22.05.1981
Neðri deild: 106. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4884 í B-deild Alþingistíðinda. (5200)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið við umr. um þetta mál er þetta mál allt of seint komið fyrir hið háa Alþingi. Þar ber hæstv. iðnrh. verulega sök. Þeir, sem um málið hafa fjallað, t. d. iðnn. hv. Nd., taka beinlínis fram, bæði í nál. og ekki síður í framsöguræðu fyrir því, að upplýsingar um þetta mál séu mjög ónógar og að fjölmarga vitneskju beinlínis vanti að því er málið varðar. Hins vegar háttar þingstörfum svo, bæði nú að þessu sinni og raunar iðulega áður, að að því er mál að þessu leyti varðar er Alþingi sett upp við vegg. Það er búið að tengja inn í þetta mjög verulega hagsmuni. Sannfæring mín stendur til þess, að allur þorri hv. þm. viti þetta mætavel, en telji að ábyrgðin sé svo mikil að bregða fætinum fyrir þetta mál, að þó svo að allar upplýsingar eða mjög veigamiklar upplýsingar vanti, þá treysti menn sér ekki til að bera ábyrgð á því að málið nái ekki fram að ganga, m. ö. o. að aðferðin við að samþykkja þetta mál sé í hugum allmargra mjög neikvæð. Þessi vinnubrögð öll ber stórlega að víta. Við erum hér að fjalla um mikla peninga skattborgaranna með mikilli óvissu. Sporin hræða í þeim efnum. Ef Alþingi hefði fengið lengri tíma hefði niðurstaða öll getað orðið öruggari. En þessi niðurstaða er óörugg. Það er ekki þar með sagt að hér hafi ekki átt sér stað langur undirbúningur sérfróðra manna. Þegar þetta dæmi er gert upp og um leið og ég undirstrika þau vítaverðu vinnubrögð, sem af forustu hæstv. iðnrh. hafa hér verið viðhöfð, lýsi ég því yfir að ég greiði ekki atkv.