12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta gerast allundarlegar umræður og þó vekur það mesta furðu mína, að hv. síðasti ræðumaður skuli standa upp hvað eftir annað og fárast út í þennan frv.-flutning í sama orðinu og hann viðurkennir að mikil nauðsyn sé á þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði með flutningi frv. Hann er búinn ítrekað að benda á að þeim upphæðum, sem eru í gildandi lögum, þurfi að breyta. Þetta var séð fyrir þegar þessi lög voru. sett. Það var bent á það þá, að þessar upphæðir væru of lágar. Og eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson benti á hér áðan, þá var bent á þau miklu viðbrigði sem það mundu verða fyrir skattborgarana að fara úr því kerfi að hafa fullan frádrátt fyrir allar vaxtagreiðslur sínar og yfir í þá miklu lækkun sem lögin kveða á um. Þeir gerðu nefnilega ekki ráð fyrir neinni verðbólgu á tímabilinu sem liðið er síðan. Stuðningsmenn ríkisstj. hafa líklega reiknað með a.m.k. tvöfaldri niðurtalningu á þessu tímabili, niður á við. En hún hefur orðið það upp á við, eins og allir vita. Ég fæ því ekki séð að menn þurfi að hafa mörg orð um þetta. Aðaltalsmaður stuðningsmanna stjórnarinnar, sem hefur hvað mest vit og menntun til þess að tala um þessi mál, viðurkennir nauðsyn þess að aðalefni frv. nái fram að ganga. Okkur getur greint á um hver upphæðin eigi að vera. En hann viðurkennir að það þurfi að hækka þær upphæðir sem í gildi eru. Og það er meginmálið. Ég tek undir það með honum hins vegar, að það getur verið álitamál hvort þetta eigi að vera 3 eða 4 millj. á einstakling.

Þegar við tölum um ungt fólk, sem er að byggja, ber okkur að hafa það í huga, að ungt fólk ræðst nú ekki í byggingu nema báðir aðilar séu vinnandi. Það eru ekki fá dæmi þess, — ekki frekar hér á suðvesturhorninu, kannske síður, en víða úti um land og það í kjördæmi hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, — að tveir slíkir einstaklingar skili 16–18, jafnvel 20 millj. kr. árstekjum. Það þekkist vel, og verður enginn til þess að bera á móti því, að það fólk tilheyri svokölluðum launamannahópum. Ég veit auðvitað ekki hvað þessir herramenn telja launafólk vera. Það fer auðvitað eftir því, hvort þeir eru innan stjórnar eða utan. Ég veit a.m.k. að 1978 töldu þeir alla, hvort sem það voru hálaunamenn eða táglaunamenn, vera launafólk. Og þá var vináttan ekki bundin við þá ást á launafólki sem átti upptök sín í Garðastræti, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson var að tala um áðan. Þá var líka talað um ást á launþegum sem átti upptök sín á Grettisgötu 3. Og þá voru allir elskaðir. Nú þykir þeim hin versta skömm að því, að eitthvað af þeim loforðum, sem þá voru gefin, skuli vera færð í frv.-búning og reynt að rétta nokkuð af allan þann loforðaflaum sem var gefinn. Það þykir hinn mesti galli. En ég geri ráð fyrir að það verði okkar höfuðmál á þessu hausti og á þinginu yfirleitt að benda á þau svik gagnvart launþegunum sem þessir sömu menn segjast öllum öðrum frekar elska.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Garðari Sigurðssyni, 4. þm. Suðurl., — sem á orðið verra með að sitja hér í salnum en jafnvel annar hv. ritari deildarinnar, — að honum sé vel kunnugt um þá launþega, sem ekki verður á nokkurn hátt hægt að stía frá þessum hópi, því að þess eru fjöldamörg dæmi, að þeir geti komist upp í miklar tekjur sum árin — bæði liðin og væntanlega og vonandi árin fram undan — og það verði til þess að þetta fólk ráðist í það stórfyrirtæki í dag að efna til íbúðarbyggingar eða kaupa á hálfbyggðu húsi eða íbúð. Þetta höfum við þekkt og þekkjum frá fyrri tíð. Þetta fólk verður auðvitað að vinna, og það vinnur myrkranna á milli, sem enn þá er hægt vegna þess að við höfum búið við á undanförnum árum og búum enn við næga atvinnu. Undir slíkum kringumstæðum getur þetta fólk komist í mjög háar tekjur. Okkur sjálfstæðismönnum þykir sjálfsagt að stuðla að því, að þetta fólk eignist íbúð, eigið húsnæði. Ef það vill leggja mikið á sig meðan það vill og getur, þá á ekki að refsa því fyrir með því að loka fyrir þennan möguleika, sem hefur verið á undanförnum áratugum, alla vega þau ár sem Sjálfstfl. hefur fengið að ráða nokkru um stefnu í húsbyggingarmálum. Við höfum verið mestir talsmenn þess hér á Íslandi meðal stjórnmálaflokka, að einstaklingarnir sjálfir eignuðust húsnæði, en frá þeirri stefnu hefur mjög verið sveigt hin síðari árin. Ég er alls ekki að halda fram að fleiri geti ekki átt hlut að góðu máli. Á ég þá að sjálfsögðu við að ég tel af hinu góða það átak sem gert hefur verið til styrktar byggingu verkamannabústaða. Ég tek fram, að ég er ekki að gagnrýna það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. En ég vil aðeins undirstrika að þetta frv. er flutt af þm. Sjálfstfl. og það er ítrekað tekið undir það efnislega af aðaltalsmanni Framsfl. og þeirra stjórnarliða allra um fjárhagsmál hér í deildinni. Ég vænti þess, að menn geti þar með látið málið fram ganga. En í guðs bænum, við skulum reyna að forðast það, að við fáum klukkustundaræður frá hv. þm. Garðari Sigurðssyni ofan á þær löngu ræður sem flokksbróðir hans, iðnrh., flytur hér í deild og drepur þar með allan áhuga manna á umráðum um íslenskan iðnað.