12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil nú leiðrétta það fyrst hjá 3. þm. Austurl., að það sé ekki svo að vextir séu frádráttarbærir almennt í rekstri. Auðvitað er það svo, þó svo að tekjuuppfærslan hafi komið til skjalanna, og veit ég að hann segir þetta ekki af vanþekkingu, heldur hefur bara ekki athugað málið nógu vel og þetta dottið upp úr honum að vanhugsuðu máli.

Ég kvaddi mér hljóðs að þessu sinni af því ég sá að hæstv. fjmrh. var kominn inn, og vil minna á atriði í sambandi við skattamál sem voru rædd hér fyrir nokkrum dögum. Þá vakti ég athygli á því, að í jafnmikilli verðbólgu og nú er, hækkuðu tekjur ríkissjóðs meira en útgjöldin. Og ég leyfði mér að viðhafa þau orð, að allir þeir menn, sem eitthvað þekktu til fjárlagagerðar, vissu þetta. Hæstv. fjmrh. steig þá hér upp í ræðustólinn og reyndi að hrekja þessi ummæli mín, en hefur sennilega ekki verið búinn að lesa fjárlagaræðuna sína þá, því að í henni segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu ári er staða ríkissjóðs í viðunandi jafnvægi í fyrsta sinn um árabil. Á fyrstu átta mánuðum ársins er talið að verðlag hafi hækkað um 58%. Á þessu sama tímabili jukust tekjur ríkissjóðs um rúmleg a 60% miðað við sama tímabil í fyrra, en gjöld munu hafa aukist um 50%. Skýringin á bættri stöðu ríkissjóðs er því fótgin í hvoru tveggja, að tekjur hafa aukist um meira en verðlag hefur hækkað, en útgjöld hafa hækkað minna en verðlag. Af þeim tölum, sem ég nefndi, er þó ljóst að langtum minni útgjaldahækkun en nemur verðlagsbreytingum á þessu átta mánaða tímabili er meginskýringin á því, að ríkissjóður stendur nú betur að vígi en á sama tíma í fyrra.“

Svo mörg voru þau orð. Þau sanna að ég hafði rétt fyrir mér í orðaskiptum mínum hér við hæstv. fjmrh. um daginn ef marka má þann hluta fjmrh. sem skrifaði þessa ræðu. En það mun verða svo í þessu eins og oft áður, að ríkisstj. verður hér að rífast við sjálfa sig og veit hvorki upp né niður. (Fjmrh.: Í hverju hafði þm. rétt fyrir sér?) Ég var að tala um það, að ég hefði sagt hér um daginn að vegna hinnar miklu verðbólgu hefðu tekjur ríkissjóðs vaxið meira en útgjöldin. Það kæmi þannig niður, það væri þumalfingursregla og vituð. Þess vegna gæti hæstv. fjmrh. gumað af góðri stöðu ríkissjóðs núna, að hann hefði passað upp á það að verðbólgan æddi áfram, eins og kemur fram í fjárlagaræðunni.

Ég vil svo aðeins ítreka það sem ég sagði áðan: Beinir, háir tekjuskattar beinast fyrst og fremst að launafólki. Launafólk, sem ræðst í íbúðarbyggingar á ári eins og þessu, er náttúrlega ekki lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu, því að það fólk hefur engin tök á að gera það, hefur einfaldlega ekki ráð á því. Sú regla að aðskilja vextina felur í sér mjög mikla vinnu og útlátasama hjá skattstofunum, jafnvel svo að nauðsynlegt getur orðið að fjölga starfsmönnum. Þessi vinna er óarðsöm og gefur lítið í aðra hönd, auk þess sem eftirlitið beinist að því fólki sem engu getur skotið undan. Miklu nær væri, ef ríkisvaldið vildi reyna að afla aukinna tekna með aukinni vinnu á skattstofunum, að beina athyglinni að þeim þáttum þar sem við vitum að skattsvikin eru, auka eftirlitið þar, en láta þá einstaklinga, launþegana, í friði. Skattarnir eru nógu háir, og eins og ég sagði áðan liggur það fyrir, að ríkisstj. hyggst enn hækka tekjuskattana á næsta ári og umfram allt rýra ráðstöfunartekjurnar, draga úr lífskjörunum, eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Austurl.