21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4860 í B-deild Alþingistíðinda. (5142)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, kveður ekki aðeins á um kjarasamninga, heldur og landamerki helstu stéttasamtaka landsins. Það hefur átt sér stað á undanförnum árum mikil deila um það, við hverja hver á að semja og fyrir hverja. Því er ekki að leyna, að það eru stórir hópar innan Alþýðusambandsins sem hafa farið yfir til BSRB á undanförnum árum vegna þess að þar hafa boðist betri kjör, og hefur þetta valdið allmiklum áhyggjum innan Alþýðusambandsins. Það eru dæmi um það að t. d. rafvirkjar, sem vinna hjá ríkinu, séu á 20% hærri launum en þeir sem eru með samninga frá ASÍ, eða það var svo til skamms tíma, og hefur það verið tilefni til mikilla umræðna innan samtakanna, innan Alþýðusambandsins. Þetta eru viðkvæm mál sem ég tel að verði að leysa með samkomulagi samtakanna í milli, en ekki af löggjafarvaldinu.

Alþýðusamband Íslands hefur gert aths. við 1. gr. þessa frv. og skilið hana í raun eins og BSRB. Okkur sýnist að ráðherrar hafi gefið út tvö bréf sem stangist á hvort við annað. Vil ég nú biðja menn að lesa þessar yfirlýsingar mjög vel meðan þetta er í nefnd og af nefndarmönnum. (Fjmrh.: Hvað stangast á við hvað?) Yfirlýsing annars vegar til ASÍ og hins vegar til BSRB. Það er það sem Alþýðusambandið hélt fram, þ. e. landamerkin, hver á að semja fyrir hvern. Og BSRB hefur skilið þetta svona einnig, eftir því sem fjmrh. sagði frá áðan. Hann sagði að BSRB teldi síðustu yfirlýsinguna samningsrof þannig að mál þessi gerast allflókin.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta hér nú, en það verður kannske ástæða til þess við 2. umr. En þetta er það sem fram hefur komið. Þessi samtök, BSRB og ASÍ, hafa haldið því fram, að ráðh. væri þarna að selja báðum sama pakkann. Og það hefur komið út þriðja yfirlýsingin sem á að verka sem einhvers konar plástur á þetta. Ég veit að formaður Verkamannasambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, var þeirrar skoðunar í fjh.- og viðskn., að málið væri mjög varhugavert fyrir Alþýðusambandið, og lét ekki af þeirri afstöðu fyrr en þriðja yfirlýsingin kom fram. En hvort sú yfirlýsing dugar til að leysa þetta, það verður ekki séð við fyrstu sýn alla vega því að lögin hljóta að gilda.

Nú er það, eins og fjmrh. sagði, í valdi forstjóra stofnananna að ákveða hver fær samningsumboðið. Við skulum segja sem svo að hluti starfsfólks eða meiri hluti þess óski eftir að fara inn í BSRB og forstjóri fellst á það. Er það þá ekki sjálfgefið að ráðh. eða fjmrn. tekur því og semur við þetta fólk og við BSRB um kjör þessa fólks?

Ég vildi að þetta kæmi fram hérna, að það eru ekki bara við Alþfl.-menn sem höfum gert, heldur hafa hvor tveggja samtökin, BSRB og ASÍ, gert aths. við 1. gr. þessa frv.