég var aðeins að benda á ósamræmið í málflutningi þessara manna. Menn geta ekki bæði verið með háum vöxtum og móti háum vöxtum, sami maðurinn. Það er ómögulegt. En með þessum vaxtafrádráttaraðferðum er í raun verið að greiða niður peninga, menn fá peninga á útsölu eða skuldakóngarnir, sem skulda mest, græða mest á þessu. Menn eru að mæta með því sem sagt, að menn græði á verðbólgunni með því að hafa vaxtafrádrátt almennt eftir þessari reglu.

Ég vil leysa málið „öðruvísi,“ eins og hefur verið sagt áður í öðrum málum. Þegar Sjálfstfl. er að koma með till. í málum eins og olíugjaldi vill hann leysa það „öðruvísi.“ Af hverju má ég ekki benda á það, að ég vilji leysa það öðruvísi, alveg eins og þeir? (Gripið fram í.) Ég hef nefnilega bent á það, hvaða leið ég vil fara. Ég vil leysa þennan vanda í húsnæðislánakerfinu sjálfu. Þá þurfa skattstofumenn ekkert að vera í vandræðum með að skipta vöxtunum niður, hvað fer í húsnæðiskostnað og hvað fer í annað. Ef þetta er leyst þarna á einum stað í eitt skipti á ævinni fyrir hvern og einn, þá standa allir jafnir í þeim efnum. En þessir menn eru auðvitað að hugsa um allt aðra hagsmuni þó að þeir séu að reyna að segja að þeir elski launþega í dag, hv. þm. Halldór Blöndal. Nei, því miður, við þekkjum þá, við erum búnir að þekkja þá nógu lengi til þess að vita að það er bara yfirskin. Það eru ekki neinir almennir launþegar sem borga 8 millj. kr. í vexti á ári. (HBI: En sjómennirnir?) Ég ansa ekki neinu fjasi af þessu tagi.

Ég ætla mér hins vegar ekki að flytja neinn lærðan fyrirlestur um það nákvæmlega, hvernig á að útfæra þessar kenningar mínar í þessum efnum. En þær geta ekki verið flóknar því málið er einfalt. Hins vegar er auðvelt að fresta því og fresta, eins og ævinlega gerist hér í öllu kerfinu. Það virðist vera regla númer eitt að fresta öllum málum skjóta þeim á frest hvað eftir annað.

Ég verð að segja, vegna þeirra orða hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar að um þetta liggi ekki neinar tillögur fyrir í dag, að fyrst þeir voru að gera sér það ómak að flytja till. í þessum efnum — af ást sinni á launþegum eins og það heitir, sem maður verður var við núna á haustdögum úr herbúðum þessara manna, bæði úr Garðastrætinu og annars staðar — þá ættu þeir heldur að leggja heilann í bleyti um það, hvernig væri hægt að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll á þeim stað þar sem það á að gera.

Herra forseti. Maður er nú orðinn langþreyttur á því að vera að neita því að hafa sagt þetta og hitt. En ég hélt að ég ætti síst eftir að verða fyrir því sem ég hef orðið fyrir í umr. að undanförnu, að mér væri núið því um nasir að ég væri með hávaxtastefnunni í þjóðfélaginu. Kannske hlustar þessi maður aldrei þegar ég tala hér, þá sjaldan það er. En því fer fjarri, mjög fjarri, að ég sé með þeirri stefnu, allra síst varðandi þá peninga sem fara í afurðalánin, þar sem beitt hefur verið að mínum dómi mjög vitlausri leið og íþyngjandi. Og þegar hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson talar hér klukkutímum saman um íslenska orkustefnu, þá gæti ég talað líka hér klukkutímum saman um íslenska okurstefnu á sjávarútvegi og framleiðslugreinum þjóðarinnar vegna vaxtabyrði.

En það er svona á flestum sviðum. Menn láta sér detta það ótrúlegasta í hug. Meira að segja varð sá sjentilmaður, hv. 1. þm. Vestf., til þess að býsnast yfir því hér í langri ræðu hvað ég væri flokksþægur, kannske eitt af því sem ég átti síst von á.