12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

37. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega það frv. sem hér hefur verið lagt fram og flutt framsaga með af hæstv. fjmrh. En þetta frv. ásamt nokkrum örðum frv., sem eru til staðfestingar á brbl. frá því í sumar og í tengslum við gerð kjarasamninga, eru þess virði að þau séu skoðuð með tilliti til formlegrar hliðar málsins.

Þá vil ég fyrst greina frá því, að mér finnst það heldur óhrjálegt hvernig gengið er frá slíkum frumvörpum og þá fyrst og fremst hvernig aths. slíkra frv. eru unnar, því að þær segja bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut um innihald frv., heldur er aðeins um að ræða endurprentun á efni frv. með því að birta eitt fskj., brbl. sjálf. Mér er kunnugt um að þetta hefur verið gert oft áður og mun vera siður, en mér finnst það vera ósiður, og það eru tilmæli mín, að aths. við frv. til staðfestingar á brbl. séu unnar með öðrum og betri hætti en gert er í þessu tilviki og öðrum samsvarandi tilvikum.

Þá finnst mér eðlilegt að fram komi í aths. slíkra frv. hve mikill kostnaður fylgi þeim réttarbótum sem fást með frv. á borð við þessi. Það er ljóst að hér er um að ræða framlag ríkisins í kjarasamningum, hér er um að ræða aukin réttindi, lögbundin réttindi, og samkv. góðri reglu, sem ég held að samin hafi verið af núv. hæstv. valdhöfum hér á landi, mun eiga að birta með lögum hve mikið þau koma til með að kosta. Mér er ljóst að það er erfitt að meta það í því einstaka tilviki sem um getur í þessu frv., en ég sakna þess í öðrum álíka frv.

Þá vil ég víkja að því, hvort brýna nauðsyn hafi borið til að brbl. væru sett á sínum tíma. Mér finnst ekki koma nægilega skýrt fram hjá hæstv. fjmrh., sem reyndar er lögfræðingur og þekkir þess vegna vel 28. gr. stjórnarskrárinnar, að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða. Ég veit reyndar að þetta hugtak í stjórnarskránni hefur verið teygt og togað í allar áttir, en mér finnst ástæða til þess að spyrja hvort ekki hafi nægt einfalt loforð ríkisstj. um framlagningu á frv. á borð við þetta, en ekki endilega brbl., eins og gripið var til og er reyndar gripið til hér á landi í tíma og ótíma og er einn af ósiðum varðandi þessi mál. Það er beinlínis orðið hættulegt að mínu mati, — og ég tek fram að þessi gagnrýni mín er ekki einungis á núv. hæstv. ríkisstj., heldur á þær ríkisstj. sem á undan fóru. Það er trú mín, að það hefði mátt leysa mál eins og þetta og fleiri með öðrum hætti, einungis með einföldum loforðum, nema loforð ríkisstj. séu ekki tekin gild lengur í þessu þjóðfélagi, og það er þá athyglisvert, ef það fæst staðfest hér í umr. á Alþ. að slík einföld loforð séu ekki tekin gild.

Í þriðja lagi vil ég minnast á það, sem kallaðir hafa verið félagsmálapakkar þessarar hæstv. ríkisstj., en hér er nánast um að ræða anga af því máli öllu. Það er athyglisvert fyrir þá sem eiga sæti á löggjafarsamkomunni, hvernig löggjafarstarfið er í raun af þeim tekið með svokölluðum félagsmálapökkum. Í raun og veru fer pólitíska baráttan og löggjafarstarfið orðið fram í kjarasamningum á milli launþega og vinnuveitenda með atbeina ríkisvaldsins í stað þess að slík mál eiga auðvitað að ræðast á hv. Alþ. þar sem menn eru kjörnir af þjóðinni til þess að fara með slík völd. Það mun hafa verið ætlunin og hugmynd þeirra, sem komu á fót lýðræði í þessu landi og öðrum, að löggjafárstarfsemin færi þannig fram, að hér á Alþ. kæmu fram frv. sem síðan væru rædd, meðrök og mótrök kæmu fram, nefndir störfuðu að málum og umsagna væri leitað. Þetta er sú aðferð sem yfirleitt er notuð. En á síðari tímum hefur þetta verið að breytast í það horf, að ríkisstjórnir leggja fram á Alþ. margvísleg frv. til staðfestingar á brbl. tengd kjarasamningum og öðrum málum og binda þannig hendur meiri hl., þess meiri hl. sem styður ríkisstj. á hverjum tíma, með þeim hætti, að þegar í þingsali er komið er í raun og veru ekkert annað að gera en að segja já og amen við þeim frv. sem hæstv. ríkisstj. leggur fram á hverjum tíma í sambandi við kjarasamninga. Á þetta minnist ég hér, því að hér er framkvæmdavaldið, hér er ríkisstj. vísvitandi að færa valdið frá löggjafarsamkomunni og yfir til allt annarra aðila í þjóðfélaginu.

