12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Mér hefur skilist það á flestum hv. þm. í þessari deild að við stæðum frammi fyrir miklum verðbólguvanda og við stæðum frammi fyrir miklum efnahagserfiðleikum. Menn hafa talað hér daglega um þetta og spurt: Hvað ætla menn að gera í því? Þm. Sjálfstfl. koma hér skipti eftir skipti með fyrirspurnir af þessu tagi. Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um það, að ég hefði ekki sjónarmið hins almenna launþega í huga þegar ég ræddi þessi mál. Ég taldi mig einmitt vera að tala um þessi mál út frá sjónarmiðum hins almenna launþega. Við virðumst þá a.m.k. ekki leggja sama skilning í það hugtak. En þeir koma hér dag eftir dag og ætla að gera allt fyrir alla. Þeir ætla að lækka tekjuskatt mikið. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur lýst því. Vissulega væri gott að geta lækkað tekjuskatt mikið. Þeir ætla að hækka vaxtafrádráttinn. Þeir ætla að afnema barnaskatta. Ég bíð eftir brtt. þeirra í sambandi við fjárlagafrv. Eða hafa þeir hugsað sér almennt þann málflutning hér í vetur, að það eigi að lækka alla skatta og útgjöld ríkisins eigi að vera óbreytt? Er það sú efnahagsstefna sem þeir ætla að reka á þessu þingi? Mér sýnist að svo sé. Það er út af fyrir sig mjög þægilegt að segja sem svo, að allir vextir skuli vera frádráttarbærir, og það er einmitt það sem þeir eru að leggja hér til.

En sannleikurinn er sá, að það voru gerðar miklar breytingar á skattalögunum á s.l. vetri. M.a. kemur fram í grg. með því frv. að ósamræmi milli meðferðar vaxta í atvinnurekstri og vaxta einstaklinga sé óæskilegt og mjög hættulegt, vegna þess að það skapi millifærslutilhneigingar, eins og segir í grg.: „Slíkt ósamræmi er mjög óheppilegt og skapar tilhneigingu til millifærslu eigna og skulda. Það hefur þótt nauðsynlegt að finna leið til að afnema eða draga úr þessu ósamræmi. Til greina kemur að taka upp hliðstæðar reglur um einstaklinga og lagt er til að gildi um atvinnurekstur.“

Niðurstaðan varð sú, að það þótti ófært að taka upp svokallaða tekjufærslu frá einstaklingum eins og er í atvinnurekstri. Sannleikurinn er sá — og ég vil leiðrétta hv. þm. Halldór Blöndal því að hann sagði að þetta beindist fyrst og fremst að launþegum — sannleikurinn er sá, að vextir í þeim skilningi sem við leggjum í orðið, vextir á Íslandi eru almennt ekki frádráttarbærir í atvinnurekstri eins og málum er fyrir komið í dag. Hér var því verið að reyna að finna leið til að ekki kæmi högg á almenna launþega. Og í forsendum laganna og í grg. kemur þetta m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Meginsjónarmiðið er að létta fólki að komast yfir húsnæði sem er hæfilegt til eigin nota. Hinir tekjuhærri stofna almennt til meiri fjárfestingar og standa undir meiri vaxtakostnaði. Takmarkalaus vaxtafrádráttur kæmi því fyrst og fremst þeim til góða.“

Ef það frv., sem hér er til umr., yrði samþykkt, þá væri það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þá tekjuhæstu. Jafnvel þótt menn reyni að velta á undan sér skuldum þarf enginn að segja mér það, að venjulegur launamaður geti velt áfram skuldum með 8 millj. í vaxtakostnað á ári. Ég hef þá allt annan skilning á orðunum venjulegur launamaður og allt annan skilning á orðinu hátekjumaður heldur en hv. þm. Sjálfstfl. Samkvæmt þeirra mati er hátekjumaður, maður sem hefur a.m.k. yfir 20 millj. í tekjur á ári. En að mínu mati eru þau mörk talsvert neðar.

Í grg. skattalagafrv. í fyrra segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Vilji til slíkrar takmörkunar hefur verið áberandi í pólitískri umræðu um frádráttarbærni vaxta, en hins vegar hefur ávallt komið skýrt fram að taka verði tillit til þeirrar kynslóðar fólks sem heyr harða baráttu að byggja sér og sínum framtíðarheimili. Við mat á hæfilegu hámarki má m.a. líta til þess, hve fólk með almennar tekjur getur staðið undir miklum greiðslum. Erfitt er að finna ákveðna viðmiðun þar sem fólk leggur oft mikla vinnu af mörkum til að ná takmarki sínu. En almennt má segja að hámarksfrádráttur, 1 500 þús. kr. hjá einstaklingi og 3 millj. kr. hjá hjónum, sé innan þessara marka.“

Hér er auðvitað miðað við þann tíma þegar þetta var samið, og síðan hefur allt verðlag hækkað um a.m.k. 60%. Þetta var sett á blað sumarið eða haustið 1979 og átti að gilda fyrir árið 1980, en nú er um það að ræða sem á að gilda fyrir árið 1981 svo að ljóst er að hér þarf að gera breytingu. Og enn segir í grg.:

„Lögin gera einnig ráð fyrir að til frádráttar teljist vextir og áfallnar verðbætur á afborganir. Með þessu er fyrst og fremst litið til þeirrar byrði sem lánin eru á viðkomandi skattþegn, en ekki verðbóta sem koma til greiðslu eftir langan tíma. Útlánastefna, sem gerir ráð fyrir lágum vöxtum og verðbótum, gerir það að verkum, að greiðslubyrði lækkar í fyrstu og hefur það áhrif á hæfilegt hámark frádráttar.“

Það er út af fyrir sig alveg rétt, að það eru í gangi ýmis eldri lán með háum vöxtum. Þau lán hafa rýrnað mikið á síðustu tveimur árum, þannig að ég á ekki von á því að fólk, sem er með slík lán, verði í verulegum vanda statt vegna þeirra. Unga fólkið, sem núna er að koma yfir sig heimili, er miklu meira áhyggjuefni.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar. Ég vil mótmæla því, að ég hafi ekki rætt þessi mál út frá sjónarmiðum hins almenna launþega, a.m.k. eins og ég skil það hugtak. Ég tel, eins og þetta frv. er orðað, að fyrst og fremst sé verið að verja hagsmuni hálaunamanna, og þá má vel vera að það sé stefna þeirra sjálfstæðismanna, að sú takmörkun, sem þarf að verða á einkaneyslu á næsta ári með einum eða öðrum hætti, megi ekki koma við einn né neinn, hvorki hinn lægst launaða né hinn hálaunaða.