22.05.1981
Neðri deild: 106. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4887 í B-deild Alþingistíðinda. (5214)

320. mál, raforkuver

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og sakir standa eru litlar eða engar líkur á því, að samkomulag náist í Blöndudeilunni, og er það miður. Samningaumleitanir hafa staðið lengi. Virkjun Blöndu er eitt mesta hagsmunamál Norðlendinga um áratuga skeið og er grundvöllur þess, að unnt reynist að tryggja sómasamlegt atvinnuástand og stöðva fólksflótta úr fjórðungnum. Virkjun Blöndu er einn hagkvæmasti virkjunarkostur sem nú er fyrir hendi, þjóðhagslega hagkvæmt verkefni til hagsbóta fyrir alþjóð. Örfáir menn koma í veg fyrir að unnt reynist að hefjast handa. Grundvöllur afstöðu þeirra er vafasamur, m. a. vegna þess að ríkið á virkjunarrétt á Auðkúluheiði og líkur benda til að það eigi Eyvindarstaðaheiði. Það varðar því þjóðarheill að eignarnámsákvæði orkufrv., sem hér liggur fyrir, verði hert — en það auðvitað tryggt, að fullar bætur komi fyrir til þeirra sem sannanlega eru landeigendur. Samkv. þessari brtt. gefst góður tími eða rúmir tveir mánuðir til að ná samkomulagi í Blöndudeilunni. Takist það ekki er nauðsynlegt að beita eignarnámsheimild laga. Sporin hræða á Norðurlandi: Laxárdeila og Kröfluævintýri. Þessi till. er lögð fram til að koma í veg fyrir endurtekningu slíkra ævintýra. Það kemur auðvitað ekki til greina að fá promille þjóðarinnar komi í veg fyrir að veigamikil hagsmunamál heildarinnar nái fram að ganga. Ég segi já.