12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

37. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Lagafrv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 69/1980, en þau brbl. voru gefin út í tengslum við gerð samnings um félagsleg málefni ríkisstarfsmanna í Bandalagi háskólamanna milli fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. annars vegar og Bandalags háskólamanna hins vegar. Þessi samningur var undirritaður 8. sept. s.l. Gert er ráð fyrir því, að við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem taka til félagsmanna Bandalags háskólamanna í þjónustu ríkisins, bætist nýr kafli um atvinnuleysisbætur. Þessum nýju lagaákvæðum er ætlað að tryggja þessum starfsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta á sama hátt og ríkisstarfsmönnum innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sbr. brbl. nr. 68/1980 og frv. til l. um staðfestingu á þeim brbl. sem einnig hafa verið lögð fram hér á Alþingi.

Ákvæðin í þessu frv. eru frábrugðin þeim ákvæðum, sem fjalla um atvinnuleysisbótarétt félagsmanna í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi ná ákvæði þessa frv. einungis til þeirra félagsmanna í Bandalagi háskólamanna sem starfa hjá ríkinu, og í öðru lagi er nefnd sú, sem ákveða skal atvinnuleysisbætur og úrskurða á annan ágreining sem upp kann að koma, einungis skipuð þremur mönnum, einum frá Bandalagi háskólamanna, einum frá fjmrn. og einum skipuðum af Hæstarétti.

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem tengist gerð kjarasamninga við opinbera starfsmenn á s.l. sumri, en eitt af höfuðatriðum þess samkomulags var einmitt það, að opinberir starfsmenn nytu réttar til atvinnuleysisbóta eins og aðrir starfandi launþegar. Hér er þó ekki gert ráð fyrir því, að stofnaður sé sérstakur sjóður í þessu skyni ellegar þessir starfsmenn fái aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði, heldur gengið út frá því, að hugsanlegar atvinnuleysisbætur séu greiddar úr ríkissjóði, en að fylgt sé nákvæmlega sömu reglum og gilda um bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Herra forseti. Ég legg til að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.