Ég vil vekja athygli á þessu máli sérstaklega hér vegna þess, að mér þætti eðlilegra að ríkisstj., sem vill binda hendur sinar, gerði það með einföldum loforðum. Hæstv. ríkisstj. getur að sjálfsögðu lofað að hlutast til um að frv. verði lagt fram á Alþ. og það samþykkt, en mér finnst það vera nánast út í bláinn að binda hendur stjórnarþm. með þeim hætti sem siður er að gera. Þessi gagnrýni á ekki eingöngu við um þá hæstv. ríkisstj. sem nú situr. Hér er ég að ræða atmennt um þessi mál.

Mér finnst ástæða fyrir okkur að hugleiða þetta mál í fullri alvöru. Þetta er ekki mál sem er þannig vaxið að menn hafi á því skoðanir eftir því hvar í flokki þeir starfa. Þetta er mál sem hlýtur að koma við starf hvers einasta þm. hér á hv. Alþingi.

Hitt er svo annað mál, að það hefur borið á því í seinni tíð hjá vissum ríkisstj. fremur en öðrum, að félagsmálapakkar hafa reynst vera loforð sem menn selja tvisvar. Þannig getur minnihlutaflokkur á Alþ., flokkur, sem fær fá atkvæði í almennum kosningum, sem ekki á sér viðreisnar von að mynda meiri hl. á Alþ. nema í samstarfi við aðra, farið inn á Alþ. með sín mál inn um bakdyrnar. Það gerist með þeim hætti, svo að ég taki dæmi, að ákveðinn angi sama stjórnmálaflokks biður fulltrúa sína í — við skulum segja stjórn verkalýðsfélags eða framámenn verkalýðshreyfingarinnar að setja fram ákveðin pólitísk skilyrði fyrir því, að kjarasamningar náist, og síðan reynir minni hl. ríkisstj. að koma málinu fram í gegnum ríkisstj. undir þeim þvingunum sem allir þekkja úr kjarasamningum. Með þessum hætti er í raun og veru verið að stilla löggjafarsamkomunni algerlega upp við vegg og takmarka völd hennar. Að þessu standa hv. þm., sem aðild eiga að ríkisstj., og menn verða að átta sig á hvert stefnir í þessum efnum.

Þessi orð mín má ekki skilja á þann veg, að ég sé andvígur ýmsum þeim réttarbótum eða réttindabreytingum sem koma fram í svokölluðum félagsmálapökkum. Ég er einungis að benda á það, að með þessum starfsháttum getum við verið að grafa undan því starfi, sem við erum kjörin til að sinna hér á hv. Alþingi.

Eins og öllum er kunnugt var fjárlagafrv. lagt fram með þeim hætti að stór upphæð var lögð til hliðar. Það kemur fram, að þá upphæð ætlar ríkisstj. að nota annars vegar til þess að greiða fyrir svokallaða félagsmálapakka og hins vegar til að standa undir nauðsynlegum efnahagsaðgerðum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Miklar umr. hafa farið fram á hv. Alþ. á undanförnum dögum um þetta mál, sérstaklega vegna fsp. í Sþ. frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni. Eins og allir vita hefur hæstv. ríkisstj. skotið sér undan að svara grundvallarspurningum. Ég vek athygli á þessu máli í þessum umr. vegna þess, að hér er verið að fjalla um brbl. sem sett voru til þess að efna loforð í kjarasamningum. En á sama tíma fær Alþ. ekki upplýsingar um það, hvernig ríkisstj. ætlar að standa að efnahagsaðgerðum sem hafa margfalt meiri áhrif á nýgerða kjarasamninga. Mér finnst þess vegna eðlilegt að láta á það reyna hér og nú, hvort hæstv. fjmrh., getur í þessum umr., — þótt mér sé fullljóst að það komi málinu ekki við í þrengstu merkingu þess frv. sem hér er til umr., — hvort hann vilji vera svo títillátur að skýra þau ummæli sín sem koma fram í fjárlagaræðunni, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Þess vegna mun ríkisstj. leita sambands við aðila vinnumarkaðarins á næstu vikum og freista þess að ná sem víðtækustu samkomulagi um efnahagsaðgerðir, sem hljóta að miða að því að draga úr víxlhækkunum og sjálfvirkni efnahagskerfisins og stuðla að því að verja þær kjarabætur láglaunafólks sem náðust í nýgerðum kjarasamningum.“

Mér finnst eðlilegt að þegar þau mál, sem varða kjarasamningana, fara til nefndar, þá geti hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar gert sér grein fyrir því, að hve miklu leyti verið er að efna kjarasamninga, annars vegar með þeim frv., sem hér liggja fyrir til umr., og hins vegar með öðrum þáttum í félagsmálapökkum, og svo hins vegar, við hverju launþegar og vinnuveitendur þessa lands megi búast á næstunni, þegar um er að ræða efnahagsaðgerðir sem nokkrir hæstv. ráðh. hafa aðeins minnst á í sínum ræðum, en enginn hefur fengist til hér á hv. Alþ. að gera nákvæmlega grein fyrir.